Harmsögur ævi minnar

27.10.06

Vá hvað lífið hérna er að verða alveg eins og heima, bara með eldri byggingum og öðru fólki (besta fólkið mitt er náttúrulega á klakanum, því miður!).

Það er semsagt sama gamla sagan, alltof mikill bjór, alltof mikið af sígarettum, alltof óhollur matur og alltof lítill lærdómur. Ég var alveg að fara að stressa mig á þessu en fattaði þá að svona hefur þetta bara andskotans alltaf verið og kannski engin ástæða til að fara að fikta í kerfi sem hefur á undraverðan hátt komið mér í gegnum bæði menntaskóla og háskóla.

Sumir eru voða samviskusamir og eru alltaf búnir að öllu löngu fyrir skiladag, læra jafnt og þétt yfir önnina og svoleiðis fínerí. Ekki ég. Ég geri ekki neitt í laaangan tíma, fríka svo út og tek nokkrar vökutarnir og rumpa hlutunum af (misilla!). Næstum því allar ritgerðir sem ég hef skrifað um ævina hef ég klárað u.þ.b. hálftíma fyrir skilafrest og ég fæ alltaf taugaáfall í prófum því það er svo margt sem ég á eftir að lesa.

Ég vildi óska að ég gæti gert hlutina öðruvísi en ég held að mér sé bara ekki viðbjargandi. Ég ætla þess vegna ekkert að stressa mig á þessu meira, svona er þetta bara og hefur alltaf reddast. Þetta hlýtur að reddast núna líka. Ég er farin á barinn með Tim.

24.10.06

Í gær tjáði skólafélagi minn mér stoltur að hann hefði misst sveindóminn um helgina. Það yljaði mér um hjartaræturnar.

19.10.06

Það hlaut að koma að því... ég missti snyrtibudduna mína með öllu málningardótinu mínu ofan í klósettið. Ég hef sérlega gaman að því að missa drasl ofan í klósettið. Það var nú svosem ekkert ofan í klóinu svo ég skolaði bara af draslinu og nota ennþá, enda snyrtivörur rándýrar. Ég vona bara að ég fái ekki ekólísýkingu í augun eða eitthvað. Og þó, ætli maður væri ekki búinn að ná sér í einhvern ófögnuð nú þegar ef það ætti fyrir manni að liggja. Það er svo viðbjóðslega drullugt í þessu húsi sem ég bý í að það er með ólíkindum. En á misjöfnu þrífast börnin best og ég er sennilega komin með sterkasta ónæmiskerfi norðan Alpafjalla. Við kakkalakkarnir munum saman lifa af kjarnorkuvetur og ég mun stjórna heiminum.

17.10.06

Ég gleymdi alveg að segja frá því að það er Íri með mér í college-i hvers uppáhalds ljóð er líka Porphyria's Lover. I think I'm in love.

16.10.06

Kræst, ein alveg uppgefin eftir heilan dag á bókasafninu. Samt reiknast mér til að u.þ.b. klukkutími hafi farið í lestur. Í mesta lagi einn og hálfur. Ekkert sérdeilis glæsilegt, en þó skárra en ekkert. Er þá ekki best að drulla sér heim í tebolla og jólaútgáfuna af Lush-blaðinu sem ég fékk um daginn. Ég er yfir mig spennt!

Ég þakka þeim kærlega sem vilja fá mig heim, mér þykir afskaplega vænt um það. Svona ykkur að segja þá myndi ég miklu frekar vilja vera heima. Ekki það að mér leiðist, í gær eyddi ég t.d. öllu kvöldinu í það að liggja á bakinu og reyna að krækja hnjánum utan um hálsinn á mér. Ég var bara alveg uppiskroppa með hugmyndir og vildi hvorki fara út úr húsi né læra (maður lærir ekki á sunnudegi!).

Núna er ég að berjast við það að lesa, en 4 mánaða sumarfrí frá lærdómi er heldur mikið virðist vera, því ég á í mestu erfiðleikum með að halda einbeitingu og tek kaffipásu á kortérs fresti.

Svo fékk ég frábæra hugmynd eftir komment Bjórmálaráðherra... Häagen-Dazs með beikonbragði!!! Hvað gæti verið betra??!!!

13.10.06

Og djöfull er Häagen-Dazs með jarðarberjaostakökubragði sjúúúúklega góður ís. Og djöfull er jarðarberjaostakökubragð langt orð.

Oj, gærdagurinn var ömurlegur. Vaknaði þunn eftir eitthvað deildarpartý á miðvikudagskvöldið og þurfti að hlaupa út til að ná strætó (skildi hjólið eftir uppi í skóla sko). Í öllum æsingnum gleymdi ég stundatöflunni minni, náði fyrsta tímanum kl. 9 en missti af restinni af því að ég vissi ekki hvar þeir voru og var of heiladauð til að finna út úr því. Svo ég sat bara eins og sauður fyrir utan skólann með kaffi og sígó, bölvandi lífinu og öllu saman. Alveg glatað.

Í dag er allt annað uppi á teningnum því það er a) föstudagur, b) ógeðslega gott veður og c) ég fékk loksins háskólakortið mitt. Þannig að ég ætla bráðlega að tölta niður í bæ, skoða fólkið og fá mér hvítvínsglas í góða veðrinu. Jamm, það er allt miklu betra í dag.

