Harmsögur ævi minnar

29.9.04

Djöfull var nú gaman í réttunum maður...



Ég er hörmulega leið. Bláa Hello Kitty dagbókin með glimmerinu sem ég keypti í gær og gladdi mig ógurlega gerir ekkert fyrir mig í dag. Mest langar mig bara að snúa þessa Hello Kitty-hóru úr hálsliðnum fyrir að glápa svona sarkastikklí á mig með galopnum augum. Búin að reyna að læra (HA HA HA!!!), búin að reyna að sofa, búin að éta talsvert mikið af graflaxi og súkkulaði en ekkert virkar. Ég hef enga einbeitningu í eitt eða neitt. Langar bara að skríða undir rúm og grenja. EÐA fá mér sígarettu...


Fyrrrrrssttiiiiiiii rrrreeyyyyklauuuuuuusi dagurrrrrinnnnn...


28.9.04

Hey! Hér er klukkan komin vel yfir miðnætti og enginn búinn að pósta afmæliskveðju!!! Sem betur fer fékk ég sturlað flott bleik rúskinnsstígvél frá mömmu í afmælisgjöf þannig að mér er alveg sama þó ég eigi enga vini.

27.9.04

P.s. 2 dagar í reykleysi.... :(

Já gleymdi að segja frá einu. Í fyrradag sat ég ósköp róleg við tölvuna inni í herberginu mínu, með opið út á svalir til að fá góða veðrið inn (ca. 30°C og sól). Byrja þá einhverjar ægilegar drunur og læti. Ég fer út og herregud... haldiði að það hafi ekki bara dúndrast úr himninum haglél/klakamolar á stærð við kókópöffs. Ég hefði sjálfsagt bara rotast ef ekki hefði verið fyrir skyggnið á svölunum. Þetta gekk á í svona 10 mínútur, og þá bara dró frá sólu og aftur byrjaði blíðan eins og ekkert hefði í skorist. Ef þetta er ekki eitthvað heimsendamerki þá veit ég ekki hvað!

26.9.04

Úff... ég vona að mamma fari að koma sér heim. Hef hvorki fyrr né síðar borðað svona mikið. Við förum út að borða a.m.k. tvisvar á dag (í boði hennar) og ég er bara alveg að springa. Samt gott sko... kræklingur og sverðfiskur og pasta og hráskinka og rauðvín og ís. Get ekki beðið eftir að byrja á nýju lífsmottóunum... var m.a. að panta skólabækurnar á netinu svo ég ætti meira að segja að geta byrjað að læra von bráðar.

Ætla nú að reyna að pósta myndina af mér og Forest Whitaker sem ég lét taka af okkur þegar ég hitti hann í Þykkvabænum. Bestu vinir mar. Já þetta er ágætt sko...

24.9.04

Jæææja, Amy farin og ég líka.

Komin til Kagggljarí með móður í eftirdragi. Á Íslandi er ég búin að sjá Jökulsárlón, Gullfoss og Geysi, Bláa lónið, brúna milli Ameríku og Evrópu, Þingvelli, fara í þrítuxafmæli hjá Sindra oooog fara í réttir. Og það á fjórum dögum. Ekki slæmt.

En nú þarf ég að drullast til að byrja að læra...

22.9.04

Jæja, er á leiðinni út á flugvöll, kem með Íslandsferðasöguna mína þegar ég er komin út. Hef aldrei, hvorki fyrr né síðar túristast svona mikið um landið okkar. Og stefni ekki á að gera aftur. Allt mjög kúl samt sko...

Gaman verður að sjá hvað ég þarf að borga mikið í fokking yfirvigt í þetta skiptið. Er samt í þremur jökkum, með tvö úr og allar hárspennurnar mínar í hárinu til að spara pláss. Og tölvutaskan er úttroðin af geisladiskum, skólabókum og alls konar hleðslutækjum, hún er sko a.m.k. 23 kíló.

Nú er bara að stoppa á Bæjarins bestu í pullu með kokkteilsósu and then I'm off.

