Harmsögur ævi minnar

30.7.03

Heyrðu maður er bara orðinn fórnarlamb alþjóðlegs glæpahrings!
Þannig er mál með vexti að sambýlismaður minn hringdi í mig í gær heldur þurr á manninn. Hann hafði verið að kíkja á Visa-reikninginn í hinum svokallaða heimabanka og leist vægast sagt ekki á upphæðina á honum. Ég fékk magasár af stressi því þrátt fyrir all nokkrar pizzur, einhverjar heimsóknir á bari bæjarins og þó nokkur geisladiskakaup fannst mér þessi risaupphæð ekki passa. Ég kíkti því á færslurnar á kortinu og viti menn... er þar ekki bara færsla upp á 500 dollara frá einhverju fyrirtæki sem kallar sig "Ebillpayer". Og önnur upp á einhverjar evrur frá "Gra.Almac". Ég er yfir mig hneyksluð yfir ósvífninni í þessu liði. Bankinn verður að laga þetta á morgun.

En: Farið veeeel yfir Visa-reikninginn!

Djöfull líst mér vel á helgina framundan. Frí frí frí. Ég ætla að éta meira en ég hef nokkru sinni étið á ævi minni. Og ætli maður fái sér ekki eins og eitt vínglas með matnum. Kannski. Shweeet.

Ef einhver hefur svo áhuga á því þá er ég að fara austur í rassgat á frjálsíþróttamót í ágúst. Aðallega til að heimsækja langömmu mína sem er 95 ára. Kannski get ég líka keppt í einhverjum greinum; ég þótti nú efnilegur hlaupari hérna á árum áður.

28.7.03

Ætlaði að vera löngu búin að blogga en er búin að vera í hálfgerðri eftir-helgar-lægð. Sjáum hvort maður hressist ekki eitthvað þegar fram líða stundir.

25.7.03

Já og það má bæta því við að þetta er mjög hentugt fyrir tobbalicious því hann getur þá auðveldlega skipt niður í yngra módel þegar Deeza verður orðin krumpuð og sigin. Eða shall we say krumpaðri og signari.

Svo er annað... tobbalicious hringdi í mig í ofboði í morgun. Þannig var mál með vexti að hann hafði þurft að ná í Svölu systur mína inn í Hafnarfjörð svo hún gæti stússast eitthvað með pabba okkar. Málið var að drengnum fannst við systur orðnar óhugnarlega líkar í bæði útliti og háttum. Mun fyrrnefnd systir því hér eftir verða kölluð "Minn illi klón". Tjah, eða bara Mini-Me. Þið getið svosem dæmt um það sjálf hvort það er ekki bara rétt hjá drengnum að það sé svipur með okkur systrum.

Guð hefur bænheyrt mig. Í morgun á leiðinni í vinnuna sá ég eitthvað skrýtið fljúga framhjá mér en gat ómögulega séð hvað það var. Þetta var bara svona lítill blörraður blettur. Þetta var örugglega geitungur sem guð blörraði svo ég yrði ekki hrædd. Mér líst vel á það að þurfa ekki að lifa í stöðugum ótta lengur. Þetta var hugulsamt af honum.

24.7.03

Ég þoooli ekki dónalegt fólk. Ég fór í Bónus í gær og konan fyrir framan mig var svo ótrúlega leiðinleg og fúl að mig langaði mest til að... tjah... drepa hana. Eða nei, bara kannski kýla hana. Hún þakkaði ekki einu sinni fyrir sig og stelpan var samt mjög almennileg sem afgreiddi hana. Ég sagði náttúrulega ekki neitt því við Íslendingar erum svo bældir en ég gaf henni mjög grimmilegt augnaráð. Því miður leit hún ekki á mig svo hún varð örugglega einskis vísari og hefur pottþétt verið dónaleg í næstu búð sem hún fór í líka. Og allur minn pirringur til einskis. Hrmphff....

23.7.03

Við keyptum fullt af ís á laugardagskvöldið. Og líka Fridzy og Jón (sem borðuðu hjá okkur). Og nú er ekkert til að éta í kotinu nema stórt parmesanstykki og ís. Ég verð að viðurkenna að mér er hálf illt í maganum. En ég fæ örugglega ekki beinþynningu af öllu þessu kalkáti.

Svo verð ég að fara að kíkja á Simsana mína. Þeir hafa verið stórlega vanræktir upp á síðkastið. Kannski í lagi; kellingin var nú hálf þunglynd eftir að félagsmálayfirvöld tóku af henni barnið.

22.7.03

Jæja nýtt blogg í staðinn fyrir þetta gamla ljóta sem var hætt að virka. Ég á enn eftir að setja inn tengla á marga en ekki áhyggjur - þetta er allt í vinnslu.

Og bara einn og hálfur mánuður í útlönd, ég verð að fara að kaupa mér bikini og eitthvað. Ég er nú með svo mikið hitaóþol að eftir fyrstu vikuna á Sardiníu verð ég orðin eins og þurrkuð daðla. Or sumpnt. Muna bara sólarvörn. Sóóólarvörn er lykilatriði hérna.

