Harmsögur ævi minnar

29.3.07

Ég og minn kæri R fórum á Sólon um daginn og snæddum tapas og rauðvín með. Það var í einu orði sagt geggjað. Brjálæðislega gott. Svo lækkaði líka Sólon verðin á matseðlinum um 6% sem er gott. Mmmm mig langar í svoleiðis núna. En það er víst stroganoff í matinn. Sem hjásvæfan er að útbúa af því ég er svo viðbjóðslega löt og ömurleg. Ég sofnaði meira að segja á bókhlöðunni í dag. Ég hef sofnað á bókasöfnum í þremur löndum, geri aðrir betur.

Ég fór líka á Sirkus í gær í bjór með frábæru fólki. Það var skemmtilegt. Hitti svo gamla félaga í kvöld. Þetta er allt saman æðislegt.

28.3.07

Djöfull er bókhlaðan myglaður staður. Ég er alveg að fá beinkröm úr leiðindum hérna.

27.3.07

Jæja, nú er komin vika síðan ég kom heim. Ég er búin að hafa það svo frábært að ég skammast mín. Ekkert nema hangs, rómantískir veitingastaðir og kaffihús með mínum heittelskaða og fleiri eðalmanneskjum (og á þó ennþá eftir að hitta marga). En nú þarf ég að fara að spýta í lófana og snúa aftur yfir í hið daglega amstur. Og svo þarf ég endilega að skrifa eitt stykki mastersritgerð.

Mér finnst ekkert svo frábært að snúa aftur í raunverulega lífið. Ég væri sko miklu frekar til í að sitja á huggulegum stað daginn út og inn, með rauðvínsglas í hönd og spjalla, fara út að borða og hangsa með kærastanum. Langt frá vísareikningum, yfirdráttarheimildum, námslánum og skólaveseni. But who wouldn't?

Annars gaman að segja frá því að ég er aldeilis búin að lenda í ævintýrum í dag. Var komin á fætur klukkan sex og er búin að keyra danskan ungling í skólaferðalag, brjóta lappirnar (óvart) undan eldhúshillu, borða kínverskan með kærastanum, spjalla við leigubílsstjóra um svæðanudd, lesa smá hljóðfræði og ýmislegt fleira gagnlegt. Ég held mér hafi ekki orðið svona mikið úr verki síðan ég bjó til eftirlíkingu af Eiffel-turninum úr heftum á mettíma haustið '91. Good times maður, good times.

22.3.07

Jedúddamía hvað það er notalegt að vera heima. Er í góðu yfirlæti hjá ástmanninum, sem reyndar þurfti að fara að vinna í dag svo ég hangi á náttfötunum og borða súkkulaði yfir vídeóglápi. Búin að knúsast fullt, fara út að borða og á pöbbinn og spjalla og alls konar. Þetta er æði. Djöfull væri það mikil snilld að þurfa aldrei að gera neitt nema ofantalið. Og nei, mér myndi sko ekki leiðast.

Ég þarf nú reyndar bráðlega að fara að læra, en æi ekki alveg strax. Er svo ekki kviss og fyllerí á morgun?

Og síðan er ég komin með óskalista yfir fólk sem ég vil taka upp fyrir mastersritgerðina mína en þori ekki að birta hann hér. Ég sendi sms eða hringi von bráðar. Be afraid my friends, be veeery afraid.

20.3.07

Jæja þá er bara að pakka og drulla sér heim. Arríba!

15.3.07

Fyrirlesturinn gekk þrusuvel, öllum gekk vel, önnin er búin, ég er að springa úr gleði og að koma heim á þriðjudaginn! Ég er farin á pöbbinn að fagna með bekkjarfélögunum. Jabadabadú!

14.3.07

Jááása hvað ég er að drulla í brækurnar yfir þessum fyrirlestri á morgun.

13.3.07

Ég fór í dag og ætlaði að kaupa mér nærföt. Það er ekkert jafn niðurdrepandi og að máta nærföt. Hvað er málið með þessa lýsingu dauðans? Ég leit út eins og strandaður búrhvalur (í blúndubrjóstahaldara þó) og ákvað að kaupa ekki neitt. Svo langaði mig í kinnalit en liturinn sem ég vildi var ekki til. Fussumsvei.

10.3.07

Hvað er málið með þetta fyrirlestrasjúka fólk hérna? Er að undirbúa mig undir að undirbúa eitt helvítis kvikindið enn. Síðasta stykkið (loksins) en heldur mikilvægara því það verður gefin einkunn af einhverju ókunnugu fólki og margir að horfa. Og ég veit ekki einu sinni hvað ég ætla að tala um. Ég veit ekki hvernig ég lenti hérna, svei mér þá.

°°°

Þessi rækt er ekki alveg að gera sig. Er ekki búin að fara síðan á mánudag því ég er búin að vera svo upptekin við að læra, fara á pöbbkviss, drekka tveir fyrir einn kokkteila, hitta fólk í kaffi, fara á bókasafnið og slugsast. Samt sem áður (og þrátt fyrir nokkur aukakíló...) er ég í dúndrandi stuði og góðu skapi þessa dagana. Hér er nefnilega vor í lofti og Cambridge er sjúklega falleg og yndisleg. Oooog ég fer að koma heim eftir ogguponsu! Allt er bara frábært í augnablikinu.

