Harmsögur ævi minnar

29.9.05

Jeeei, átti afmæli í gær og er officially orðin gömul og hrukkótt kellingarskrukka. Oj. Takk allir sem munduð eftir mér! Það yljaði mér um gamlar og reykingastíflaðar hjartaræturnar. Ég elska ykkur (Gimmi og Glókollur... búið ykkur undir að fá dauða rottu í pósti fyrir gleymskuna).

Er að horfa á íslenska Piparsveininn. Soldið svona leim en ég á samt örugglega eftir að glápa á alla seríuna. Stærsti gallinn er að þetta fer ógeðslega hægt af stað, gerist ekkert og fólk er bara að blaðra um ástina og barneignir og ferðalög og bla bla blaaa. Get ekki beðið eftir að þær fari að grenja og svona. Jamm. En hvað sem má segja um þennan blessaða þátt verð ég að taka ofan af fyrir fólkinu sem þorir að taka þátt í svona dæmi á oggulitla Íslandi. Annars þekki ég ekki neinn, ég kannski búa of lengi í útlönd?

27.9.05

En heppilegt... ég þori ekki að fara að sofa því ég var alltaf að vakna í nótt við einhverjar ógeðslegar martraðir um spítala, blóð, limlestingar, innbrotsþjófa og morðingja. Nú er ég með augnpoka á stærð við brjóstin á mér af svefnleysi en get ómögulega hugsað mér að leggjast til hvílu með allri þessari óværu.

Það er einmitt heppilegt því eins og venjulega á ég eftir að læra fyrir morgundaginn. Ég get þá væntanlega drullast til að gera það og hoppað svo upp í rassgatið á mér.

Fyrst ætla ég samt að horfa á Judging Amy þó mér finnist það ekkert svo skemmtilegt.

Djöfulsins andskotans ömurlegheit og leiðindi. Ég vildi að ég væri í útlöndum.

25.9.05

Bjórklúður Bjórmálaráðherra kom ekki að sök um helgina sem var hin huggulegasta. Ég og Doktorinn unnum reyndar ekki kassann í pöbbkvissi á föstudagskvöldið en létum það ekki stoppa okkar. Héldum við heim á Eggert og upphófst þar drykkja mikil og dans.

Seinna bættust í hópinn Völli og Rabbi, og enn síðar Börkur og skjólstæðingurinn. Þetta var fyrirtaks kvöld; þægilegt alls staðar og fjólublátt ljós við barinn.

Þegar karlkyns partýgestir voru farnir heim, splæsti Doktorinn í pizzu og svo kúrðum við saman yfir Fóstbræðrum. Ljúffengt.

(Nágrannasnótin kvartaði reyndar tvisvar yfir hávaða sem var eini svarti punkturinn, best að vera rólegur í nokkrar vikur...)

23.9.05

Helvítið hann Bjórmálaráðherra gleymdi bjórnum mínum á Hellu. Bjórnum! Bjórmálaráðherra!! Hvaða rugl er í gangi? Þá er helgin ónýt...

22.9.05

Ég og Doktorinn ætlum að vera lið í pöbbkvissi á morgun. Djöfull væri sweet að vinna bjórkassann maður. Hef samt brennt mig á því í fortíðinni að gera mér væntingar (t.d. þegar ég hef keypt mér lottómiða og svoleiðis) og því best að búast við hinu versta.

Á ennþá eftir að læra fyrir morgundaginn, ojjjj. Er þetta eðlilegt? Nenni ekki baun í bala. Vildi að ég gæti bara legið í rúminu fram á vor með nokkur hundruð góðar vídeóspólur.

Jamm, frú Jóhanna "klukkaði" mig. Ég er ekkert alveg viss um hvað það þýðir en skilst þó að ég eigi að skrifa niður 5 staðreyndir um sjálfa mig. Here goes:

1. Ég get verið ógeðslega feimin fyrir framan fólk sem ég þekki ekki, og í margmenni. Mér er t.d. lífsins ómögulegt að spyrja spurninga fyrir framan aðra í tímum uppi í háskóla; er alltaf hrædd um að gera mig að fífli.

