Harmsögur ævi minnar

31.8.07

Síðustu nætur hafa verið hörmulegar. Hjásvæfan er farin að taka upp á því að hrjóta, eða a.m.k. gefa frá sér of hávær öndunarhljóð fyrir minn smekk þegar hann sefur. Ég þarf því að dunda mér við það að halda fyrir nefið á honum, sparka í hann og reyna að fá hann til að snúa sér á hliðina til að minnka óhljóðin. Í gær tókst mér að fá hann til að snúa sér, en þá sneri hann sér að mér og andaði bjórfnyk á mig sem var ekki til að bæta ástandið.

(Smá útúrdúr: Bjórfnykur eður ei; mér finnst aldrei þægilegt þegar fólk andar á mig. Þess vegna voru fjölskylduútilegur algjört hell fyrir mig. Sex manns í einu litlu A-tjaldi og allir með hausinn í áttina að mér... þvílíkur hryllingur.)

Eins og þetta sé ekki nóg til að æra óstöðugan þá er líka eitthvað að nýja svefnsófanum okkar. Ég nenni ekki að útskýra það í smáatriðum, en til þess að grindin detti ekki niður á gólf þarf léttari aðilinn (ég... ennþá) að sofa á blákantinum á útdregna hlutanum og hreyfa hvorki legg né lið.

Síðustu nótt lá ég einmitt á þessum kanti, hundþreytt en dauðhrædd við að snúa mér eða bylta. Þá fékk ég einmitt þá flugu í hausinn að mér væri illt í maganum vegna þess að ég væri örugglega með ristilkrabbamein eða alnæmi.

Til þess að koma í veg fyrir fleiri geðsjúkar svefnleysishugmyndir ákvað ég að eyða þessari nótt í að taka til í geymsludraslinu mínu. Það er kreisí gott/vont. Vont því það er leiðinlegt, en gott því maður rekst á gullmola eins og skilaboðakrot úr menntaskóla um hvort einhver hafi kysst þennan og hinn, gömul nafnskírteini og alls konar fyllerísminjagripi.

Eitthvað gengur nú samt hægt að grynnka á draslinu þrátt fyrir fögur fyrirheit.

29.8.07

Viktor litli bróðir minnÞetta er Viktor, hundurinn hennar mömmu. Hann er ótrúlega sætur og mjúkur og við erum öll ástfangin af honum. Þó sérstaklega mamma. Milli þess sem hún öskrar á hin systkinin mín segir hún krúttulega við hann: "Á mamma búa til kæfu fyðið Vittor litla" eða "Mamma ætlað að boðða þig, þú ett so dætur" (þýðing: "Á mamma að búa til kæfu fyrir Viktor litla" og "Mamma ætlar að borða þig, þú ert svo sætur"). Það er nokkuð ljóst að móðir mín hefur loksins eignast draumabarnið sitt; barn sem gefur skilyrðislausa ást, rífur ekki kjaft og biður aldrei um pening.

Það kom bersýnilega í ljós um daginn hvern hún elskar mest. Við mamma, Sandra systir, hjásvæfan og gulldrengurinn (téður Viktor) fórum á Þingvelli í sunnudagsferð. Eftir dágott rölt rákumst við á fallegt berjalyng og hófumst handa við að tína upp í okkur. Eftir smá tíma tókum við eftir því að berjalyngið var sennilega staðsett ofan á geitungabúi því að það var allt morandi í þessum viðbjóði. Nema hvað að mamma þreif hundinn upp á hnakkadrambinu og hljóp á methraða út úr geitungagerinu í öruggt skjól. Eftir stóðum við systurnar eins og sauðir, berskjaldaðar og mömmulausar. Haldiði að það sé? Ég er viss að hundspottið á eftir að erfa kellinguna.

28.8.07

Ég lenti í rifrildi við kærastann í gær af því að hann sagðist ekki vilja ættleiða barn frá Kína*. Mér fannst það alveg út í hött að hægt væri að gera upp á milli munaðarleysingja... þetta væru allt saklaus börn sama hvaðan þau kæmu. Í morgun rann það svo upp fyrir mér að ég er sjálf haldin miklum Kínverjafordómum og þoli fáar þjóðir jafn illa (nema Frakka auðvitað).

Annað sem fríkar mig út er fólk með mikið tannhold. En þegar ég brosti framan í mig í speglinum í morgun tók ég eftir því að það glampaði nú bara í ágætis góm hjá sjálfri mér.

