Harmsögur ævi minnar

29.10.08

Í nótt dreymdi mig að ég væri komin með þessi fínu hátískugleraugu. Og ekki bara það, heldur gat ég í ofanálag hermt ógeðslega vel eftir Söruh Palin. Það eru þá komnar tvær manneskjur sem ég get hermt vel eftir: Sarah Palin og Ívar Guðmundsson. Ég fer nú bara bráðlega að hætta í dagvinnunni.

28.10.08

Ég er að spá í að fara aftur í skóla. Í morgun þegar við Sambó vorum búin að borða hafragrautinn skreið hann aftur upp í rúm undir hlýja sængina. Ég stappaði niður fæti með tárin í augunum yfir því ömurlega óréttlæti að þurfa að fara í vinnuna. En það breytti engu; ég þurfti samt að fara í vinnuna. Það er glatað að vera fullorðinn.

Uppfært: Í ljósi aðstæðna vil ég taka það fram að ég er auðvitað dauðfegin að vera með vinnu yfir höfuð - bara svo það sé á hreinu.

27.10.08

Ég er alltaf í fúlu skapi á mánudögum og því ekki úr vegi að þusa aðeins. Í fasteignahluta Fréttablaðsins í dag auglýsir einhver fasteignasala að hún hafi fengið íbúð eða whatchamacallit til sölumeðferðar. Hvað þýðir að fá eitthvað til sölumeðferðar? Er þetta ekki kjánalegt? Eníhú, má ekki vera að þessu - ég þarf að ná mér í kaffi til drykkjarmeðferðar.

21.10.08

Einhvern tímann fyrir soldið löngu síðan hoppaði ég hæð mína í loft upp við þær fregnir að Jóhanna Vilhjálms væri að fara að hætta í Kastljósinu. En hún er þar enn.

Ég er að spá í að setja dálk á hliðarsúluna sem er svona „Bókin sem ég er að lesa“ nema með einhverju meira hipp og kúl nafni auðvitað. Þennan dálk get ég svo notað eins og aðrir - sett inn fansí smansí bækur sem mig langar að lesa en nenni ekki af því að þær eru of erfiðar eða torlesnar. Svona eins og fólkið sem kemur í Mogganum með bækurnar á náttborðinu - þar er sko aldrei neinn að lesa Grisham, sei sei nei. En þetta hef ég áður röflað um svosem.

Aðalástæðan fyrir því að fólk gerir þetta er af sjálfsögðu sú að alla langar til að aðrir haldi að þeir séu ægilega intellektúal. Ég er engin undantekning og því ætla ég núna einmitt að fara að monta mig af því að ég les Joyce og svona. Nei, smá spaug bara. Ég lofa að setja inn allt sem ég les. Allt - líka þó það sé í rauðu seríunni. Ég er einmitt mjög spennt fyrir slíku því ég hef aldrei lesið neitt úr þeim gleðileik. Nú er ég hins vegar komin á þann aldur að það veitir ekki af því að kveikja aðeins upp í kulnuðum lendum mínum.

Nei nei nei og aftur nei! Nú er ég hætt að opna vísi.is:

Blautur sígarettukoss Umu Thurman - myndir

Leikkonan Uma Thurman og unnusti hennar, svissneski viðskiptajöfurinn og auðmaðurinn Arpad Busson, voru saman í New York í gær.

Það sem vekur eftirtekt er að milljónamæringurinn víkur frá munni Umu þegar hún gerir tilraun til að kyssa hann blautum kossi með Marlboro bragði.

Sígarettupakki Umu sést greinilega í jakkavasa hennar á meðfylgjandi myndum.

(Tekið héðan)

Það er verið að segja upp fólki hægri vinstri í öllum stéttum en fólkið sem skrifar slúður-„fréttirnar“ hjá vísi.is er bara í góðum gír? Hvað í fokkinu er í gangi?

Ekki misskilja - fáir kunna að meta gott slúður betur en ég en þetta er nú með því aumara sem maður kemst í. Piff.

20.10.08

Ég var að kaupa mér miða á jólatónleika sinfó. Nú er bara að föndra jólakort og búa til konfekt.

Ó já, ég er sko mikið jólabarn.