2. Ég hlakka alltaf rosalega til jólanna, en verð þó yfirleitt fyrir vonbrigðum þar sem þau eru aldrei jafn skemmtileg og minningin um þau.

3. Ég hata, og þá meina ég HATA sunnudaga.

4. Mér finnst skemmtilegt að hanga með vinum mínum og blaðra um allt og ekkert og alls konar yfir kaffi eða bjór.

5. Ég er ógeðslega tapsár... er að vinna í þeim málum. Sort of.

Best að klukka Fridzy, Doktorinn og Jónsa.

21.9.05

Einu sinni fannst mér ég hafa verið ófrítt ungabarn. Núna þegar ég skoða myndir af mér sem smákrakka finnst mér ég geðveikt sæt. Ég var ótrúlega, ótrúlega feit. Það finnst mér krúttlegt, ég þoli nefnilega ekki horaða smákrakka... það er nú bara í hæsta máta óeðlilegt og óheilbrigt. Reyndar þoli ég ekki horað fólk, sama á hvaða aldri það er. Það er bara eitthvað svo oooojjjjjjj þegar fólk er bilað horað. Það verður svo veiklulegt og ógeðslegt. Og svoleiðis fólk nýtist illa við heyskap og önnur störf.

Og talandi um ógeð, þá er konan í Vanish Oxy auglýsingunni alveg stórkostlega hræðileg. Alveg eins og kall! Hún er líka horuð.

19.9.05

Leyfði hálfum Búlgara/hálfum Sýríubúa, sem er samt Þjóðverji að þvo þvott hjá mér í dag. Hvað gerir maður ekki fyrir þessa blessuðu útlendinga?

Er aðeins að skána í skrokknum en hef þó ennþá göngulag níræðs gamlingja sem er búinn að skíta á sig. Ómögulegt að læra þegar maður er svona tuskulegur e-ð.

18.9.05

Jeeeminn hvað það var gaman í réttunum! Ég er að drepast í öllum líkamanum af harðsperrum og er með massa marbletti á innanverðum lærum og kálfum eftir hestaferðina en það var þess virði. Svo er ég með ogguponsu marblett á handleggnum eftir að hafa dottið af baki. Ég vildi að ég gæti sagt að hesturinn hafi hent mér af baki en sannleikurinn er sá að ég missti bara jafnvægið heldur aulalega (maður var kannski orðinn aðeins valtur...) og datt. Það var fyndið og hálfvitalegt. Svo fór ég aðeins of langt á heimleiðinni og þurfti að snúa við. Ein. Næs. Var eiginlega búin að láta plata mig í að verða eftir á Hellu og fara á réttarball en skipti um skoðun þegar ég fattaði að ég var ógeðslega full og nennti ekki að vakna þunn daginn eftir, langt langt frá húsinu mínu. Svo ég hringdi í mömmu og hún sneri við til að sækja mig þessi elska. Svo komu Rabbi og Völli í heimsókn, það var gaman. Fyrir utan það náttúrulega hvað ég var ölvuð... en það rann nú af mér smám saman. Kl. 3 fórum við Völli og fengum okkur Kebab og eftir það var ég góð og bara næstum því edrú. En djöfulsins þreyta í morgun. Úff.

17.9.05

Gönguskór
lopapeysa
vindjakki
kex
kók
heitt kakó
myndavél
bjór
G&T
sígarettur

Check, check, check.

Farin á Hellu.

16.9.05

Noj noj noj, 7:30 í morgun. Bráðum vakna ég svo snemma að það tekur því ekki fyrir mig að fara í rúmið. Er búin að læra fullt og læti. En það er nú bara af því ég var ekki búin að lesa fyrir tímann í dag og þurfti að klára það. Serves me right. Og ég er búin að kúka þrisvar og klukkan rétt orðin 10. Kannski spurning um að láta athuga þetta? Það er svona þegar maður þjáist af krónískum kvíða og magasári.

Skóli til 4, svo pöbbkviss og svo sofa og svo réttir.