17.9.04

Æ caramba hvað ég er ekki að nenna þessu. Í staðinn fyrir að gera ritgerð gerði ég haustheit. Þau eru eftirfarandi:
  1. Ég ætla alltaf að læra heima og vera ekki alltaf á síðustu stundu með allt sem ég geri.
  2. Ég ætla að setja glósurnar mínar jafnóðum í möppu svo ég sé ekki alltaf að finna þær mörgum árum seinna krumpaðar inni í stílabókum og bakpokahólfum.
  3. Ég ætla að fara í leikfimi svo ég verði ekki með keppinn hangandi yfir buxnastrenginn um jólin. Svo ekki sé nú talað um helvítis upphandleggjabúðinginn.
  4. Ég ætla að hætta að reykja.
  5. Ég ætla að vera góð við Matthildi, hamsturinn okkar.
  6. Ég ætla að hætta að hrækja, ropa og prumpa.
  7. Ég ætla að vera ljúf í skapinu og ekki alltaf svona pirruð og óþolinmóð.
  8. Ég ætla að senda ömmum mínum fleiri bréf frá Sardiníu.
  9. Ég ætla alltaf að vakna snemma og hætta að vera ógeðslega morgunfúl.
  10. Ég ætla að fara miklu minna út að skemmta mér og eyða minni pening.

Skoh! Ég verð alveg ný manneskja bara.

Jæja... nú fer að styttast í að maður nái í hana Amy sína suður í Keflavík. Verð reyndar að rumpa af einni ritgerð áður en ég legg af stað eftir einn og hálfan. En maður hefur svosem lent í því verra. Og svo bara stuð. Bezt að kaupa viskí, þetta vill örugglega bara drekka irish coffee.

16.9.04

Tók eftir því í dag að fjölskylduíbúðirnar á stú-stú-stúdentagörðum eru með miklu stærri svalir en hinar íbúðirnar. Þær eru riiiisastórar. En fyrrverandi sambýlismaður minn (og hýsill þessa dagana) þarf að deila sínum hálfs fermetra svölum með gaurnum við hliðina. Það er ekkert vit í þessu; hvað hefur þetta barnalið að gera við stórar svalir? Miklu nær að láta einhleypa (og barnlaus pör jafnvel) fá stórar svalir til að geta haldið fyllerísgrillveislur á sumrin.

Og nýi páfagaukurinn hefur við nánari umhugsun fengið nafnið Siggi en ekki Tobbi.

Svo eru þessar lifrarbólgu-A auglýsingar að fríka mig út... ætti maður að láta bólusetja sig?

15.9.04

LÍN komið inn og ég komin með fullt af splunkunýjum yfirdráttarheimildum. Já það er sko ljúft að vera námsmaður.

Nenni ekki þessu peningaveseni alltaf hreint. Nenni samt enn síður að vinna þannig að ég ætla ekkert að vera að kvarta.

Þyrfti helst að finna mér einhvern ríkan gaur (kvensjúkdómalæknirinn minn sagði við mig um daginn að það væri grundvallaratriði að hafa þá ríka), þannig að ef þið þekkið einhvern drulluríkan, sæmilega snyrtilegan og erfingjalausan, látið mig þá vita.

11.9.04

Ennþá með fokking hósta... andskotans vesen. Ætti kannski ekki að vera að reykja svona rétt á meðan ég jafna mig. En það er bara svona.

Er annars að fara að kaupa gullfiska og páfagauk með systkinum mínum og móður. Það líst mér vel á. Fjölskyldan er enn í sárum síðan Prímus II lést á vormánuðum. Ég er bara hræddust um að nýi páfagaukurinn standi ekki undir væntingum. Prímus var nefnilega svo stórgáfuð skepna, skemmtilegur og kelinn og gat sagt nafnið sitt í ofanálag. Það er ekki öfundsvert fyrir næsta gauk að þurfa að feta í fótspor hans.

Reyndar er Prímus II ofan í frystikistunni hjá móður minni (ásamt síðasta hamstri sem drapst) því það voru uppi hugmyndir að stoppa hann upp. Það má þá skella honum í búrið hjá nýja fuglinum.

9.9.04

Búin að fara 2svar í bíó (allar bíóferðir í boði tobbaliciousar nema annað sé tekið fram). Annars vegar á The Shape of things og hins vegar á Saved. Sú fyrri var nú bara la-la, ekkert leiðinleg svosem en dálítið pirrandi. Sú seinni aftur á móti var algjör snilld. Táraðist meira að segja í lokin (quoting Þröstur: "Kjeeeeelllling"). Ógeðslega skemmtileg mynd. Það eina sem fór í taugarnar á mér var lagið sem var spilað í byrjun og lok myndarinnar; God only knows, en það var flutt af Mandy Moore (sem lék eitt af aðalhlutverkunum og var bara þrusugóð sem jesúsóð dramadrottning) og Michael Stipe. Nú vill svo til að God only knows er eitt af uppáhaldslögunum mínum og mér finnast það algjör helgispjöll að fikta við eitthvað sem er algjörlega fullkomið í upprunalegu útgáfunni. Skammist ykkar bara.

