Harmsögur ævi minnar

30.6.06

Góðan daginn hvað þetta er búin að vera hörmuleg vika, hundleiðinlegt í vinnunni og alltaf rigning í ofanálag. Ég fór reyndar í gær í e-ð M-16 bardagaleikjadæmi og skreið um í drullu og skóglendi, kamúflasklædd og með riffil í hendi. Það var ansi smart, enda stutt í drápseðlið og geðveikina hjá mér. Helst hefði ég viljað riffil með byssusting framan á til að stinga lifrina úr samstarfsfélögum mínum eftir að hafa plaffað af þeim hausinn.

En það er kominn föstudagur, guði sé lof. Uppáhaldsdagurinn minn í öllum heiminum.

29.6.06

Já ég átti eftir að klára útskriftarsögu... eftir athöfn tróð ég í mig pulsu áður en ég hélt heim á leið til að þurrka mér undir höndunum og meika mig fyrir partý. Þá kom pabbi og slektið hans með kampavín og blóm. Geeeðveikt kampavín, namm. Svo fór ég með múttu og gerði partýhöll Glókolls tilbúna. Partý var skemmtilegt. Ég var reyndar eina stelpan mestallan tímann sem var svolítið spes, en samt gaman. Gönguferðin niður í bæ var frábært fjör, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir sumra til að eyðileggja hana fyrir mér, sem og restina af kvöldinu með stanslausu blaðri og spurningum. Endaði svo allt í eftirpartýi sem var einhver sú furðulegasta lífsreynsla sem ég hef lent í... og hef þó lent í þeim nokkrum. Snilldarkvöld.

27.6.06

Það er naumast að maður hefur mikið að gera. Ég veit vart hvar skal byrja, svei mér þá. Útskriftin var á laugardag (og þakka ég kærlega fyrir hamingjuóskirnar fyrir neðan). Fínn dagur, nema athöfnin var löng og ég náði auðvitað að vinna upp ágætis kvíða áður en röðin kom að hugvísindadeild. Þegar við fórum í einfalda röð til þess að stíga á svið var ég orðin viss um að kjóllinn minn (sem var bundinn) myndi opnast og ég yrði allsber á sviðinu, ég myndi hrasa á hælaskónum, taka skírteinið með vitlausri hendi (ef það væri þá eitthvað skírteini handa mér), og gleyma að taka í höndina á rektor. Svo er klappað ef maður er með ágætiseinkunn (og ég rétt skreið upp í hana) og það var alveg túmötsj fyrir mig. Ég skalf svo mikið í röðinni að ég hélt í alvöru að lappirnar myndu brotna í tvennt.

Svo gekk þetta bara ágætlega, ég fór bara á sjálfvirka stillingu og rankaði eiginlega bara við mér á leiðinni til baka í sætið. Mamma og pabbi sögðu að ég hefði tekið mig vel út og meira að segja haldið maganum inni, þannig að það er gott að vita að undirmeðvitundin tekur völdin þegar mikið liggur við. Ég var samt svo viðbjóðslega sveitt í lófunum að skírteinið mitt er allt beyglað. En miðað við aðstæður var það vel sloppið. Það er alveg fáránlegt að vera svona bældur.

20.6.06

No time maður, no time!!! Ég vildi að skólinn væri ennþá. Eða þá að ég gæti legið í sólbaði á Sardiníu allt sumarið eins og í fyrra. Og árið þar á undan.

Helgin fín, rugl og alls konar. Þekkið þið fólk sem mætir beint í eftirpartý eftir að hafa verið sofandi yfir vídeói? Með heila ginflösku og í góðu stuði? I do. Djöfulsins fagmennska. "Hvað gerðir þú um helgina?", "Ég? Ég skrapp nú bara í eftirpartý". Maður á greinilega margt eftir ólært.

Æi, þarf svo að gera óteljandi hluti. Og þvottavélin akkúrat upptekin í kvöld þegar ég ætlaði að þvo. Dææææs.

16.6.06

Vá, takk fyrir allar uppástungurnar fyrir veisluna. Ég veit vart hvað skal velja.

Nenni samt ekki að væla yfir því þar sem ég er svo yfirgengilega heppin þessa dagana. Fyrst unnum við Glói pöbbkviss og svo vann ég massa rauðvínspott í vinnunni. Ég steingleymdi að kaupa mér víkingalottó en ég ætla pottþétt að kaupa mér laugardagslottó ef ske kynni að lukkan væri ennþá virk.

Annars er föstudagur sem er alltaf ljúft, vinnan mín er skemmtileg, það er skemmtilegt fólk þar, ég ætla út að borða í kvöld og á huggulegt pöbbarölt með góðu fólki. Endilega sem flestir að slást í hópinn.

13.6.06

Ég hef ekki hlustað neitt sérstaklega mikið á Pink Floyd/Roger Waters, en tónleikarnir í gær voru magnaður andskoti.

