Harmsögur ævi minnar

30.6.08

Það er ekkert til að éta í kotinu svo ég þurfti að borða Mars-súkkulaði og bland í poka í kvöldmat. Það var bragðgott en örugglega ekkert mjög hollt. Útborgunardagur á morgun... jibbí.

Noh, sjóðandi heitar fréttir. Eftir margra ára bransabrölt og vesen er ég loksins, loksins orðin heimsfrægt hnakkamódel. Hér má sjá afraksturinn (þ.e.a.s. ef þið horfið vinstra megin á síðuna og pírið augun). Hver situr þarna önnur en skóla-Deeza og mælir aðblástur eins og vindurinn? Já, ég held það nú.

Jæja, það er ekki seinna vænna að fara að undirbúa sig fyrir humarhátíð á Höbbn um næstu helgi. Ég hef ekki sótt slíka hátíð áður en skilst að þetta séu nokkurs konar réttir með humrum í stað kinda. Ég er þrælvön réttamanneskja svo þetta verður lítið mál. Helst hef ég áhyggjur af því að humarrétt sé heldur lítið mannvirki fyrir brussu eins og mig og svo veit ég ekki heldur hvernig þeir merkja humrana. Kannski merkt á hala í stað eyra. En þetta kemur væntanlega allt í ljós.

Hér kemur svo skemmtilegt lag sem varð þess heiðurs aðnjótandi að vera síðasta lag partýsins einhvern tímann á laugardagsmorguninn. Yndislegt lag. Yndislegt fólk. (Þá á ég að sjálfsögðu við fólkið mitt, ekki Bryan Ferry & co., án þess þó að ég viti nokkuð um þeirra yndislegheit.)

26.6.08

Ooooo mig dreymdi í nótt að Nigel Barker (aðalástæðan fyrir því að ég horfi á America's Next Top Model) var að reyna við mig á fullu. Við kysstumst en svo ákvað ég að draga mig í hlé þar sem ég átti kærasta. What? WHAT?!

Góði guð, plís láttu mig dreyma þetta aftur í nótt; ég mun ekki gera sömu heimskulegu mistökin aftur, ég lofa.



Koddu til mömmu óþekki strákur.

25.6.08

Nú, fyrst maður er á annað borð að sortéra myndir, þá er tilvalið að henda inn smá sýnishorni af Eurovision-partýinu:


















24.6.08

Úúúú ég græddi ekkert smá í dag. Fékk 3700 krónur inn á reikninginn minn við að eyðileggja annan reikning. Ég var alsæl með þetta og rauk út í sjoppu náttúrulega, þar sem ég keypti túrtappa, bland í poka, frostpinna og *hóst*ígarettur. Þetta kostaði 1600. SEXTÁNHUNDRUÐKRÓNUR!!! Djöfull hefði ég átt að sleppa þessum glötuðu túrtöppum... meiri helvítis peningasóunin.

23.6.08

Stuð í Heiðmörk á sunnudegi







22.6.08

Hvað á maður nú að gera á svona fallegum sunnudegi? Verst að bíllinn er eiginlega bensínlaus og við skítblönk en fokkitt... það hlýtur að reddast. Kannski maður labbi bara eitthvert.

En fyrst ætla ég að klára að horfa á myndina um blinda strákinn sem gerðist glímustjarna og var líka ógeðslega góður að spila á gítar.

18.6.08

Ég fékk mér kandífloss í gær... það var sko alls ekki eins vont og mig minnti. Neheits, það var sko nammigott. Einnig gerði ég dauðaleit að hoppukastala fyrir fullorðna en slíkt var ekki að finna í miðborginni. Er þessi 17. júní bara fyrir smákrakka eða hvað? Ég heimta að Jakob Frímann leysi þetta vandamál og það strax.
---
Hjásvæfan fékk vini í mat á mánudagskvöldið. Einn þeirra sagði mér frá atviki sem hann lenti í á læknabiðstofu í Bandaríkjunum. Hann sat og beið eftir tímanum sínum og á móti honum sátu hjón á besta aldri. Karlinn las í staðreyndabók og spurði konuna um hitt og þetta. Karl segir: "Jæja, hér er listi yfir tíu fátækustu lönd í heimi. Hvað heldur þú að sé fátækasta land í heimi?" Konan hugsar sig um í smástund og svarar svo "hmmm... Afríka?" "Uuuu nei!" segir maðurinn hneykslaður, "Afríka er sko ekki einu sinni á listanum!"

16.6.08

Vörutorg? Wtf... klukkan er ekki nema eitt! Ég vil endursýndan CSI eða eitthvað... ef ég þarf að horfa á þessa líkamsræktarfrömuði dásama krosstreiner einu sinni einn þá geng ég af göflunum. Ef ég nenni að standa upp þ.e.a.s.