16.10.08

Það var nú aldeilis gleðigjafi að fá þennan tölvupóst í morgun (svona í kreppunni):

Hello, I am Management Personnel in a very Discreet Bank, a small ultra Discreet Private Bank in one of the Central European cities. The Bank oversees high value accounts and deals with secretive foreign individuals, Politicians, high government officials of foreign Countries, and high government organizations that sought services of safety and absolute anonymity. It is not a clearing Bank, its business is as Depository for Clients fund which will be placed in safe investments. This letter is an overture, seeking for your understanding to collaboratively and creatively work with me on Investment placements under your care; this of course, requires utter discretion, TRUST AND CONFIDENTIALITY. The Investment will involve a substantial lodgment and will be backed with immensely detailed document solemnly to reduce any scrutiny. The action, will be carefully coordinated for maximum effect. All steps to achieving this objective, shall be with utmost due diligence and will be surreptitiously executed, I will also like to place immense importance upon utter discretion, avoiding open phone lines to discuss this business, fax correspondence, will be most appropriate. I will throw more light on this affair, upon the receipt of your reply. Sincerely, M .W, FAX: 44- 709-289-7275.

Já krakkar mínir, hlutirnir reddast alltaf.

13.10.08

*hrollur*

Mikið eru báðir drengirnir í Game-tíví með ofboðslega leiðinlegan talanda. Ég get ekki með nokkru móti horft á þetta. Það þýðir því ekkert að biðja mig um tölvuleiki í jólagjöf.

7.10.08

...Og ef ég borgaði fyrir sama nám í dag myndi það kosta 2.380.000.-

Jiii hvað maður er alltaf að spara.

6.10.08

Úúú, hvern langar að koma með mér á þetta?

3.10.08

Þegar ég fór í meistaranám haustið 2006 voru skólagjöldin í háskólanum í Cambridge u.þ.b. 10.700 bresk pund. Það hækkaði LÍN-skuldina mína um tæpa eina og hálfa milljón eða 1.420.000.- svona til að hafa þetta rétt. Ef ég ætlaði í þetta sama nám núna myndi það kosta mig 2.140.000.-, þ.e.a.s. að því gefnu að skólagjöldin hafi ekkert hækkað. Jæks.
---

Ég fékk auglýsingu í tölvupósti um eitthvað sem heitir Handtöskuserían og eru „þýddar erlendar skáldsögur eftir konur fyrir konur“. Já nei takk, ég veit sko alveg hvers konar skruddur er verið að tala um og ég hef enga þolinmæði fyrir slíkum „bókmenntum“. Einu sinni reyndi ég að lesa einhvern hrylling eftir „rithöfund“ sem heitir Sophie Kinsella. Þetta var svona kellingabók um konu sem var vann sem blaðamaður fyrir fjármálatímarit en obbobbobb, gat ekki hætt að kaupa sér designer-töskur og svoleiðis drasl og átti þ.a.l. engan pening og, surprise surprise, var líka ótrúlegur klaufi í kallamálum. Kommonn, hversu ömurlega djúpan klisjudrullupoll er hægt að sökkva ofan í? Ég gat ekki klárað þetta helvíti og ég vil fá 5 pundin mín til baka. Hver les svona gallsúran viðbjóð? Greinilega fullt af fólki þar sem þessi tuðra er búin að gefa út fullt af bókum í viðbót.
Vá ég notaði næstum því jafnmargar gæsalappir og gæsalappasjúki mbl.is-blaðamaðurinn.
---

Í dag fljúgum við systkinin á vit ævintýranna á Höfn í Hornafirði til að bjarga móður okkar frá sturlun. Hún er nefnilega svo einmana eftir að allir ungarnir stungu af til að fara í mennta- og háskóla í höfuðborginni. Hún hefur nú reyndar hundana til að hafa ofan af fyrir sér, en við vitum nú svosem öll að Vihtto er ekki skærasta peran í jólaseríunni og því lítið gagn í honum. Ég segi því bara góða helgi og bæti við því sem Snur myndi segja: Gerið allt sem ég myndi gera og gerið það vel.

1.10.08

Ég er búin að vera að sturlast úr geðvonsku í allan dag, af ýmsum ástæðum sem ég nenni ekkert að tíunda hér. Sambó greyið fór meira að segja snemma í vinnuna til að losna við að vera nálægt mér. Ekki lái ég honum... ef ég gæti myndi ég sjálf drulla mér út úr húsi og skilja fýlu-Deezu eftir heima.

En nóg um það. Undur og stórmerki... ég slökkti á sjónvarpinu í gær. Slökkti! Everwood eða hvað í andskotanum sem það heitir á RÚV og helvítis trilljónasta serían af Survivor á S1. Gubb. Ég á von á því að endurtaka leikinn í kvöld. Ég ætla ekki ekki ekki að horfa á ANTM og ég get heldur ekki horft á heimildarmynd um Matthew Barney - hann er alltof mikill listamaður fyrir mig. Yfirleitt get ég glápt á hvaða viðbjóð sem er en upp á síðkastið hef ég haft mjög takmarkaðan áhuga á lélegu sjónvarpsefni. Þroskamerki? Naaaah... þetta hlýtur að lagast.