Harmsögur ævi minnar

28.2.08

Arg... í dag er einn af þessum dögum.

Hjásvæfan með gubbupest og ég með beinverki og slappleika. Ég var að reyna að klóra saman í máltíð handa mér áðan og missti
rjómaostsdollu á gólfið og niðursuðudós ofan á. Það kom náttúrulega gat á ostinn og allt út um allt. Svo tókst mér að velta kaffibrúsa um koll (sem var nú sem betur fer fullur af vatni) og allt gólfið á floti. Brenndi mig á pönnunni. Rak mig í brauðristina og stillingatakkinn datt af henni. Og af því að við erum bæði slöpp nennir enginn að vaska upp og það er allt á rúi og stúi.

Jesús, María og Jósef sko... sem betur fer er að koma helgi. En eins og mér líður núna er ég viss um að ég verði lasin og í rúminu báða dagana.

25.2.08

Jeminn eini, fórum í skvass áðan. Það rifjaðist upp fyrir mér í bílnum á leiðinni heim að alltaf þegar ég hreyfi mig verð ég ógeðslega rauð í framan. Og ég meina ekki hraustlega rjóð í kinnum heldur guð-minn-góður-hringið-á-sjúkrabíl-rauð. Þegar ég var í handbolta fyrir mörgum árum síðan var tekin svarthvít mynd af okkur eftir æfingu sem svo fór í einhvern félagssnepil. Á myndinni er hausinn á mér svartur hringur. Núna þegar ég hugsa um þetta finnst mér soldið eins og ég hafi verið svikin um mínar 15 mínútur. Spurning um að senda eins og eina passamynd upp í Kaplakrika og sjá hvort þeir nenni að laga þetta.

24.2.08

Geeeisp... búin að fá mér ristað brauð og kakó og kúri nú uppi í rúmi með tölvuna (og hjásvæfuna hrjótandi við hliðina á mér). Ég er sko langt frá því að vera sybbin enda hraut ég meira og minna fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi... ægilegur fjölskyldusjúkdómur; ég man hvorki eftir mömmu né ömmu fyrir framan sjónvarpið öðruvísi en sofandi.

Annars er ég svona að velta fyrir mér möguleikum dagsins... á ég að þvo þvott... rysuga kannski, kíkja í sund, eða keilu jafnvel? Eða kannski bara í Krónuna. Ákvarðanir ákvarðanir. Jæja, ég nenni a.m.k. ekki að standa upp undan sænginni strax. Ef ég baaaara gæti teygt mig í möffins með tánum væri lífið alveg yndislegt.

20.2.08

Undur og stórmerki gerðust í gær þegar ég og hjásvæfan lufsuðumst loksins í skvass, u.þ.b. 6 mánuðum á eftir áætlun. Það var kreisí gaman en ég var reyndar komin með verk í vinstri handlegg, blóðbragð í munninn og sjóntruflanir eftir svona tíu mínútur. Ég var svo algerlega búin á því að ég hélt ég væri að drepast. Þess vegna tapaði ég, en BARA út af því. Djöfull á ég eftir að taka hann í bakaríið þegar ég verð komin í aðeins betra form.
-----
Svo vil ég kvarta yfir því að það sé búið skipta Dr. Phil út fyrir kellingarlufsuna Rachael Ray. Rachael Ray er jafn hressandi og þynnkuskita í langri bílferð. Hún er einmitt í sjónvarpinu núna og ég hallast helst að því að gellan sé ekki alveg beittasti hnífurinn í skúffunni eða þá að það sé hreinlega eitthvað að henni. Dr. Phil á hinn bóginn bætir, hressir og kætir. Ég vil fá undirskriftalista strax. Dr. Phil heim!

18.2.08

Það er allt í einu orðið hlýtt sem er gaman. Mig langar í útilegu og grill. Fyndnast verður samt þegar veðrið sparkar í punginn á manni í næstu viku með einhverjum viðbjóði. Þannig starfar þessi skratti... gerir manni upp vonir og drullar svo yfir mann með rigningu, slabbi og ömurleika. Ég ætla klárlega að kaupa mér tequila-bar í Mexíkó von bráðar. Ég er ekki gerð fyrir svona sudda og brauðstrit.

Annars er nóg hjá mér að gera þessa dagana við að bölva ástmanninum fyrir að vera í skóla sem gerir það að verkum að ég get ekki hangið í maníkjúr og hádegisverðum á Grillinu með snobbuðu vinkonunum mínum (sem ég myndi eiga ef ég ætti skítnóg af peningum).

Á milli þess sem ég bölva honum fyrir það, bölva ég sjálfri mér fyrir að hafa ekki farið í raunvísindi. Það var nú heimskulegt maður. Ef ég eignast börn þá fara þau öll í verkfræði. Þau eiga eftir að þakka mér seinna.

13.2.08

Ég er búin að uppgötva póker á feisbúkk. Núna spila ég póker á netinu á meðan ég drep í mér heilasellurnar með viðbjóðslegu sjónvarpsefni og rauðvíni. Hversu andlega rotnandi er eiginlega hægt að vera?

