Harmsögur ævi minnar

27.8.05

Jæja, er að búa til stundaskrá fyrir næsta vetur, allt merkt inn: heimalærdómur, útihlaup, þrif og allt. Og auðvitað verður farið eftir þessu frá A til Ö.

Merkilegt hvað maður er alltaf fullur metnaðar í byrjun nýs skólaárs. Ætlar að setja allt jafnóðum í möppur, læra eftir hvern tíma og vera duglegur að lesa jafnt og þétt. Bregst svo ekki eins og Jónsi benti á nýlega að maður endar í kúk rétt fyrir próf, ekki búinn að gera rassgat og finnur krumpaðar glósur og minnismiða í úlpuvösum. En ég ætla samt að gera stundatöfluna, maður fær nú plús fyrir góða viðleitni. Er ég plebbi ef ég set "þynnka" á sunnudaga?

Annars er víst kveðjupartýið mitt í kvöld. Búin að setja klaka í frysti fyrir kæliboxið og þarf að fara að kaupa vodka og alls konar góðgæti. Þetta verður skrautlegt.

Fullt af nýjum og skemmtilegum meðleigjendum í húsinu sem ég þarf því miður að skilja eftir. Þýski læknaneminn sem er nýfluttur inn kom með þessa forláta egypsku vatnspípu (eins og púpan þarna í Lísu í undralandi notaði), og nú sitjum við á kvöldin í góðum fíling og reykjum eplatóbak og drekkum bjór. Mig langar sko ekkert heim.

24.8.05

Hvað á maður að gera þegar maður er að reyna að læra en músartakkinn rennur alltaf óvart á spider solitaire?? Ég er steinhissa á þessu. Og by the way... hefur e-r klárað hann með fjórum sortum? Ég geeet ekki...

Er annars komin með þvílíkan kvíðahnút í magann að mér yrði örugglega ekkert úr verki hvort sem er... ég snýst bara í hringi. Úff.

23.8.05

Mikið þoli ég stundum ekki ofursparsama meðleigjendur. Það Á EKKI að kaupa ódýrasta klósettpappírinn. Nú er t.d. bara til e-r ógeðspappír sem er svo þunnur og laus í sér að hann endurvinnur sig sjálfur beint á rassgatinu á manni. Nú spyr ég, er það sparnaður að þurfa að nota heila rúllu í einni ferð? Nei.

Blöööö, nú eru allir byrjaðir að spyrja mig hvort ég ætli ekki að halda kveðjupartý eða eitthvað. Mér líst svo óendanlega illa á það að það er ekki eðlilegt. Ég á pottþétt eftir að enda blindfull og grenjandi og þetta verður bara neyðarlegt fyrir hina. Ég hálfsé eftir því að hafa sagt hvenær ég færi, hefði frekar átt að láta mig bara hverfa þegjandi og hljóðalaust.

Ég er að koma heim eftir rúma viku. Það er náttúrulega fáránlegt. Ég er að verða bilað stressuð og veð úr einu í annað svo mér verður ekkert úr verki. Læri í kortér, fer svo að henda drasli sem ég nenni ekki að taka með, hleyp svo út úr húsi og vafra um miðbæinn í 7 klukkutíma. Mikið panikk í gangi. Ég er líka að verða bólugrafin af þessu stressi, skil ekki hvað í andskotanum er að mér... ný bóla á hverjum degi, ojjj.

Svo ætlaði ég að fara á ströndina aðeins áður en ég kæmi heim (til að vera ekki alveg jafn hvít og þegar ég fór) en nei, þá er bara búið að vera íslenskt haustveður hérna takk fyrir; rigning og rok. Fokk jú.

19.8.05

Djöfulsins andskotans ógeðs flugfélög. Var að tékka á icelandexpress.is og flugið mitt 31. ágúst er á tilboði á 5000 kall. Þegar ég er nýbúin að kaupa miðann á miklu meira. Annnnndskotinn. Það munar næstum tíuþúsundkalli sem ég hefði glöð viljað eyða í snyrtivörur og alls konar drasl í fríhöfninni. Ef ég þarf svo að borga yfirvigt í ofanálag þá snappa ég. Ég sver það, ég á eftir að ganga algjöran berserksgang á flugvellinum. Ég verð þá kannski send ókeypis heim með Con Air eða eitthvað. Ef ég verð framseld þ.e.a.s.