Hefði ég kannski frekar átt að flytja inn í glerkastala en á stúdentagarða?


*Það skal tekið fram fyrir áhyggjufulla að við erum ekki að fara að ættleiða/eignast barn.

24.8.07

Úúújeee... hver stendur í flutningum enn eina helvítis ferðina? ÉG!!! Við erum semsagt að ferja draslið mitt frá mömmu og yfir á stúdentagarða (...já aftur) þar sem hjásvæfan er víst að fara í skóla í haust. Eða svo segir hann. Ég er núna að bera vaselín á pappaskurðina sem ég náði mér í við kassaopnanir í dag. Og hvaðan kemur allt þetta drasl sem ég á? Tjah, maður spyr sig. Og þetta passar engan veginn inn í 35 fermetra, herregud!

20.8.07

Það var yndislegt í sveitinni. Ég mæli með risatrambólíninu í Húsafelli. Það er langt síðan ég hef fundið fyrir jafn taumlausri gleði og þegar ég sveif um loftin blá eftir sundferðina.

Loksins komst ég á netið í minni tölvu og fannst því tilvalið að henda inn myndum frá útskriftinni. Það var svo gaman að ég er næstum því sorgmædd yfir því að ég eigi (sennilega) aldrei eftir að útskrifast aftur.


16.8.07

Ég og ástmögurinn ætlum að hendast upp í Borgarfjörð í bústað í kvöld. Með í för er rauðvín, bjór, gin, fullt af grillmat, tvö badmintonsett, háfur, plastfótbolti, pictionary og viðarvörn. Allir eru hjartanlega velkomnir... nóg af dýnum og fullt af plássi. Þykist ég þó vita að fólk kjósi heldur sollinn í höfuðborg dauðans. En endilega bara bjalla í Deezu sína ef áhugi er fyrir hendi.

Góða helgi!

12.8.07

Yndislegur dagur. Fór í óvissuferð upp á Þingvelli með hjásvæfu, móður, systur og hundspottinu. Við löbbuðum af okkur lappirnar og átum samlokur með hangikjöti og salati og kex og möffins. Svo héldum við dýrindis grillveislu þegar heim var komið og tróðum í okkur kjúklingi, lambakjöti, beikonvöfðum skötusel og meðlæti. Ég er búin að borða svo mikið síðustu vikur að það nær ekki nokkurri átt. Allar buxur þröngar... en það er bara krúttlegt. Er það ekki annars? Ekki?

Svo er bara ljúft að vera í fríi. Móðir mín nuddarinn er búin að reyna að merja úr mér skólavöðvabólguna með alls konar fantabrögðum, ilmolíum og kristöllum. Ég er samt ennþá öll í keng og skakklappast milli herbergja eins og hringjarinn í Notre Dame.

Eeeen nóg af tölvuhangsi... ég þarf að setjast út á svalir með rauðvínsglasið mitt og slappa aðeins af eftir átið. Ef lífið gæti bara verið svona það sem eftir er... dæææs.

6.8.07

Við skötuhjúin liggjum heima hjá mömmu og reynum að jafna okkur eftir þessa mögnuðu helgi þar sem lítið var sofið en mikið sukkað. Alveg kreisí maður og brjálað stuð. Ég komst að því að ég á besta kærastann. Hver annar hefði farið út í búð í miðju eftirpartýi og keypt kókómjólk, jógúrt, banana og sígarettur handa mannskapnum? Algjört yndi.

Svo er ég að reyna að manna mig upp í það að fara í bankann í vikunni og grenja út pening fyrir öllum þessum yfirdráttum sem hlóðust á mig í háskólanámi. Það sökkar.

Hvað í fjandanum er ég annars að gera með veðrið í Cambridge á síðunni ennþá? Redda því á árinu. Geeeeeiiisp.

2.8.07

Jáááása hvað það er gott að vera liðleskja. Ég kemst ekki á netið í minni tölvu svo enginn fær að sjá mynd af mér í kufli og hettu fyrr en í haust.

Ég fór í ógeðslega skemmtilegt partý um síðustu helgi og stefni á að fara í annað um þessa helgi. Glókollur er reyndar að gera mig geðveika með tónlistinni sem hann spilar... það þarf einhver að trufla hann á meðan ég laga. Til dæmis með því að lokka hann inn í herbergi með gylliboðum. Fröken Dóra - will you take one for the team? Svona einu sinni bara.

Svo þakka ég kærlega fyrir allar hamingjuóskir, þið eruð krútt.