Harmsögur ævi minnar

25.3.08

Jæja, þá er maður snúinn aftur úr útlegðinni. Ég dvaldi um helgina á hjara veraldar, eða nánar tiltekið hjá móður minni á Höbbn í Hoddnafirði, ásamt systur, bróður, mömmukærasta og tveimur stjúpbræðrum. Það var algjörlega frábært... ég hef ekki legið svona mikið í leti síðan ég fékk lungnabólgu '81. Reyndar bar ég inn í húsið tvær 200 kílóa marmaraborðplötur (ekki alveg ein samt) og u.þ.b. 120 pakkningar af níðþungum leirflísum en það var svosem ekki vanþörf á að brenna öllu súkkulaðinu.
---
Og ég er hæstánægð með það að þó ég sé að verða þrjátíuogeins fékk ég samt að leita að páskaegginu mínu eins og hinir litlu krakkarnir. Það er kannski aðeins skammarlegra að segja frá því að ég opnaði það ekki heldur át frá systkinum mínum. En ég nennti bara ekki að fá páskaegg út um alla tösku í fluginu heim. Alveg satt.
---
Svo brenndi ég mig þegar ég var að gera sósu með hátíðarmatnum. Helvítið bullsauð og slettist á hendina á mér og DJÖFULL sem það var vont... og það allt helvítis kvöldið. Í gær fékk ég svo þessar fínu risablöðrur á baugfingur vinstri handar. Nú er mér ekki lengur illt en ég er gjörsamlega heilluð af sárunum. Þetta er rautt og hvítt og svo leka allskyns vessar úr þessu lon og don. Ég ætlaði varla að geta einbeitt mér að vinnu í dag, mér finnst þetta svo merkilegt.
---
Óóójá, svo átti nú aldeilis að taka á því í ræktinni í dag en í staðinn fékk ég mér rauðvín og páskaegg. Ég sver það, við þurfum að fara að sækja um aðra stúdentagarðaíbúð fyrir bumbuna á mér.
---
Mínus vikunnar fær svo hjásvæfan fyrir það að leirtauið var ennþá skítugt í vaskinum í gær þegar ég kom heim. Leirtauið síðan á miðvikudaginn sko. Eins og hann er nú oftast duglegur þessi elska. Ég skal taka það með í reikninginn að hann vissi ekki hvenær ég kæmi; það var nefnilega bara laust flug um morguninn og ég vildi ekki vekja hann
alveg skelþunnan kl. 8. En það er þá klárt mál að hann er ekki duglegur af því að hann er snyrtilegur heldur bara af því að a) hann vill vera góður við mig, eða b) hann þorir ekki öðru. Mér er svosem sama hvort það er.
---
Og þúsund þakkir fyrir allar fallegar kveðjur út af ömmu.

17.3.08

Til ömmu.

12.3.08

Aftur um lögguna... alltaf verið að væla um peningaleysi á þeim bænum. Efast reyndar ekkert um að lögreglan sé fjársvelt eins og margar aðrar stofnanir. Þó hefði sjálfsagt mátt spara nokkra aura þegar ráðist var inn í stúdentagarðana á Bifröst með víkingasveit, fíkniefnahundum, öllu tiltæku lögregluliði og tollvörðum. Gott ef Grissom var ekki þarna líka. En þeir fundu þó 0,3 g af fíkniefnum þannig að þetta var nú ekki algjört fokkopp. Eða þannig.

Fyrir mörgum árum var mér, þáverandi unnusta, frænda og kærustu hans hent upp í löggubíl niðri í bæ. Þar fengum við langan fyrirlestur um að það væri bannað að tína blómin sem eru gróðursett niðri í miðbæ. Ég er alveg sammála; bölvað unglingarugl... en þetta voru 7 lögregluþjónar að röfla í hálftíma. Ég er viss um að það hefði verið hægt að finna bankaræningja á þeim tíma.

Ég held að löggan þurfi bara aðeins að forgangsraða.

11.3.08

Ég er yfir mig ánægð með þetta átak hjá lögreglunni að stoppa bíla fyrir að gefa ekki stefnuljós. Ég þoli fátt verr en fólk sem gefur ekki stefnuljós. Ef ég fengi að ráða mætti löggan rífa þessi fífl út úr bílnum og gefa samstundis 15 vandarhögg á beran bossann fyrir framan alla. Það myndi kenna þeim.
---
Svo verð ég nú aaaaðeins að hérna... ef ég er eitthvað að misskilja. Þessi tískudúddi þarna í Innlit/Útlit... er hann ekki búinn að vera með sömu klippinguna og sömu gleraugun í svona 20 ár? Mér finnst það nú ekki mjög tískulegt.
---
Mikil unun er það að fylgjast með rifrildinu á milli Bubba, Bigga í Maus og Dóra DNA. Bara mjööög fyndið sko.

10.3.08

Þetta var aldeilis hressandi helgi... átti góða og skemmtilega nótt með sérlega krúttlegu fólki. Ég fór líka á útsölu hjá 66°N og keypti slatta af útivistardóti, en ég er nú ekki með samviskubit yfir því þar sem ég var að dunda mér við skattframtalið og fæ hvorki meira né minna en 136.- krónur endurgreiddar í ágúst. 136.-, segi það og skrifa! Herregud.

8.3.08

Hjásvæfan skellti sér á dansiball með Glókolli frænda. Ég hefði alveg viljað fara með en tek ekki neina sénsa með þessa pest, núna fyrst ég er looooksins komin á lappir. Ég er komin með verki í mjaðmagrindina og legusár af allri þessari rúmlegu þannig að ég held að það sé best að taka því rólega fyrst um sinn til að leggjast ekki aftur. Það er svo hryllilega leiðinlegt að vera veikur.

