Harmsögur ævi minnar

31.1.06

Nú er illt í efni. Ég hef verið að fá háðsglósur frá vinum og kunningjum sem virðast halda að ítölskuviðtengingarháttarritgerðin mín verði ekki spennandi aflestrar. Ég hef heyrt t.d.: "Já, sjitt hvað ég á EKKI eftir að lesa þessa ritgerð", "Ha ha ha, er ekki kominn biðlisti á bókhlöðuna strax eftir ritgerðinni? DJÓK!", "Viðtengingarháttur?! Já sæll, það er ótrúlega áhugavert eða hitt þó heldur!".

Nú vil ég bara tilkynna ykkur það að ykkar refsing verður að þið skulið sko lesa þessa helvítis ritgerð þó það verði ykkar síðasta verk. Ég mun standa yfir ykkur á meðan. Það dissar enginn viðtengingarháttinn minn. Þegar ég er búin með hana þá byrja ég að ganga í hús. (Nema Doktor og Fridzy, ég sendi ykkur tölvupóst).

Be afraid, be very afraid.

30.1.06

Var að spjalla við ítalskan vin minn. Sagði honum þær gleðifréttir að það væri loksins búið að skíra sætu frænku Sölvadóttur og að barnið héti Valdís Katla. Örlítið kunnugur myndun eftirnafna í íslensku varð vinurinn yfir sig glaður að uppgötva sjálfur að þegar barnið eignaðist börn í framtíðinni yrðu þau að sjálfsögðu X Valdískatladóttir og/eða X Valdískatlason. Snillingar þessir útlendingar.

Jæja, nú sest ég við skriftir. Bless grimmi heimur... þarf bara að hlaupa út og kaupa mér sígó og nammi og ég er good to go. Ta ta.

(Bangsímoninn sem hangir í gemsanum mínum er allur skrýtinn í gallanum sínum, kannski er búningurinn orðinn of stór á hann, eða einhver hefur klætt hann illa í þegar ég sá ekki til, reyni að setja inn mynd á morgun...)

Jæja, maður er greinilega á réttri braut:

Your Scholastic Strength Is Deep Thinking

You aren't afraid to delve head first into a difficult subject, with mastery as your goal.
You are talented at adapting, motivating others, managing resources, and analyzing risk.

You should major in:

Philosophy
Music
Theology
Art
History
Foreign language


Þ.e.a.s. með fögin... veit nú ekki með deep thinking, motivating others eða analyzing risk... finnst það ekki passa við mig. Reyndar hugsa ég mikið en bara um hversdagslega (en þó mikilvæga) hluti eins og hvað ég ætla að borða næst. En það eru ekki allir eins.

Vá hvað þetta er sniðugt fyrir letingja og iðjuleysingja eins og mig.

29.1.06

Í nótt dreymdi mig að ég ætti risastóra svarta rottu sem gæludýr. Hún var hin andstyggilegasta og lét illa að stjórn. Í hvert skipti sem ég reyndi að setja hana í búrið sitt nagaði hún sig út og fór að þvælast bakvið húsgögn og endaði á því að naga gat á sjónvarpsstólinn minn og troða sér inn í fóðrið. Þá varð pabbi fúll og sagði mér að henda helvítis kvikindinu fram af svölunum. Ekki vildi ég gera það af einhverjum ástæðum. Svo náði ég í hana inn í fóðrið en hún beit mig til blóðs. Svo held ég að ég hafi vaknað.

Ég man að mér þótti samt vænt um rottuna þó að hún væri ógeðsleg.

28.1.06

Æ æ æ mig langar svo til Sardiníu um páskana :(

Er ekki einhver góðhjartaður þarna úti sem vill gefa mér ferð?

Annars er ég að fara á deit í kvöld með Völundi, bíó og læti. Best er að ég þekki hann... þá verður ekkert vandræðalegt í gangi. Mér líst vel á þetta.

27.1.06

Ég blandaði mér gríðarlega hollan og vondan skyrdrykk um daginn. Í hann setti ég ávexti sem voru að fara að skemmast og einhver fræ, þar á meðal hörfræ. Þá mundi ég allt í einu eftir því að móðir mín setti á tímabili alltaf hörfræ í hafragrautinn minn þegar ég var pínkulítil því ég var víst með svo mikið harðlífi.

Þeir sem mig þekkja vita að ég þjáist vægast sagt ekki af harðlífi í dag. Þess vegna er mikið hörfræjaát kannski ekki ráðlegt ef það kemur hreyfingu á þarmavinnslu. En ég fattaði þetta bara eftir á sko.

Finn svosem engan mun en það er gaman frá því að segja að þegar ég bjó um rúmið í morgun lá eitt hörfræ á lakinu. Kann ég engar skýringar á því en þetta kríli hefur nú fengið titilinn "fræ vonarinnar".

Góð saga.

Svo er bara handbolti og bjór á eftir. ÁFRAM ÍSLAND!

26.1.06

Mig langar á stefnumót. Ég held ég hafi barasta aldrei farið á alvöru stefnumót enda kannski ekkert verið í tízku á klakanum. Mér hefur ekki einu sinni verið boðið... ef frá eru talin þessi skipti sem einhverjir fullir gaurar hafa í örvæntingu sinni reynt að bjóða manni heim af 22 í morgunsárið. Eða var það ég?

24.1.06

Jæja, rólegt hérna. Það er heldur ekkert búið að vera í gangi hjá mér fyrir utan slæmar fréttir, sorg og almennt andleysi sem fylgir svoleiðis.

En... lífið heldur áfram og kominn tími til að hysja upp um sig brækurnar.