Ég hefði kannski bara átt að fara til Finnlands eða Sviss.

16.7.03

Haldiði að mér hafi ekki bara tekist að fara út í gærkvöldi! Ég er ekkert smá ánægð með þetta. Ég þarf nú samt að hringja upp á Skjá einn og biðja þau að hætta með "Nátthrafna" eða hvað sem það heitir. Hver á að geta komið sér í rúmið þegar það er sjónvarp í gangi til tvö? Svo skrapp ég saman í hitanum í dag og er núna bara 140 cm á hæð.

Ég vil líka mæla með því að allir sjái myndina "Dude, where's my car?". Þar er lítill gullmoli á ferð.

Lifið heil. bið að heilsa

15.7.03

Jæja nú verður maður að koma sér út úr húsi.

Sumarið er tíminn þegar allir eru hressir og kátir og fara í Nauthólsvík og ganga á Esju og svoleiðis. En ekki ég. Ég skríð upp í sófa eftir vinnu og morkna þar. Ég nenni gjörsamlega engu og þarf bráðum að fara í skítugar nærjur því ég er allt of þreytt til að labba þrjár hæðir niður í þvottahús.

En nú skal verða breyting á. Í kvöld ætla ég t.d. að reyna að komast á kaffihús. Eða sjáum til.

Svo var ég beðin um að pakka in húla-hring í vinnunni en sagði að það væri ekki hægt. Sem er alveg rétt.

14.7.03

Mbl.is
Erlent | AP | 14.7.2003 | 22:53
Leitað að 12 ára stúlku og 31 árs manni sem kynntust á Netinu...

Haddi - ég hélt að það væri búið að ræða þetta.

Annars kom sænsk fjölskylda í búðina í dag. Þau keyptu fullt af dóti og meðan ég raðaði í poka sagði húsbóndinn: "Hey, are you that singer?","Haaaa? What singer?" svaraði ég. "You know... what's her name? Ah, yes - Birgitta." Ég vissi ekki hvert ég ætlaði! Og ekki veit ég hvernig manninum datt þetta í hug. Það prýðir mig ekki grannur, appelsínubrúnn líkami og fötin mín eru alveg laus við fjaðrir, kögur og kósur. Hins vegar var ég með tvær fléttur í hárinu og það gæti hafa ruglað hann í ríminu. Ég ætti kannski að reyna að græða eitthvað á þessu.

Og bara svo það sé á hreinu þá var geitungurinn ógurlegi víst enginn geitungur eftir allt saman. Þetta var einhver randafluga sem þykist vera geitungur svo aðrir séu hræddir. Þetta kalla ég svik. Ég er orðin hjartveik taugahrúga eftir einhverja platflugu!

12.7.03

Vinna, borða, sofa. Vinna, borða, sofa. Endalaust alveg.

Svo loksins þegar maður á eftir að hafa efni á því að gera það sem mann langar til verður maður búinn að gleyma hvað það var eða verður orðinn of gamall og hrumur til að nenna því. Þannig að við erum eiginlega að þessu til einskis.

Við verðum alltaf vinnumaurar. Meira bullið, það hlýtur að vera til betra kerfi en þetta. Ég legg til að Góðbjór geri alvöru úr stofnun Fríríkisins.

Annars vil ég þakka forsætisráðherra og frú fyrir afar indæla veislu í gærkvöldi.

11.7.03

Það komu engir geitungar í búðina í dag. Ætli ég neyðist ekki til að fá mér rauðvínsglas til að fagna því.

10.7.03

Hetjan Hafdís


Ég er (eins og einhverjir hafa kannski tekið eftir) ekki búin að vera í miklu bloggggstuði þessa dagana. Hins vegar gerðist atburður í dag sem ég sé mig knúna til að deila með ykkur. Ég veiddi nefnilega minn fyrsta geitung. Þetta er stórmerkilegt því ég er haldin ótrúlegri hræðslu við þessi ógeð.

Nú eru geitungar því miður orðnir daglegir gestir í búðinni minni og ég stend bak við afgreiðsluborðið stjörf af hræðslu og þori hvorki að hreyfa legg né lið.

En í dag ákvað ég: "Nei. Hingað og ekki lengra. Þú lætur þessar pöddur ekki stjórna lífi þínu lengur." Og það var eins og við manninn mælt; ég óð í eitt kvikindið í glugganum og eftir hörð slagsmál lagði ég skepnuna að velli með tilþrifum. Það skemmdi heldur ekki fyrir að hann var orðinn lúinn og þurrkaður í sólinni og hættur að geta flogið. Eiginlega hreyfði hann sig voða lítið; skreið svona aðeins fram og til baka. Og ég setti glas á hvolfi yfir hann. En það breytir engu - þetta var glæsilegur persónulegur sigur.

Og þið skuluð bara passa ykkur. Nú er ég fær í flestan sjó.

9.7.03

Exotic Dancer
You're Exotic Dancer Barbie. You have some moves,
and will do anything for a few bucks. Take it
off girl, but keep it PG-13 please.


If You Were A Barbie, Which Messed Up Version Would You Be?
brought to you by Quizilla