8.3.07

Jæja, situr maður ekki og rembist við að klára fyrirlestur fyrir morgundaginn. Á síðustu stundu? Ég?

°°°

Ég fór annars á geggjaðan fyrirlestur með Judith Butler í dag. Hann var eiginlega bara alveg frábær. Eitthvað verður maður að finna sér til dundurs fyrst lærdómur er í lágmarki. Einkunnir komnar í hús og eru fínar, sem er magnaður andskoti miðað við hvað mér tókst að draga það á langinn að skrifa þessar blessuðu ritgerðir. Ég er því ekki á heimleið alveg strax. En það er allt í lagi vegna þess að það er svo margt skemmtilegt framundan og veðrið er að verða gott. En ég hlakka líka rosalega til að kíkja aðeins heim í frí og páskaegg.

°°°

Og OJ OJ OJ!!! Fór inn á klósett áðan til að tannbursta mig og á móti mér æddi risakönguló!! RISAKÖNGULÓ SEGI ÉG!! Ég og hin stelpan öskruðum á piparmyntudúdda sem sagðist ekki koma nálægt svona kvikindum. Sem betur fer kom Hollendingurinn okkur til bjargar og henti villidýrinu út. Ég vildi reyndar drekkja helvítinu í klósettinu en þau voru nú ekki á því. Af hverju ekki? Kill'em all I say. Ojjj bara.

6.3.07

Í gær fór ég á fyrirlestur með William Labov og Gillian Sankoff. Þau eru rokkstjörnur í málvísindaheiminum og var fólk gríðarlega spennt yfir þessu öllu saman. Ég hélt nú ró minni, enda átti ég ekki von á að geta einbeitt mér að hlustun í þrjá tíma. En þetta var mjög skemmtilegt.

Svo var haldið á pöbbinn með rokkstjörnunum sem yfirgáfu svæðið þó snemma og við restin urðum eftir til að taka þátt í kvissi. Kviss var skemmtilegt. Fórum svo á annan bar og svo í sveittan borgara með ógeðslega miklu mæjónesi (megrunin ónýt big time).

Þegar hér var komið sögu voru menn orðnir ansi kenndir og ég sendi ógeðslega væmið og glatað sms til kærastans. Það er svo asnalegt að senda sms þegar maður er fullur... það ætti hreinlega að vera bannað. Eitt er þó að senda neyðarleg sms til kærastans síns. Annað, og öllu verra, er að senda það til karlmanna sem eru EKKI kærastar manns. Ég hef einmitt líka lent í því, og strokað út ófá símanúmer úr símanum í kjölfarið til að slíkt endurtaki sig ekki. Ég átti líka einu sinni síma sem geymdi öll send sms, og guð minn góður hvað það gat verið pínlegt að kíkja á þau í þynnkunni. Þetta er nú sem betur fer liðin tíð, en ég fæ ennþá hroll þegar ég hugsa um hvað maður gat verið vitlaus stundum.

4.3.07

Oj, það er farið að leka súkkulaði út úr eyrunum á mér. Hingað og ekki lengra, nú léttist ég um 10 kíló áður en ég kem heim. Sem er einmitt... 20. MARS!!! Jibbí jei, og það í heilan mánuð. Ofsalega verður það fínt. Ég er svo keleríssvelt að ég nota hvert tækifæri til að snerta bekkjarfélaga mína við misgóðar undirtektir. Sumir eru þó orðnir vanir og kippa sér lítið upp við faðmlögin og káfið frá mér.

°°°

Engar einkunnir komnar enn, en orðið á götunni er það að allir hafi náð ritgerðunum. Þá bara segjum við það þangað til annað kemur í ljós.

°°°

Hingað er fluttur nýr meðleigjandi, rúmlega tveggja metra hár Hollendingur sem virðist hress við fyrstu kynni. Veitir svosem ekkert af því að hrista aðeins upp í þessum dauðyflum í húsinu mínu. Þó vil ég halda drykkju og saurlifnaði í lágmarki því ég þarf jú að læra líka. Same old same old.

°°°

Mér reiknast til að ég eyði þriðjungi námslánanna minna í Subway. Subway er nálægt mér og hentugt að hlaupa þangað þegar mig langar ekki í grænmetisruslið sem ég er alltaf að kaupa og tel sjálfri mér trú um að ég eigi eftir að borða. Really? Nei takk. Á Subway vinnur fólk sem er ekkert gríðarlega sleipt í ensku. Af því leiðir að ég fæ stundum viðbjóð eins og gulrætur, maís og jalapeno á bátinn minn, en engar ólífur og alls konar sem mér finnst gott. Það er leiðinlegt. Eeeen ekkert lífshættulegt.

Ég var búin að gleyma hvað þetta er ógeðslega flott myndband: