Harmsögur ævi minnar

27.1.08

Hvaða helvítis pjölluloð er nýi kærastinn hennar Britneyar með framan í sér? Jakk!



(Og af því ég er búin að vera svo lengi í háskólanámi þá finnst mér ég verða að geta þess að myndin er tekin af dlisted.com en hverjum er svosem ekki drullusama?)

24.1.08

Ég var að láta mér detta í hug að henda nokkrum myndum inn á bloggið. Af því að mér finnst gaman að skoða myndir hjá vinum mínum (og öðru fólki reyndar líka). Skýtur þá ekki helvítis vænisýkin upp kollinum. Það geta allir skoðað þetta, jedúddamía að setja inn myndir af mér og mínum hérna inn... það er náttúrulega óðs manns æði! En spurningin er þessi: Á ég að þurfa að sleppa því að setja inn myndir, bara af því að ég sjálf er geðsjúkur stalker sem er alltaf að skoða eitthvað sem mér kemur ekki við? Nei segi ég! Maður lætur nú ekki einhverja sikkópatta úti í bæ stjórna lífi sínu. Hvað þá þegar sikkópattinn er maður sjálfur.

Skráning í símaskrá virðist bara ekki hafa haft nein slæm áhrif á líf mitt, og enn sem komið er hafa engir morðingjar eða nauðgarar hringt. Reyndar hefur enginn hringt nema pabbi og Gallup-maðurinn þannig að ég hefði getað sparað mér eitt magasár þarna.

22.1.08

Ég tók risaskref í vikunni og skráði mig í símaskrána. Jább, bæði heimasímann og gemsann, hvorki meira né minna. Stundum líður mér ágætlega yfir því en stundum gæti ég nagað neglurnar niður að kjúkum af stressi yfir því að einhver geti flett mér upp sisvona á já.is. Það er ekki eðlilegt að vera svona nojaður... það mætti halda að ég væri gagnnjósnari fyrir KGB. Nei og nei, ég ákvað að horfast í augu við óttann og skrá mig. Næsta skref er að svara í símann jafnvel þó ég þekki ekki númerið (nú heyri ég fólk taka andköf yfir hugrekkinu).

E.s. Just because you're paranoid don't mean they're not after you.

E.e.s. Noh, fékk mitt fyrsta Gallup-símtal áðan... ég hefði kannski átt að láta setja rauðan kross?

21.1.08

Fyndið að hlusta á vælið í nýja minnihlutanum í Reykjavík áðan... allir geðveikt sárir yfir svikum og prettum Óla. Var þetta ekki nákvæmlega það sama og Bingi gerði fyrir þremur mánuðum? Ekki það að ég hafi viljað fá sjálfstæðismenn til valda aftur - alls ekki. En það þýðir ekkert að vera með svekkelsi, svona er þetta bara.
---
Mér finnst mjög gaman að glápa á handbolta, enda eina íþróttin sem ég hef nokkru sinni nennt að æfa. Hins vegar er ég alveg laus við það að tapa mér úr bjartsýni í stórmótum vegna þess að það verður að segjast eins og er: við erum bara ekkert sérstaklega góð.

Ég held að Íslendingar haldi að handboltalandsliðið sé gott af því við sökkum aaaaðeins minna í handbolta en öðrum íþróttum. Sannleikurinn er sá að á góðum degi, þegar allt gengur upp, erum við bara sæmileg í handbolta. Ekkert meira. Þess vegna er ég alveg sallaróleg yfir þessu blessaða Evrópumóti.
---
Og talandi um handbolta, þá var ég einu sinni skotin í Júlíusi Jónassyni, Einari Þorvarðarsyni og, jú, Guðmundi Hrafnkelssyni. Fjúff, það var gott að koma þessu frá sér. Ég var reyndar svona tólf ára en ég held svei mér þá að það sé ekki afsökun.

17.1.08

Oooo, var að sjá auglýsingu fyrir Bachelor. Það er sko einn af mínum uppáhaldsþáttum en ég missi oftast af honum því ég er yfirleitt full á föstudögum. Einhvern veginn tekst mér líka að missa af öllum 700 endursýningunum. En þetta er gull, gull segi ég. Ógeðslega vitlausar og sturlaðar bakstingandi herfur og alltaf einhver smurður gubburæpu-captain-america-dúd með risakjálka. Þvílíka snilldin.