Annars er það að frétta að ég er örmagna af vinnuálagi. Samt er ég bara að vinna níu til fimm. Ég er aumingi. Og ég er að velta fyrir mér hvað ég á að gera á útskriftardaginn. Bara opið hús frá 5-6 með bjór, rauðvíni og snarli eða hefðbundnara kvöldpartý? Hvað segið þið góða fólk, hvað viljið þið gera?

Annars er ég að verða ansi kvíðin fyrir þessari útskriftarathöfn. Hef þann leiða ávana að fá ægileg kvíðaköst út af öllum andskotanum og eru svona fjöldaathafnir ansi ofarlega á blaði. Ég man að þegar ég var krakki var ég alltaf með áhyggjur af öllum skólaskemmtunum og jólaböllum. Minn æðsti ótti á hverju ári var að vinna í einhverju inngöngumiðabingói og þurfa að fara upp á svið fyrir framan alla og ná í vinninginn. Einu sinni vann ég í bingói á KFUK samkomu og varð svo mikið um að það hrökk ofan í mig bingókúla. Samt fannst mér ekkert mál að taka þátt í skólaleikritum. Skitsó.

Nú, það sem gæti gerst á útskriftinni er aðallega tvennt. Ég gæti dottið fyrir framan alla á sviðinu á hælaskónum mínum. Hitt (og öllu verra) er að það hafi gleymst að setja mig á listann og þegar allir eru búnir að fá skírteinin sín stend ég ein eftir eins og hálfviti. Það væri svo ekki gott. Best að reyna að hugsa ekki um þetta.


Svo ætlaði ég að vera dugleg að fara út að hlaupa til þess að vera megafitt á athöfninni, en ég er alltaf svo þreytt að ég rétt meika að leggjast upp í sófa þegar ég kem heim og éta nammi og reykja.

Eníhú, endilega segið hvað þið viljið í sambandi við pahtee. Þið eruð að sjálfsögðu öll boðin.

12.6.06

Ojojoj, ég er þreyttur. Nú verður tekin ruglpása í bili. Mitt viðkvæma andlega ástand fékk nóg í þynnkunni á laugardag og ég lá grenjandi utan í Glókolli mestallan part dags. Þetta er búið að vera gaman, en þegar svona gerist veit ég af biturri reynslu að það er kominn tími á hlé. Sem er ekkert nema gott mál.

Annars talaði ég og talaði og talaði og talaði. Einhver var að reyna að dobbla mig á Hróarskeldu en ég man ekkert hver. Ég man heldur ekkert hvað ég var að moðerfokkíng blaðra allt kvöldið. Vá hvað ég myndi stundum ekki nenna að hitta mig... bla bla bla blaaaa blaaaaaa. Blaaaaaaaaaaaaaa. Hvernig væri stundum að reyna bara að halda kjafti?

9.6.06

Böhööö, Haddinn minn og Krillan mín verða ekki í bænum um helgina. Líst ekkert á það.

8.6.06

Jesss, marblettirnir sem ég græddi þegar ég datt niður kjallarainnganginn á aðfaranótt mánudagsins eru aðeins að dofna. Það er a.m.k. hætt að blæða úr skurðinum. Dauðagildrur, DAUÐAGILDRUR segi ég! Hver býr til tröppur niður í einhverja holu beint úr gangstéttinni?

Að lokum legg ég til að Violent Femmes verði lögð niður. Fáránlega leiðinleg hljómsveit.

Það hentar mér alls ekki að vera í 9-5 vinnu, ég er alveg búin að sjá það. Bara 5 dagar búnir og ég er uppgefin á líkama og sál af allri þessari reglu. Kem engu í verk þegar ég kem heim og er alveg kolómöguleg bara. Ég vil líka geta sofið út þegar ég vil og elda á nóttunni þegar ég er svöng. Og leggja mig eftir hádegismat.

Annars er ágætt að vera þjónustufulltrúi... sérstaklega af því að ég er mest að fylgjast með eins og er. Samstarfsfélagi minn píndi mig reyndar til að afgreiða nokkra kúnna í dag og ég sat stjörf af ótta við það að fólkið yrði með eitthvað vesen. Gekk allt á endanum en á morgun lendi ég í veseni... ég er viss um það.

Svo er spurning með helgina, ég er alveg að jafna mig eftir sunnudagskvöldið og verð væntanlega tilbúin í slaginn von bráðar. Vá hvað ég á aldrei eftir að líta Röyksopp sömu augum aftur.

5.6.06

Djammhelgi mikil þessi. Einu sinni sem oftar er þó flest óprenthæft. Æ karamba. Þvílíkt og annað eins.

3.6.06

Fagnaði í gær, fór í vinnupartý og svo í bæinn. Það hefur verið skemmtileg sjón að sjá mig labba heim, guð minn góður. Fór svo í Bónus í dag og í fyrsta skipti í langan tíma keypti ég allt sem mig langaði í. Það er til ógeðslega mikið af mat og nammi hérna. Það voru líka til kirsuber, ég elska elska kirsuber.

Geeeisp, á maður að nenna út? Eða á ég að éta allt nammið mitt? Skrýtið að vera ekki með samviskubit yfir því að vera ekki að læra.