Ég er stöðugt að lenda í þrasi við ástmanninn því hann saknar gamla bílsins síns. Samkvæmt honum er það mér að kenna að hann þurfti að henda honum (lygi, lygi!). Og þrátt fyrir að við (ég) eigum glænýjan bíl með góðum dekkjum og risaskotti var allt betra í gamla bílnum.
Gamli bíllinn var viðbjóðsleg Micru-niðursuðudolla sem angaði af fiski-, svita- og ruslafýlu, með ónýtri kúplingu og öllum mælum biluðum og þar að auki ónýtri miðstöð. Ruslafata á hjólum. Og það lélegum hjólum. Hins vegar þreytist hann ekki á því að hamra á því að það hafi verið hiti í sætunum og ýmislegt þetta og hitt.
Ef þetta var svona frábær bíll, af hverju þurfti hann þá að henda honum? Jú, því það hefði enginn heilvita maður borgað krónu með gati fyrir þennan skrjóð. Og af hverju var þá ekki bara gert við það sem var bilað fyrst það var nánast allt í lagi með hann? Það veit enginn... ekki lufsaðist hann einu sinni til að skola af honum mesta fiskislorið. Fjarlægðin gerir fjöllin svo sannarlega himinblá.
(Svo finnst mér hiti í sætum vera stórlega ofmetinn - mér líður alltaf eins og ég sé búin að pissa í buxurnar þegar ég sit í svoleiðis bílum.)
Jedúddamía hvað þetta er búið að vera yndislegt. Við kærustuparið eyddum jólunum í veiðikofa rétt hjá Hellu ásamt slatta af fjölskyldumeðlimum. Þar lágum við og horfðum á vídeó, spiluðum, spjölluðum, sváfum, átum og fórum í heita pottinn. Það var líka sérstaklega hressandi að vera tölvu- og símasambandslaus svona til tilbreytingar. Brunuðum í bæinn í gær til að ná í hangikjötsveislu hjá ömmu og drukkum svo rauðvín og spiluðum Super Mario langt fram á nótt.
Ég fékk svo mikið af fínu dóti og er búin að borða svo mikið að ég er ekki einu sinni neitt rosalega fúl yfir því að þurfa að vinna á morgun.
Nú er bara að preppa sig fyrir áramótaheitið sem er... vill einhver giska? Jú, auðvitað að hætta að reykja.
Annars má ég ekkert vera að þessu enda er hér konfekt sem étur sig ekki sjálft og góð mynd að byrja í sjónvarpinu.
Og gleðileg jól dúllurnar mínar, þó það sé kannski heldur seint í rassinn gripið!
Þarf alltaf að vera að spila Ragnheiði Gröndal alls staðar? Mér finnst hún hundleiðinleg.
Ég er búin að vera að vinna svo mikið undanfarið að ég var búin að gleyma hvað það er dáááásamlegt að hanga einn heima á laugardegi. Í náttfötunum, með kaffibolla og Dr. Phil í sjónvarpinu. Og nýbaðar smákökur.
Og svo er ég reyndar farin að reykja aftur eins og rússneskur hafnarverkamaður en ég nenni ekki að hlusta á neinar skammir takk fyrir.
Ég væri til í að eiga nokkur vel valin orð við manneskjuna sem fann upp piparmintuhúðaðan tannþráð. Og líka alla tannþráðaframleiðendur sem hafa apað upp þessa endemis vitleysu. Ég á ekki til orð yfir því hvað þetta er hálfvitalegt og viðbjóðslegt og að auki tapa ég stórfé á því að þurfa alltaf að henda fullum tannþráðaboxum.
Er ómögulegt að flýja frá þessu helvíti? Er einhvers staðar til fríríki fyrir fólk eins og mig sem þolir ekki piparmintu? Ef svo er ekki, er þá til of mikils mælst að ég njóti friðhelgi á mínu eigin heimili?
Það ríkir mikið hörmungarástand á heimilinu. Ég er alltaf að vinna og hjásvæfan í prófum. Í gær fengum við nóg og tókum express-jólabúning. Hann fólst í því að henda aðventuljósi í gluggann og sparka stærstu rykhnoðrunum inn í geymslu. Hjásvæfan komst reyndar í jólakassann og var við það að lufsa einhverjum mega-takkí glimmerborðum á bókahilluna. Það var kæft í fæðingu.
Það minnti mig reyndar á jól fyrir nokkrum árum síðan. Þá var ég líka alltaf að vinna en eitt kvöldið þegar ég kom heim voru fyrrverandi og Völundur búnir að skreyta íbúðina hátt og lágt... og þá meina ég hátt og lágt. Það var eins og jólasveinninn hefði fengið þynnkuskitu þarna inni. Hins vegar er það hugurinn sem skiptir máli og mér þótti afskaplega vænt um það að þeir skyldu hafa lagt þetta á sig. Ég man svo ekki betur en að við höfum átt afskaplega gleðileg og indæl jól innan um allt glimmerið og slaufurnar.
Það er alveg dásamlegt að koma heim eftir erfiðan vinnudag(a) og sjá að kærastinn bíður eftir manni með rauðvínsglas, lambasteik, kartöflugratín, hvítlaukssteikta sveppi, salat og búðing í eftirrétt.
Það er sko deginum ljósara að ég get ekki dömpað honum í kvöld eins og ég ætlaði að gera.
Ég gekk framhjá 10-11 rétt í þessu og var þá ekki uppáhalds afgreiðslumaðurinn minn að raða í hillur. Hann er eini starfsmaðurinn þarna sem gerir eitthvað og er að auki einstaklega almennilegur.
Hann er reyndar rauðhærður en það er sama. Það má segja ýmislegt um rauðhærða en það verður ekki af þeim tekið að þetta er afskaplega kurteist og vinnusamt fólk.
Ó mig auma! Svo sannarlega er ég þreytt (hönd borin dömulega upp að enni). Flutningar í vinnunni og flutningar hjá móður minni. Hver einasti vöðvi er í mauki og bakið búið. Það eina sem hægt er að gera á slíku laugardagskvöldi er að fara í náttfötin, hella sér rauðvíni í glas og spila Super Mario í Nintendo tölvunni sem ég var svo heppin að finna í drasli systkina minna.