Harmsögur ævi minnar

30.11.07

Það má ekki slá slöku við þó það sé mikið að gera. Næsta ljóð er atómljóð og heitir Það er bannað að henda tyggjói á götuna:


Ef þú hendir tyggjói á götuna
brýt ég á þér viðbeinið með kúbeini

(og ef þá rennur ekki upp fyrir þér ljós
gefur Sindri þér fransós)



28.11.07

Nautsj, er ekki hommahatarinn Carola bara með jólatónleika á Íslandi bráðum... svei mér mér þá. Mig langar jafn lítið á þá tónleika eins og íslensku dívurnar. Nei djók, kannski ekki alveg jafn lítið. En mjög lítið.

27.11.07

Úúú ég var alveg búin að gleyma að ég ætlaði að taka ljóðlistina fastari tökum. Ég held svei mér þá að ég hafi ekkert ort síðan Óður til Glókolls birtist hér á síðunni.

En jæja, það er ekki eftir neinu að bíða. Hér er fyrsta ljóðið í seríu betrunarljóða sem eiga að hjálpa fólki að sjá villur síns vegar og taka fyrstu óstyrku skrefin í átt að því að verða betri manneskjur. Fyrsta ljóðið heitir Það á að gefa stefnuljós:


Hey þú sem ekki gafst stefnuljós
þú ert frekjudós
ef þú ekki passar þig
gefur Sindri þér fransós


26.11.07

Ég fékk (eins og fleiri sjálfsagt) sendan þennan múgæsingarpóst í vikunni:


Guðmundur Rúnar Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður

Ástæða þessa erindis míns kemur ekki til af góðu en ég tel rétt að allir fái að vita af þessu og hafi til hliðsjónar.

Ég fór í fíkniefnaleit með hundinn minn í ónefndan verslunarkjarna og eðli málsins samkvæmt beindist sú leit mikið til að almenningssalernum sem þar eru. Það sem vakti athygli mína var það að hundurinn minn sýndi 3 klósettrúlluhöldurum áhuga og var klósettpappír inni í þeim öllum. Ég benti öryggisverðinum sem fylgdi mér á þetta og sagði hann mér að það hafi komið þó nokkrum sinnum að starfsmenn sem vinna við þrif hafi fundið notaðar sprautur og nálar á klósettunum eftir fíkniefnaneytendur og þá hafi einnig komið fyrir að áðurnefndir fíkniefnaneytendur hafi, eftir að hafa sprautað sig, stungið nálunum upp í gegn um klósettrúllurnar til að hreinsa þær og þannig skilið eftir örlitla blóðbletti í ónotuðum pappírnum. Þetta vakti með mér óhug og spurningar og mér finnst rétt að þið vitið af þessu.

Eins og fram kemur að ofan vakti tilefni bréfsins „óhug og spurningar“ hjá þeim sem skrifar þennan bút. Hvergi kemur fram hver ritar þetta, hvort það er fyrrnefndur Guðmundur Rúnar Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður eða hvort bréfið sé bara stílað á hann veit ég ekki.

Þetta vakti ekki hjá mér „óhug“ en þetta vakti hins vegar hjá mér „spurningar“. Þær eru eftirfarandi:

  1. Ef ég væri sprautufíkill, myndi ég þá endilega gera mér ferð í troðfulla verslanamiðstöð til þess eins að sprauta mig á fjölförnustu klósettum landsins?
  2. Ótrúlegir þessir leitarhundar... ekki bara finna þeir fíkniefni, heldur finna þeir líka lykt af örlitlum blóðblettum í klósettpappír. Geta þeir líka greint blóðflokka?
  3. Ef svo ólíklega vildi til að það væru pínkulitlir blóðblettir í ónotuðum klósettpappír í verslanakjarna, hvað gæti þá hugsanlega komið fyrir?
  4. Hver er þessi huldumanneskja sem röltir um verslanamiðstöðvar með fíkniefna-/blóðleitarhundinn sinn?
  5. Var bara ein verslun í þessum verslunarkjarna?

Ég gæti haldið áfram í allan dag en ég þarf að vinna.

En að sjálfsögðu „finnst [mér] rétt að þið vitið af þessu“ og augljóslega full ástæða til að fríka gjörsamlega út og helst aldrei pissa í Kringlunni eða Smáralind framar.

Og helst ekki áframsenda svona rusl á mig.

23.11.07

Það er bara svo mikið að gera að ég má ekkert vera að því að skrifa. Það er samt alltaf til tími til að horfa á MogoJacket.


21.11.07

Það virðist enginn vita hvort Hagkaup er eintala eða fleirtala. Ekki einu sinni þeir sem stjórna þar. A.m.k. gefa þeir út bækurnar Eftirréttir Hagkaupa og svo aftur Kökubók Hagkaups. Ég verð svei mér þá að viðurkenna að ég veit ekki hvað mér finnst um þetta mál, en ég held þó að ég myndi hallast að fleirtölunni.

Hjásvæfan er að sjóða súpu og ég sagði honum að það mætti ekki hafa nein áhöld ofan í henni meðan hún væri að sjóða. Þegar hann krafðist svara sagði ég að eiturefni í járninu gætu losnað úr læðingi við svona mikinn hita og eitrað súpuna. Ég hef sko ekki hugmynd um hvort það er rétt. Samt finnst mér svona eiginlega að ég verði að halda mig við þessa sögu... hver veit, kannski er þetta bara akkúrat málið.