10.10.06

Ég læt gagnrýnisraddir um verð hjólsins míns sem vind um eyru þjóta, enda er þetta prýðishjól og fagurblátt í ofanálag. Nú þýt ég um stræti Cambridge eins og ég hafi aldrei gert annað, alltaf með varúð þó, minnug reiðhjólaslyssins hræðilega sem ég lenti í '98 í undirgöngum í Breiðholti. Þá klessti ég á annan hjólreiðagarp á u.þ.b. 0,03 km hraða og þó ég hafi nú ekki slasast mikið (enda með hjálm), þá var það afskaplega neyðarleg lífsreynsla.

Annars gengur allt vel, skólinn skemmtilegur og þvíumlíkt. Ég sakna hjásvæfunnar ennþá en hef þó komist að því að þetta fyrirkomulag hefur líka nokkra kosti í för með sér. Til dæmis er ég ekki búin að raka á mér lappirnar í heillangan tíma og er dauðfegin að vera laus við það basl.

Ég kíkti á flug heim um jólin og eins og vanalega er það bölvaður hausverkur... á maður að panta strax til að fá lægra verð og taka sénsinn á að það komi tilboð seinna? Svo var móðir mín að segja að Ryanair væri kannski að fara að fljúga til Íslands. Ái hjálpi mér, hvað á ég að gera? Ég get heldur ekkert ákveðið mig hvenær ég vil fljúga út aftur. Helst myndi ég vilja koma heim föstudaginn 15. og mæta á pöbbkviss og rugl. Getur einhver tekið að sér að sjá um praktísku hlið lífs míns svo ég geti einbeitt mér að akademískum ferli og bjór? Anyone?

Svo vil ég fara að fá upplýsingar um hvað við ætlum að gera á gamlárskvöld svo ég geti farið að velja mér klæðnað.

9.10.06

Uss, stúdentakortið mitt er ekki ennþá tilbúið, glaaatað. Ég get ekki tekið bækur á bókasafninu, ekki fengið afslátt í strætó og bókabúðir, og ekki borðað í matsalnum fyrr en ég fæ þetta helvítis kort.

Ég keypti mér samt hjól áðan sem er gleði. Notað hjól á 75 pund, ég pantaði það áðan og má sækja það á eftir... það þarf sko að skrapa "LEIGUHJÓL" límmiðana af því; þetta er nefnilega e-ð drasl sem var leigt út. En maðurinn sagði að öll þessi hjól væru í mjög góðu ástandi. Það er eins gott. Ég keypti mér samt hjálm til öryggis, enda hjóla allir á götunni hérna eins og sækópattar og öfugum megin í ofanálag! Ekki gott, og ég hef ekki hjólað í áraraðir. En ég býst við að hjóla sé eins og að... tjah hjóla, maður gleymir því aldrei (ho ho ho).

8.10.06

Jáááása, gat breytt lyklaborðinu í íslensku. Þetta er allt annað líf. Ég nenni annars voða lítið að blogga, ég er nefnilega ekki með netið heima hjá mér, þannig að þetta er allt voða erfitt. En ekki það að það gerist ekki neitt, aldeilis ekki. Til dæmis sá ég albínóasvertingja á bar um daginn, og það vantaði í hann nokkrar framtennur í ofanálag. Svo sat þetta bara og reif kjaft eins og ekkert væri sjálfsagðara. Alveg ótrúlegir þessir albínóar.

En nú man ég auðvitað ekkert eftir neinu öðru, þannig að bara, tjah, koss þangað til næst.

4.10.06

Eg for i thessa lika megahopmyndatoku i kuflinum minum i morgun. Var reyndar alltof sein og endadi a thvi ad rjuka ut ur straeto og taka leigubil sem kostadi mordfjar. En thetta var hin bezta skemmtan og alveg bokad ad allir fa halfvitamynd af mer i jolagjof. Svo er e-r formlegur kvoldverdur a morgun thar sem einnig er aetlast til thess ad madur klaedi sig i thetta fineri, svo thetta var nu aldeilis god fjarfesting. Annars er skolinn ad byrja a morgun svo eg aetti ad vera komin i girinn en thad er nu ekki aldeilis. Eg hef heldur ekki enntha komist inn a helvitis skolameilid svo eg er orugglega ad missa af fullt af mikilvaegum tilkynningum. Fokkitt, eg er farin a barinn.

1.10.06

Thad er megaglatad ad skrifa a utlenskt lyklabord, en aetli eg hendi ekki inn nokkrum linum fyrst eg er a netkaffi a annad bord.

Buin ad finna ibud, hun er subbuleg og skitug, en odyr og a godum stad. Skolinn er vist ad byrja a morgun og eg veit ekkert hvert eg a ad maeta en thad reddast vonandi. Fekk snilldarimeil fra e-i skrifstofu herna thar sem mer var skipad ad kaupa svartan kufl og maeta i hopmyndatoku a thridjudaginn. Veit hvorki hvar eg finn kufl ne hopmyndatoku.

Annars er eg bara ad dandalast eitthvad, er sma sur og litil i mer og sakna hjasvaefunnar, en eg veit svosem af fenginni reynslu ad thetta skanar med timanum. Eg daudkvidi reyndar fyrir skolanum thvi mer finnst eg ekkert vita ut i hvad eg er ad fara, en thad hafa sjalfsagt fleiri verid i svipudum sporum og engin astaeda til ad aetla ad eg geti ekki spjarad mig. Madur hefur nu gert annad eins.