8.9.04

Á að vera byrjuð að vinna einhver verkefni og eitthvað rugl. Var það í menntaskóla sem maður þurfti ekkert að gera fyrstu vikuna? Get bara ekki gert neitt nema liggja uppi í sófa og horfa á Family Guy og éta nammi. Ég er líka búin að vera lasin svo það er allt í lagi. Fann fyrir því áðan, mér til mikils hryllings, að mér er að batna. Þarf þá væntanlega að byrja að læra. En ég get það samt ekki því LÍN borgar mér ekki (ekki með nógu margar einingar á síðasta vetri) og lætur mig ekki einu sinni hafa nýja námsáætlun. Ég get þ.a.l. ekki keypt bækur. Datt í hug að kaupa þær með vísakortinu en það er væntanlega búið að loka því þar sem ég er ekki ennþá búin að borga reikninginn. Veturinn byrjar glæsilega...

6.9.04

Fyrsti skóladagurinn gekk stórslysalaust fyrir sig. Kennarar góðlegir og kúrsar áhugaverðir. Stakk nú reyndar af í sígó þegar annars árs nemar áttu að sýna okkur nýnemunum háskólasvæðið. Ég er þriðja árs nemi og veit alveg hvar Oddi og Árnagarður eru, takk fyrir. Hrokafulla pakk. Einn var meira að segja með Vöku-barmmerki. Treysti ekki svoleiðis liði.

Gleðifréttir: CSI í kvöld. Gerir stanslausar snýtingar og hóstaköst bærilegri. Fyrrverandi sambýlismaðurinn er meira að segja búinn að hita handa mér grænt te með jasmínu (algjör kelling... mesta furða að hann hafi ekki raspað engiferrót út í bollann eins og hann gerði einu sinni þegar ég var veik). Hann getur nú verið ljúfur þessi elska.

Velkomin heim. Er að drepast úr kvefi og beinverkjum og skólinn að byrja eftir klukkutíma. Það gerist víst ekki betra. Best að bryðja nóg af parkódíni svo þetta verði þolanlegt. Úff.

3.9.04

Komin til Íslands. Snilld. Var (aldrei þessu vant) ekki stoppuð af fúlum tollvörðum (vissi að ég hefði átt að kaupa 2 sígarettukarton andsk...) og var komin út úr flugstöðinni korteri eftir að vélin lenti. Hljóp út um dyrnar með bros á vör og bjó mig undir að kasta mér í faðm æstrar fjöskyldunnar, allir með tárin í augunum og svona. En það var enginn að bíða eftir mér. Ég beið bara spök en ekkert gerðist. Hvorugt símakortið mitt virkaði og ég var ekki með klink í tíkallasímann. Ég spurði þá Avis-bílaleigukonuna hvort ég mætti hringja hjá henni (frekar en að biðja hana um að lána mér 50-kall). Hún var voða almennileg... "Æ æ, er bara enginn að sækja þig?". "Neeeei, lítur ekki út fyrir það...". Hringdi í móður mína og jú jú. Liðið var á leiðinni, einum og hálfum klukkutíma of seint reyndar en bjargaðist.

Mætti svo dauðþreytt upp á gamla Eggert um miðnætti og þurfti að þrífa kámuga eldhússkápa. Uss uss, þetta eru nú engar móttökur. Var svo vakin snemma í morgun til að fara í gegnum gamalt drasl sem hefur safnast saman í kössum í gegnum árin hjá mér og fyrrverandi meðleigjanda. Fundum ógrynni af rusli sem ég veit ekki af hverju við settum ofan í kassa til að byrja með, en svo hafa þeir bara flutt með okkur í hvert skipti. Ónýtir pennar, hárteygjur, gömul Séð & heyrt og Melody Maker, tómar stílabækur, glósur úr menntaskóla, box með glingri, gamlir og ógeðslegir varalitir, barnabækur, blandaðar útilegukasettur (fyrir tíma geislaspilaranna...) og síðast en ekki síst, rúsínan í pylsuendanum: Hundrað og eitthvað skærlituð plastarmbönd sem ég og Fridzy frænka stálum á frjálsíþróttamóti á Hellu fyrir 15 árum. Þessi armbönd ætluðum við að nota til að smygla okkur inn á Þjóðhátíð og svoleiðis en alltaf (þ.e.a.s. í svona 2 skipti) þegar ég hef ætlað að nota þau hef ég auðvitað ekki fundið þau. Því það man auðvitað enginn hvar hann setur svona drasl. HÉR ER ALLT FULLT AF DRAAAAASLI!!!!!

1.9.04

Jæja, komin tími á að pakka. Nenni ekki að byrja á þessu... ferðatöskurnar standa bara tómar á gólfinu og glápa á mig með ásökunarsvip. NENNI EKKI!!!!!