Ég fékk (eins og fleiri sjálfsagt) sendan þennan múgæsingarpóst í vikunni:
Guðmundur Rúnar Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður Ástæða þessa erindis míns kemur ekki til af góðu en ég tel rétt að allir fái að vita af þessu og hafi til hliðsjónar. Ég fór í fíkniefnaleit með hundinn minn í ónefndan verslunarkjarna og eðli málsins samkvæmt beindist sú leit mikið til að almenningssalernum sem þar eru. Það sem vakti athygli mína var það að hundurinn minn sýndi 3 klósettrúlluhöldurum áhuga og var klósettpappír inni í þeim öllum. Ég benti öryggisverðinum sem fylgdi mér á þetta og sagði hann mér að það hafi komið þó nokkrum sinnum að starfsmenn sem vinna við þrif hafi fundið notaðar sprautur og nálar á klósettunum eftir fíkniefnaneytendur og þá hafi einnig komið fyrir að áðurnefndir fíkniefnaneytendur hafi, eftir að hafa sprautað sig, stungið nálunum upp í gegn um klósettrúllurnar til að hreinsa þær og þannig skilið eftir örlitla blóðbletti í ónotuðum pappírnum. Þetta vakti með mér óhug og spurningar og mér finnst rétt að þið vitið af þessu.Eins og fram kemur að ofan vakti tilefni bréfsins „óhug og spurningar“ hjá þeim sem skrifar þennan bút. Hvergi kemur fram hver ritar þetta, hvort það er fyrrnefndur Guðmundur Rúnar Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður eða hvort bréfið sé bara stílað á hann veit ég ekki.
Þetta vakti ekki hjá mér „óhug“ en þetta vakti hins vegar hjá mér „spurningar“. Þær eru eftirfarandi:
- Ef ég væri sprautufíkill, myndi ég þá endilega gera mér ferð í troðfulla verslanamiðstöð til þess eins að sprauta mig á fjölförnustu klósettum landsins?
- Ótrúlegir þessir leitarhundar... ekki bara finna þeir fíkniefni, heldur finna þeir líka lykt af örlitlum blóðblettum í klósettpappír. Geta þeir líka greint blóðflokka?
- Ef svo ólíklega vildi til að það væru pínkulitlir blóðblettir í ónotuðum klósettpappír í verslanakjarna, hvað gæti þá hugsanlega komið fyrir?
- Hver er þessi huldumanneskja sem röltir um verslanamiðstöðvar með fíkniefna-/blóðleitarhundinn sinn?
- Var bara ein verslun í þessum verslunarkjarna?
Ég gæti haldið áfram í allan dag en ég þarf að vinna.
En að sjálfsögðu „finnst [mér] rétt að þið vitið af þessu“ og augljóslega full ástæða til að fríka gjörsamlega út og helst aldrei pissa í Kringlunni eða Smáralind framar.
Og helst ekki áframsenda svona rusl á mig.