11.2.08

Hjásvæfan er brjóstamaður, það fer ekkert á milli mála. Um daginn var hann að munda handryksuguna (yndið sem hann er) og þóttist fitusjúga á mér magann með henni, sem okkur fannst báðum alveg æðislega sniðugt. Því næst fór hann eitthvað að ryksuga á mér bringuna svo að ég sagði "hvah, ertu að fitusjúga á mér brjóstin líka?". Þá slökkti hann á handryksugunni, horfði á mig grafalvarlegur og sagði svo: "Þetta fannst mér ekki fyndið" (og var þungbrýndur mjög).

(Það má kannski geta þess að hann var að ryksuga kexmylsnu af bringunni af mér þar sem ég lá afvelta fyrir framan sjónvarpið. Ég var sko samt í peysu.)

8.2.08

Gaavööð minn góður! Ég var að þvo mér um hendurnar inni á baði áðan og varð litið í spegilinn (já ég veit, glatað). Nema hvað að mér varð starsýnt á hársvörðinn á mér og tók eftir því að fallegu ljósu strípurnar mínar eru orðnar frekar úrvaxnar. Venjulega þegar slíkt gerist kemur upp vænn bútur af mínum náttúrulega háralit sem er þessi líka fallegi ekki-litur sem mér skilst að sé algengur á íslenskum hausum. Svona grá-gubbu-ljósbrúnn einhvern veginn. En svo var ekki nú, ó nei. Ég gat ekki betur séð en að það væri rauður blær á strýinu sem upp er að koma. Rautt! Ég hef nú látið ýmislegt yfir mig ganga í gegnum tíðina; ég er hjólbeinótt, með frekjuskarð, alltof litlar lappir og ýmislegt fleira smálegt. En túrhaus?! Það sem á mann er lagt. Mig svosem grunaði að þessi fjölskyldusjúkdómur ætti eftir að ná í skottið á mér (reyndar hætti pabbi að vera rauðhærður í kringum fertugt þannig að ef ég er heppin verða þetta bara rétt 10 ár). En kannski er ástæðan bara sú að ég drekk of mikið rauðvín. En þetta er klárlega hið versta mál.

7.2.08

Við ætluðum svei mér þá að kíkja á e-ð vetrarhátíðardótarí í kvöld. En í svona kulda og hríð er svo miklu meira freistandi að kúra undir teppi, glápa á imbann og éta ís og nammi. Waaaiiit a minute... ætli það sé þess vegna sem við erum orðin svona bústin?

5.2.08

Bolla bolla bolla. Við vorum að enda við að sporðrenna síðustu bollunum í kvöldmat. Nei ekki fiskibollum heldur rjómabollum. Það er namminamm en maginn á mér er ekki í stuði fyrir svona stanslaust rjómasull.

Þá yfir í annað (en tengt) málefni. Þegar ég og hjásvæfan vorum nýbyrjuð saman höfðum við bæði mikla andúð á fólki sem fitnar um leið og það byrjar í sambandi. "Hrein og klár óvirðing við makann!", æptum við hvort ofan í annað. "Af hverju ætti maður ekki að vilja líta vel út þó maður eigi kærasta eða kærustu?", spurðum við í forundran. Og ég er svosem alveg sömu skoðunar ennþá. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að við erum bæði búin að spik-fokkíng-fitna síðan við byrjuðum saman. Ég veit svei mér þá ekki hvernig stendur á þessu.

3.2.08

Æi þessi kærasti er alltaf að vinna þessa dagana. Mér finnst það hundleiðinlegt. Sérstaklega á sunnudögum því sunnudagar eru ógeðslegir.

2.2.08

Þetta verður viðburðaríkt ár... mig langar gríðarlega að fara til Sardiníu þar sem Glókollur er nú að fara að flytja þangað. Svo er búið að bjóða mér í tvö brúðkaup á Englandi í sumar, eitt í Cambridge og eitt í Kantaraborg. Og ég sem er að reyna að klóra mig upp úr skuldafeninu sem ég er búin að sökkva ofan í eftir öll þessi ár sem iðjuleysingi í háskóla! Það er eins gott að hjásvæfan fái gott pláss á sjó í sumar. Núna þarf hann heldur ekki að eyða öllum peningunum sínum í það að hringja í mig til útlanda.

Annars er ég heima að hanga. Var ég nokkuð búin að segja það áður að það er uppáhaldshluturinn minn? Alveg yndislegt. Best að hella sér upp á kaffi.

1.2.08

Það er svo hryllilega fínt heima hjá mér núna að ég get ekki beðið eftir því að koma heim á daginn. Ég og hjásvæfan tókum allt í gegn í vikunni; rusluðum út úr geymslunni og keyptum nýjar hirslur. Þegar maður býr í ör-íbúð þarf maður að vera mjög vel vakandi svo allt fyllist ekki af drullu og skít. Nú búum við í tandurhreinum IKEA-bás. Og hjásvæfan stóð sig eins og hetja að vanda. Hann er eiginlega alveg fullkominn fyrir utan tvennt; hann er nánast ekki með neina efrivör og svo er hann með fáránlega litlar hendur. Svo litlar að ég þarf stundum að taka upp hluti fyrir hann sem hann nær ekki taki á og það var nú soldið til trafala í tiltektinni verð ég að segja. En þetta með efrivörina má nú sjálfsagt laga.