Nú, manni leiðist svosem ekkert einum heima... reyndar ágætt að hafa holuna fyrir sjálfan sig endrum og eins. Ég er búin að fá mér rauðvín, baka speltbrauð, flokka og raða stafrænum myndum og ýmislegt smálegt. Stúdentablokkin er auðvitað undirlögð af partýum þannig að maður heyrir allskonar tónlist í kaupbæti. Gaman að því... enda trufla veislulæti mig nákvæmlega ekki neitt - svo lengi sem við erum ekki að tala um standandi partý í marga sólarhringa. Fólk verður nú að fá að skemmta sér (og hafðu það, þú þarna sem bjóst einu sinni við hliðina á mér og varst alltaf að hringja á lögguna! Piff...).

4.3.08

Ái ái ái. Mér finnst leiðinlegt að væla en þetta er mitt blogg og ég ætla bara samt að gera það. Ég er búin að vera meira og minna sofandi í allan dag... rankaði við mér áðan og ætlaði að sofna yfir sjónvarpinu en það var Skólahreysti í því. Það finnst mér ekkert skemmtilegt. Hjásvæfan fór út að horfa á fótbolta og drekka bjór. Það var ágætt því þó mér finnist fínt að hafa einhvern til að vorkenna mér er afskaplega lítið pláss hérna, og það verður ennþá minna þegar annar aðilinn er lasinn og fúll. Hann var nú svo sætur að útbúa fyrst handa mér súpu og setja verkjalyf og kók við rúmið. Og tölvuna, svo ég gæti a.m.k. bloggað um síðustu mínútur míns viðburðaríka lífs ef ég tæki upp á því að hrökkva upp af rétt á meðan hann skryppi á pöbbinn. En nú er ég komin með hausverk af ljósinu frá tölvunni svo ég ætla að hvíla mig.

Meeeen, það sökkar að vera veikur.

Jæja, kvefið breyttist loksins í veikindi. Ég sem var að vona að það héldi bara áfram að vera kvef.

Í hitamókinu áðan dreymdi mig að hjásvæfan mín væri að fara að taka þátt í So you think you can dance. Og hann leit út eins og Dawson í samnefndum Creek. Ég var agalega ánægð með þetta uppátæki og stolt af mínum manni.

2.3.08

Auðvitað er skítaveður í dag þegar ég var að spá í að drífa mig út. Kvefið ennþá á sínum stað auðvitað, ég losna sennilega við það í júní. Best að drífa sig bara á bókamarkaðinn í dag fyrst ég fór ekki í gær... ég er að vona að nýjasta Nönnubókin sé til þar þó ég efist nú um það.

Eeeen svona til að drepa tímann meðan hjásvæfan finnur sig til þá eru hérna nokkrar staðreyndir um sjálfa mig (þ.e.a.s. þegar ég var krakki - held ég sé nú vaxin upp úr þessu flestu):

  • Ég var fáránlega sýklahrædd og gat t.d. ekki drukkið úr sama glasi og neinn fyrr en ég varð 15 ára.
  • Ég hringdi iðulega hágrátandi í vinnuna til mömmu og pabba út af því að:
    • Ég var viss um það væru ljón á leiðinni heim til mín til að éta mig.
    • Ég var viss um að ísbirnir á fljótandi rekís væru að leggja að í Hafnarfjarðarhöfn og myndu koma heim til mín og éta mig.
  • Ég hékk nokkrum sinnum grenjandi í löppunum á mömmu þegar hún var að fara í vinnuna því ég var viss um að ég yrði grafin lifandi eða yrði að beinagrind.
  • Ég fór í fýlu út í mömmu því hún vildi horfa á Eurovision '82 í steríó, þ.e.a.s. með kveikt á útvarpinu líka. Ég vildi bara hafa hljóðið í sjónvarpinu.
  • Á ferðum út úr bænum þurfti ég alltaf að bíta saman tönnunum á milli vegstika.
  • Oft gat ég ekki stigið á neins konar línur á gangstéttum án þess að finna sársauka í iljunum.
  • Ef ég meiddi mig eða rak mig í öðrum megin þurfti ég að gera það hinum megin líka.
Gaman að þessu... gæti sjálfsagt rifjað upp fleira en er að spá í að drífa mig út. Stundum er betra að segja ekki frá öllu.

1.3.08

Og hvenær kemur þessi kærasti heim úr skólanum og af hverju í andskotanum er skóli á laugardögum?!

(Og nei, ég er ekki svona ógeðslega needy - mig langar bara að fara á bókamarkaðinn og á ekki pening...)

Ég sofnaði aftur eftir morgunmat í morgun og dreymdi að ég hefði fengið glæný sílikon-bökunarform í gjöf... fyrir möffins og allt. Mig dreymdi líka að ég ætti glænýjan hárbursta. Ekkert smá svekkjandi þegar ég vaknaði og átti bara ekkert nýtt dót.

Fékk frænkur og fylgihluti í smá rauðvínssötr í gærkvöldi. Það var æði. Fridz frænka er flutt á klakann eftir langa dvöl í kóngsins Köben. Sem er gaman en slæmt að því leyti að við höfum slæm áhrif hvor á aðra og tekst alltaf að gera eitthvað asnalegt. Í nótt gerðum við t.d. snjóengla fáklæddar fyrir utan blokkina mína. Það var Færeyingur með okkur en hann skemmti sér nú ágætlega. Þó er það nú ekkert sérstaklega gáfulegt (svona eftir á að hyggja) að liggja í snjónum um miðja nótt þegar maður er hálflasinn. Og ekki í öllum fötunum sínum. En ég er nú ennþá á lífi... bara með smá hósta.