Þetta tölvupóstskeyti barst mér í morgun:From: Áskrift Morgunblaðsins
Date: 2009/9/25
Subject: Re: Staðfesting á uppsögn
To: hafdis@gmail.com
Uppsögn þín hefur verið móttekið og afgreitt [sic].
Uppsögnin tekur gildi um mánaðarmótin.
Með kveðju
Áskriftardeild
Morgunblaðsins
===============================================
Moggaklúbburinn
Allir skráðir áskrifendur eru félagar í Moggaklúbbnum og njóta
þar með tilboða um góð kjör á ýmiss konar afþreyingu; bíómiðum,
listviðburðum, bókum og hljómdiskum, auk þess sem, dreginn er út
glæsilegur ferðavinningur mánaðarlega.Ég er hæstánægð með þetta. Hins vegar er ég ekki, og hef aldrei verið held ég, áskrifandi að Mogganum sem gerir málið dálítið furðulegt. Kannski ég og Sveinn Andri ættum að stofna klúbb fyrir fólk sem segir upp Mogganum án þess að hafa verið áskrifendur. Ég ætla að senda honum sms.
AMMLI-AMMLI-AMMLIBADDN!
Mikið er ég fegin að það er föstudagur. Síðustu helgi var stíf dagskrá... djamm og dans fram undir morgun á föstudeginum og vaknað fyrir allar aldir á laugardeginum til að fara í réttir og á hestbak. Áts. Þessa helgina ætla ég bara að hjúkra Sambó sem fer í aðgerð í dag og fara í sterasprautur fyrir brennómótið á laugardaginn... og spila brennó auðvitað. Svo raka ég kannski á mér lappirnar ef ég nenni. Nei, sennilega mun ég ekkert nenna því.
Sæll, er september að verða búinn? Ég er ekki einu sinni byrjuð á verkefnalistanum mínum fyrir veturinn... sem er einmitt þessi:
- Prjóna ullarsokka á Sambó
- Læra að spila á gítar
- Læra að spila á hljómborð
- Kaupa mér hjól
- Baka fullkomið naan-brauð (kannski maður hringi í Eyþór til að fá tips)
- Borga upp yfirdráttinn minn
- Hlusta á allar Jethro Tull-plöturnar
- Hætta að fá unglingabólur
Mér sýnist að ég verði að fara að bretta upp ermar - það eru bara alveg að koma jól. Hver vill lána mér gítar?
Ooooh, mig dreymdi að ég hefði keypt mér rauða tveggja bolla espressó-könnu, alveg í stíl við Kitchen Aid-vélina sem ég er með í láni. Ég verð að fá svoleiðis.
Í nótt slóst ég ægilega við Einar Örn Sykurmola í draumi. Við vorum inni í gamalli og risastórri íbúð og það var fullt af fólki í kringum okkur, þ.á m. Sambó, en enginn skarst í leikinn. Einar reif upp viðargólflista og ætlaði að berja mig í klessu með honum en ég náði að teygja mig í járnstöng sem ég gat varið mig með. Þetta var blóðugt og hryllilegt. Sem betur fer vaknaði ég áður en Einsi murkaði úr mér líftóruna. Það er stórundarlegt að mig dreymi þennan mann; mér finnst mér hann reyndar hundleiðinlegur tónlistarmaður en það er ekkert að bögga mig svona dags daglega. Kannski sá ég hann í Bónus eða eitthvað án þess að taka eftir því.
Ég á sennilega 40-50 pör af skóm en enda alltaf á því að fara í sömu gatslitnu og sjúskuðu adidas-strigaskóna þegar ég fer út úr húsi. Þetta er vegna þess að ég er haldin sjúkleika sem lætur mig kaupa skó sem eru fallegir á að líta en sérlega ópraktískir til daglegra nota. Það er slæmt fyrir fólk eins og mig sem er yfirleitt fótgangandi. Ætli það sé til stuðningshópur fyrir þetta?