20.11.07

Ég er öll út í einhverjum helv... skordýrabitum! Fyrst hélt ég að kallinn væri lúsugur (enda er hann frá Akureyri) en þegar ég spái aðeins betur í þetta kemur aðeins einn sökudólgur til greina... VIKTOR LITLI BRÓÐIR!!! Ég var þvílíkt að faðma hundskvikindið í gær... þetta hlýtur að vera hann.

15.11.07

Í fyrradag var ég orðin nokkuð áhyggjufull þar sem ég hafði ekki gengið örna minna almennilega allan daginn. Venjulegt fólk hefði sjálfsagt ekki kippt sér upp við þetta, en ég er vön að tappa almennilega af nokkrum sinnum yfir daginn og því illt í efni. Um hálf sex fór þó að birta til og allt fór sína leið eins og vera ber. Þá mundi ég það að ég á að treysta líkamanum mínum.

Því hann veit sem er að það er fátt betra en að kúka á yfirvinnukaupi.

14.11.07

Þegar deddlæn nálgast og andleysið er algjört, má alltaf treysta á vitleysingana á verkstæðinu. Þeir gera lífið bara örlítið betra.

13.11.07

Í gær át ég svo mikið af Dracula-brjóstsykri að ég fékk blæðandi gómsár.

Annars bara allt brjálað að gera í vinnunni og alveg að koma jól. Ég föndraði níu jólakort um helgina en lenti svo í hræðilegu glimmerslysi. Eins gott að ég hef ekki sent jólakort í mörg ár út af skólastressi/útlandabúsetu o.fl. Ég ræð þar af leiðandi alveg hvaða níu manns ég sendi því það eru allir hættir að senda mér. Ha ha.

12.11.07

Þið getið yljað ykkur við þennan gimstein í rokinu og rigningunni:

9.11.07

8.11.07

Út er komin barnabókin Leyndarmálið hans pabba. Ég held hún hljóti að vera mjög skemmtileg. En hérna... finnst einhverjum öðrum titillinn kannski svolítið svona... benda til þess að þetta sé ekki barnabók?

Ja ég er svo aldeilis hlessa! Snorri veit ekki heldur hvernig bragð er af uppáhalds smákökunum hans. Er þetta einhver helvítis karlmannasjúkdómur? Ó bíddu, Snorri vissi þó a.m.k. hvernig þær voru á litinn. Það er skárra en ekkert.

7.11.07

Hjásvæfan/sambýlismaðurinn/piltbarnið á afmæli í dag. Mér finnst gaman þegar fólk sem býr með mér á afmæli því þá get ég borðað beikon í morgunmat.

Annars er afmælisbarnið 26 ára í dag og við sæmilega heilsu miðað við aldur og fyrri störf.

6.11.07

Ojjjj... djöfull er Tyra Banks viðurstyggilegt fyrirbæri.

Nú jæja, var að ræða við sambýlismanninn um smákökubakstur. Ég...eh...við erum nefnilega búin að ákveða hvaða sortir við ætlum að baka. Nema hvað að nú kemur upp úr dúrnum að hann vill baka einhverja ókunnuga sort sem mamma hans bakar alltaf. "Já já, sjáum nú til með það" sagði ég og spurði hann hvernig smákökur þetta væru. "Þær eru með svona súkkulaðidropum ofan á", sagði hann. "Já, ég skil, en hvernig bragð er af þeim?", "nú, bara svona smákökubragð" var svarið sem ég fékk. Við vitum semsagt ekki hvort uppáhalds smákökur kærastans míns eru með súkkulaði-, vanillu-, smjör-, haframjöls-, kókos- eða engiferbragði. Eða einhverju allt öðru bragði kannski. Kommonn maður, hvernig er ekki hægt að vita hvernig uppáhalds smákökurnar sínar eru á bragðið?!

Það er ekki laust við að það sé farinn að hreiðra um sig jólafílíngur í bústnum kroppi Deezu. Eitt slæmt fylgir þó blessaðri hátíð barnanna og það eru hinir árlega jólatónleikar Frostrósa. Veit ég engan atburð hryllilegri og varð miður mín yfir þessari hörmung þegar ég heyrði auglýsingu í útvarpinu í gær.

Hins vegar keypti ég miða á jólatónleika sinfóníuhljómsveitarinnar sem er allt annað og betra mál.

5.11.07

Já og það skal tekið fram að ég mæli ekki sérlega með því að fólk borði ís, popp og ritzkex með rækjusalati uppi í rúmi nema ætlunin sé að skipta um á sænginni fljótlega.

Sem minnir mig á það að allt er að fyllast af óhreinum þvotti heima, vaskurinn er að fyllast af leirtaui og það er bara allt á hraðri leið til helvítis.

Hvað gerir fólk þar sem fleiri en tveir eru í heimili spyr ég? Ég er alvarlega að spá í að fá mér au-pair.

Afskaplega er ég sybbin maður! Helgin var frábær... bjórsötr og spjall á föstudaginn og leikhús og partý á laugardaginn. Þetta hafði það reyndar í för með sér að ég svaf helst til lengi á sunnudaginn og gat því ómögulega komið mér í rúmið um kvöldið. Við kærustuparið eyddum því nóttinni í að glápa á 2. seríu af Dexter sem var mjög gaman en ég var aaaalveg eins og draugur þegar ég þurfti að druslast á lappir í morgun. Þetta er náttúrulega fötlun að geta ekki drullast í bólið á kvöldin.