Argasta...

18.8.05

Úff, læri lær. Er að þræla mér í gegnum einhverjar málfræðibækur til að geta skrifað þessa blessuðu ritgerð. Ég myndi ekki skilja þetta þó það væri á íslensku, hvað þá á ítölsku. Hef samt á tilfinningunni að það sé verið að segja einfalda hluti á flókinn hátt. Ég get samt náttúrulega ekkert sannað það þar sem ég skil ekki neitt.

Fór annars í hrikalega skemmtilegt partý á mánudaginn, og fer væntanlega í annað á morgun. Gott gott.

Át súputening áðan og hann festist allur í gómnum á mér. Ég man ekki eftir því að það hafi gerst áður... alltaf er maður nú að lenda í ævintýrum.

10.8.05

Ó mæ:
In a Past Life...

You Were: A Greasy Poet.

Where You Lived: Thailand.

How You Died: Suicide.

Sardinísk ungabörn eru allt öðruvísi en íslensk. Þau eru með e-ð svo flata hauskúpu. Þau eru eiginlega alveg eins og litla barnið í Family Guy. Kannski ekkert algilt þar sem ég hef bara séð eitt sardinískt ungabarn. En hann minnti mig geðveikt á Stewie.

Ég má bara ekkert vera að því að blogga... þarf að læra og undirbúa partý. Allt að gerast. Þetta stoppar mig reyndar ekki í að lesa annarra manna blogg. Sei sei.

Sú þýska hefur ekkert látið sjá sig aftur, ég trúi ekki að hún, mamman og pabbinn ætli að vera saman í tjaldi í 4 vikur. Í hita og svita. Ég er hrædd um að ég væri farin yfirum.

4.8.05

Ojojoj, ekkert meira kakómalt með haframjöli. Haframjölið mitt er nefnilega stútfullt af hvítum lirfum. Sumar voru meira að segja orðnar að ógeðslegum fiðrildum sem flögruðu upp úr og framan í mig þegar ég opnaði. Ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig þetta gat gerst þar sem ég var með mjölið í lokuðu plastboxi. Helvítis pöddur... hvað á ég nú að borða? Bara kakómalt kannski? O jæja, maður nærðist nú ósköp vel meðan fröken Dóra var í heimsókn. Kannski dey ég ekki úr næringarskorti. Kannski.

Annars er ég að spá í að drífa mig út á land í nokkra daga og anda að mér sveitasælunni. Vona að það verði ekki mikið af pöddum. En þar er engin nettenging þannig að ekki örvænta ef ekkert verður skrifað. Maður er reyndar vanur að taka sér pásur núorðið.

Matthildur hamstur er aftur orðin skrýtin. Það er eitthvað ógeðshorn að vaxa upp úr hausnum á henni. Kannski hún þurfi að fara aftur á fúkkalyf. Spurning hvort hún sé bara að deyja. Ég heyrði e-s staðar að hamstrar yrðu bara tveggja ára og hún er alveg örugglega orðin það blessunin.

3.8.05

Jæja, tsjill... fröken Dóra í heimsókn og ekkert gert nema versla, fara út að borða og sitja á torgum með ávaxtakokteil í hendi. Fínt, nema hvað ég er alveg að fara á hausinn af öllu þessu kæruleysi og spreði.

Er komin með íbúð á elskulegum stúdentagörðum. Hún losnaði því miður í byrjun ágúst og neyðist ég þess vegna til að punga út fyrir leigu í heilan mánuð áður en ég kem heim. Það er skemmtilegt. Staðfest heimkoma 31. ágúst og fyrsti fundur málfarsfasistanna verður væntanlega haldinn fljótlega eftir það.

Ef einhver nennir að fara í nýju íbúðina mína og bóna dúkinn áður en ég kem heim væri það vel þegið. Takk takk, nú þarf ég að fara að versla meira með frökeninni.