Þetta var alveg fáránlega skemmtileg helgi... eða föstudagskvöldið öllu heldur. Það var svo gaman að restin af helginni fór nú í hálfgerða leti. Eeeen það er nú bara einn vinnudagur og svo 17. júní þannig að það er ekki alslæmt.

Kannski maður skelli sér í bæinn og kaupi gasblöðru og kandífloss. Ég held ég hafi ekki étið kandífloss síðan ég var svona sex ára og fór í tívolí með mömmu og pabba. Þá var mig búið að dreyma um kandífloss frá fæðingu og röflaði og röflaði þangað til þau splæstu á mig einu stykki; fagurbláu og risastóru. Það er nú skemmst frá því að segja að mér fannst það ógeðslegt en þorði ekki að kvarta því ég var búin að biðja um þetta svo lengi. Ég tróð þessu klístri þess vegna ofan í kokið á mér og kúkaði meira að segja grænu í nokkra daga á eftir. Svona hefnist manni fyrir að röfla.

13.6.08

Ojojoj... í nýju vinnunni minni er svona apparat á klósettinu sem úðar lykt á einhverra mínútna fresti. Lyktin er, já auðvitað, hvað annað en piparminta. Þetta er svo óendanlega fáránlegt að það er næstum því fyndið. Djöfull hata ég piparmintu. Fólki virðist finnast það kjánalegt en þetta er ekkert grín. Ekki bara finnst mér lyktin ógeð heldur verður mér líka flökurt af henni. Ég kann svosem engar skýringar á þessu piparmintuhatri mínu. Guð má vita hvaða bældu og hörmulegu æskuminningar liggja þar að baki.

En ég held að ég þurfi að fara að hlaupa heim til að pissa. Eða fara og liggja í hnipri í horninu á sturtuklefanum með puttann uppi í mér þar til þessi hörmung skolast af mér.

11.6.08

Jæja, fór í Nova og fékk ógeðslega flottan síma. Hann er meira að segja svo flottur að mér tekst ekki að senda sms úr honum. Ég ætlaði einmitt að bjarga konu áðan með því að senda sms á mann sem hún þurfti að tala við en neibb. Gat bara sent á þá sem þegar voru í símaskránni en ekki slegið inn nýtt númer. Mjög neyðarlegt sko. Ég geri nú fastlega ráð fyrir því að það sé hægt að slá inn númer... ég á bara eftir að skoða þetta aðeins betur. Mér líður soldið eins og ég sé að heltast úr lestinni.

Og gaman að segja frá því að gamall og bláókunnugur Indverji smellti kossi á báðar kinnar mínar í gær. Það hressti nú upp á daginn skal ég segja ykkur. Ég vona bara að þetta hafi ekki verið eitthvað vúdú.

4.6.08

Ég (og fleiri) er að spá í að skipta yfir í Nova. Einhverjar reynslu- eða með/á móti sögur?

3.6.08

Ég er strax farin að hlakka til jólanna. Ætli það séu til lyf við þessu?

2.6.08

Svona þegar ég spái í því þá ætti ég kannski að hætta að kalla sambýlismann minn hjásvæfu eða hjássa... við hittumst aldrei núorðið þar sem við vinnum á algerlega andstæðum tímum. Meira að segja sambýlismaður er soldið overstatement. Maðurinn-sem-er-með-sama-heimasímanúmer-og-ég kannski?

Nú er kominn tími til að taka til í fataskápnum... ég er búin að búa hér í níu mánuði og veit alveg orðið hvað ég nota (ef ég finn það) og hvað ég nota ekki. Við erum með einn fataskáp sem skiptist í þrjár einingar; tvær með hillum og eina með slá fyrir herðatré. Hilluskáparnir svona rétt sleppa en skápurinn með slánni er farinn að bögga mig meira en góðu hófi gegnir. Hann er bara alltof troðinn. Það er ekki hægt að taka út eitt herðatré án þess að sjö í viðbót troðist með. Ég sagði við hjássa að ég ætlaði að kíkja á þetta eitthvert kvöldið þegar hann væri að vinna, og reyna að sortéra út það sem við notum aldrei. "Já, ástin mín", sagði hann, yfir sig ánægður með framtakssemina hjá letingjanum mér. Ok buddy, það verða föt annars hvors okkar sem fá að fjúka... þú vilt kannski giska á hvort okkar verður fyrir valinu hjássi minn?

(Og áður en þið haldið að ég sé samviskulaus tík þá notar hann þessi föt aldrei. Ég hins vegar gæti óvænt fengið boðskort í ofurfínt kokkteilboð í Perlunni hvenær sem er og þá er nú gott að hafa glyðrukjólana við hendina.)