16.1.08

Ef ég finn augnhár, blæs á afmæliskerti, sé stjörnuhrap eða eitthvað annað sem gefur eina ósk, þá ætla ég að óska mér þess að ég geti hneppt gallabuxunum mínum á morgun. Að öðrum kosti neyðist ég til að drullast í ræktina.

Ó meeeen, mig langar í þetta.

13.1.08

Jæja... nýja árið byrjaði ægilega heilsusamlega en núna liggjum við hjónaleysin uppi í sófa, nýbúin að troða í okkur sveittum beikonborgara og ís, með tveggja lítra kókflösku og öskubakka á milli okkar. Kósý. Skvassspaðarnir sem við keyptum um daginn eru strax byrjaðir að safna ryki en það þýðir nú ekkert að gefast upp strax, seiseinei... þetta verður bara tekið með trompi strax á morgun.

Ég get kannski grafið upp gamla eldflaugar-magaþjálfann sem ég pantaði úr sjónvarpsmarkaðinum í einhverju fitubollukasti fyrir mörgum mörgum árum. Þó held ég að pabbi hafi hent honum... enda gerði hann ekki mikið annað en að merja í manni líffærin. Þ.e.a.s. magaþjálfinn ekki pabbi.

Mig langaði líka einu sinni ógeðslega mikið í Tae-Bo spólurnar sem voru til sölu í sama sjónvarpsmarkaði. Fyrrverandi tók það ekki í mál að eyða peningi í svona vitleysu sama hversu mikið ég henti mér grenjandi í gólfið og lofaði að Tae-Bo-ast öllum stundum ef ég mætti fá þetta. Ég er dauðfegin að hann sagði nei og ég er sem betur fer ekki jafn ginnkeypt fyrir svona drasli í dag.

Sérstaklega langar mig ekki í kandíflossvélina í Vörutorgi. Kandíflossvél??? Tilvalin í barnaafmælið... je ræt, glætan að ég myndi leyfa kandíflosskámugum smákrökkum að hlaupa um heima hjá mér og klína út um allt. Bjakk. Má ég þá frekar biðja um hressandi Tae-Bo æfingu.

9.1.08

Þar sem ég bý á 35 fermetrum háir það mér svolítið að ég er með króníska krukku- og boxasöfnunaráráttu. Hér má ekkert kaupa í neins konar íláti án þess að ég skrúbbi og nuddi límmiðana af og geymi svo umbúðirnar, svona til öryggis ef ég færi allt í einu að taka upp á því að búa til rifsberjahlaup eða ógeðslega mikið af kanilsnúðum.

Í gær komst ég í feitt í vinnunni þegar ég sá öll tómu smákökuboxin sem var verið að fara að henda. Einmitt það sem mig vantaði undir heimatilbúið múslí! Ég minntist á þetta við ástmanninn en hann harðbannaði mér að hirða boxin. Ég stalst samt til þess að taka þau í dag... laumaði þeim inn í úlpuna þegar hann kom að sækja mig og faldi svo góssið þar sem ég veit að hann mun aldrei finna það... í óhreinatauskörfunni. Ég er yfir mig ánægð með þetta útsmogna ráðabrugg, en hins vegar verða blessuð boxin sennilega í óhreinatauskörfunni þangað til við flytjum. Það er nefnilega alls ekkert pláss fyrir þau neins staðar.

7.1.08

Haldiði að maður sé bara ekki búinn að vera lasinn og ég veit ekki hvað og hvað! Allir á lífi þó og allt að skríða saman.

Reykleysið gengur vel á heimilinu og bara merkilega lítill pirringur í gangi. Upp hafa komið tillögur um að hafa þennan janúar áfengislausan mánuð þar sem viljastyrkurinn virðist helst bíða ósigur þegar ískaldur öl er kominn í hönd. Því er kannski réttast að sleppa slíku svona rétt yfir erfiðasta tímann. Mig langar svosem ekkert voðalega í sígarettu dags daglega. Hins vegar á ég mjög erfitt með að ímynda mér það að fá mér í glas og geta ekki reykt og er skíthrædd við að ég eigi eftir að freistast. Mér finnst eiginlega alveg hörmuleg tilhugsunin um það að reykja aldrei framar... eeeen við sjáum til hvernig þetta fer allt saman. Ég get bara ekki með nokkru móti eytt svona miklum aur í þetta kjaftæði lengur. Og á meðan verður Bakkus bara að vera í pásu.