15.9.05

Jæja, ég er að spá í að hætta að reykja á sunnudaginn... hvernig líst ykkur á það? Er þetta að verða soldið "úlfur, úlfur" dæmi kannski?

8:30 í morgun, jessss. Þetta er allt að koma.

Ætli það sé svo ekki best að drífa sig í að kaupa brennivín fyrir réttirnar á laugardaginn. Djöfull verður ógeðslega gaman.

14.9.05

Jæja, reif mig á lappir eldsnemma (eða kl. hálf tíu, baby-steps, baby-steps) og rauk í að þrífa íbúðina svo ég myndi ekki sofna aftur. Þreif svo alla glugga að utan og endurraðaði í baðskápana. Sá mér svo til mikils hryllings að bæði klósettpappírinn og sjeríósið er að verða búið... og ég á eiginlega ekki pening til að fara í búð. Nema ég sleppi því að borga leiguna en það er nú kannski ekki sniðugt.

11.9.05

Mikil bévítans fötlun er það að geta aldrei drullað sér í rúmið á kvöldin. Ég þarf að mæta í tíma kl. 8 og get ómögulega lufsast til að fara að sofa. Enda hrekk ég ekki í gang fyrr en seinni partinn og tími ekki að sóa þessum fáu tímum á sólarhring sem ég nenni að gera eitthvað í það að sofa. Nú skal tekið á þessu máli, vakna kl. 7 og snemma í rúmið. Af hverju get ég ekki verið morgunhani? Ef morguninn væri jafn notalegur og nóttin þá myndi ég örugglega nenna að vakna. Get ekki beðið eftir því að það verði dimmt allan daginn.

10.9.05

Ég og Guffi unnum næstum því í pöbbkviss í gær og dönsuðum okkur svo upp að hnjám á 22. Svaka stuð.

Það er greinilega einhver massa rakamismunur á milli Íslands og Sardiníu... ég var orðin eins og þurrkuð daðla - exemflygsurnar fuku úr andlitinu á mér í rokinu og ef ég brosti sprungu varirnar á mér með blóði og látum. Svo ég keypti mér rosalegt boddílósjön. Nú er ég ekki þurr lengur en ég skil eftir mig fiturákir út um allt eins og snigill. Það er vandlifað í þessum heimi.

Svo líst mér þrusuvel á alla kúrsana í vetur. Hef samt ekki fengið mig til að byrja að læra. Ætli maður geymi ekki allt fram á síðustu stundu eins og venjulega...

7.9.05

Úff! Loksins komin með netið í lag... bjóst ekki við því að takast það. Síðast þegar ég bjó á stúdentagörðum var það með karlmanni sem (augljóslega) sá um tækni- og tækjahlið heimilisins. Næsta skref er að tengja græjurnar, tjah, nema e-r bjóði sig fram...?

Anyways... það er svo langt síðan ég bloggaði síðast og svo ógurlega margt búið að gerast að ég veit ekkert hvar ég á að byrja. Kannski ég sleppi því bara... það yrði hvort eð er of langt til að e-r nennti að lesa það.

Soldið skrýtið að vera komin heim... smá tómleikatilfinning, því er ekki að neita. Kannski líka af því ég bý aaaalein. Í fyrsta skipti á ævinni. Spennandi. Ætli mér eigi eftir að leiðast? Kannski er ég bara hundleiðinleg eftir allt saman. En ég er a.m.k. með sjónvarp.

Skólinn byrjaður á fullu. Líst þrusuvel á þetta. Eina vandamálið er að ég er orðin vön því að vera fjarnemandi og horfa á tímana ein í náttfötum og með kaffibolla. Allt þetta fólk í tímum truflar mig. Sérstaklega fólk sem tyggur tyggjó á háværan hátt og fólk með gamlar fartölvur með viftur sem hljóma eins og Boeing 757 í flugtaki. Andskotinn, ég var komin með þvílíkan hausverk í dag. Getið þið ekki bara glósað í stílabækur eins og aðrir?

Nóg í bili, ég ætla að spjalla aðeins við sjálfa mig.

Bið fólk að sýna þolinmæði... er að flytja og berjast við að fá nettengingu í Eggertinn minn!