Þau undur og stórmerki áttu sér stað í dag að ég hélt áfram með ítölskuritgerðina mína. Það er svo langt síðan ég opnaði skjalið að tölvan slökkti á sér af áreynslu þegar ég ég smellti á það. En þetta hafðist á endanum og ég er í rjúkandi stuði alveg. Ætli ég klári hana bara ekki í mánuðinum? Eða tjah, kannski aðeins of mikil bjartsýni.

Svo er ég bara byrjuð að borða á fullu... þýðir náttúrulega ekkert annað ef maður ætlar að standa við áramótaheitið: Þriggja stafa tala á vigtinni fyrir útskrift. Nema ég útskrifist í október, þá hef ég auðvitað sumarið til að troða í mig líka. Bónus er alveg að bjarga mér í þessu, pakki af Maryland kexi kostar bara fimmtíu og eitthvað kall, enda étið í morgun-, hádegis- og kvöldmat.

Já, og ég tók þátt í netkosningu um kynþokkafyllsta mann Íslands í einhverri netkosningu (ekkert diss, var í sígópásu!). Ég kaus Hilmi Snæ því hann er sjúklega kynþokkafullur. Var reyndar ekki viss hvort ég ætti kannski að kjósa Eið Smára. Mér finnst hann ekkert brjálæðislega flottur en mig dreymdi í fyrrinótt að ég hefði sofið hjá honum. Ætli hann verði fúll af því að ég kaus hann ekki? Þetta var nú bara einnar nætur gaman sko, ég lofaði engum neinu.

16.1.06

Eina konan sem verið hefur á lista yfir 30 eftirlýsta glæpamenn á Ítalíu var handtekin í Amsterdam í Hollandi í dag. Konan, sem hefur verið á flótta undan réttvísinni síðan árið 1991, var eftirlýst fyrir mannrán, morð og aðra glæpi. Talið er að hún hafi verið höfuðpaur hóps stjórnleysingja sem tengist glæpahópi á eynni Sardiníu. (tekið af mbl.is)

Maður má prísa sig sælan að hafa sloppið ómeiddur!

12.1.06

Úúúú, það er kannski komin hugmynd fyrir enskuritgerðina. Vil ekki gefa neitt upp strax en ég lofa að hún er ekki síður spennandi en ítalskur viðtengingarháttur.

Það er búið að reka mig úr pöbbkvissliðinu og nýr og ferskari leikmaður hefur verið tekinn inn í staðinn. Mér er skítsama. Hvern langar að taka þátt í asnalegri spurningakeppni hvort eð er?! Ekki mig, ó nei.

Má sauðsvartur almúginn koma með lagafrumvörp á Alþingi? Ef svo er þá ætla ég að skokka niður eftir með mitt á morgun. Það heitir: Endurlögleiðing dauðarefsingar á Íslandi. Dauðarefsingin mín á samt bara við hálfvita sem gefa ekki stefnuljós og sóða sem henda tyggjóum á götur og gangstéttir. Skammist ykkar þið sem lýsingin á við, þið eruð úrgangur samfélagsins og okkur hinum til skammar, leiðinda og óþurftar.

11.1.06

Keypti mér allar skólabækurnar og verslaði í matinn í gær. Rétti bara fram vísa eins og ekkert væri sjálfsagðara en inni í mér var ég skíthrædd um að fá synjun á kortið. Þetta rúllaði samt í gegn, hjúkk.

Sökum ofáts yfir jólin og almennra blankheita keypti ég bara leiðinlegan, ódýran og hollan mat. Það dugði þó skammt því um miðnætti greip mig mikil sykurþörf. Til allrar lukku fann ég tvo gamla kleinuhringi inni í skáp sem ég tróð í mig með nokkrum ísköldum mjólkurglösum (aðallega af því að það er gott en líka af því þeir voru svo harðir). Fór svo í rúmið en viti menn, klukkutíma síðar var ég aftur að drepast úr hungri/græðgi. Maginn á mér breytist yfir jólin í plöntuna úr Litlu Hryllingsbúðinni... FEEEED MEEE!! Ég er stanslaust glorsoltin því kvikindið (þ.e.a.s. maginn á mér) er orðið svo stórt. En hingað og ekki lengra. Nú verður borðað grænmeti, fiskur og baunadrasl.

Og þriðji skóladagurinn í dag og ég er ekki ennþá búin að fá geðveikiskast og henda mér grenjandi í gólfið af kvíða. Það er mjög jákvætt. Ég er viss um að þetta er allt varalitnum að þakka.

10.1.06

Ég þarf nauðsynlega að fara í Bónus, hér er jafnlítið til af mat og á Austur-Evrópsku munaðarleysingjahæli. Ég er að reyna að manna mig upp í að kíkja á heimabankann en ég þori ekki. Eitthvað segir mér að vísa frændi sé kominn vel yfir viðráðanleg mörk. Sjitt, ég fer bara í búðina og kíki á eftir á innistæðuna. Maður verður nú a.m.k. að geta skeint sig.

Og by the way, vill einhver taka af mér kortið næst þegar ég veifa því yfir barborðið og heimta að fá að splæsa tekíla á línuna? Óþolandi helvítis helvíti.

9.1.06

Fyrsti skóladagurinn byrjaði ekki gæfulega. Mætti klukkan átta í morgun og nokkrum mínútum síðar var ég steinsofandi. Ég er samt búin að þróa handlegginn á mér í það að láta eins og hann sé að glósa, virkar fínt, annað slagið hrekkur hann í gang og krafsar eitthvað rugl í stílabókina... hroooootur. Ég endaði nú bara á því að drulla mér heim, get alveg eins sofið þar. Missti svo af seinni tímanum því ég þurfti að bruna til Keflavíkur. Það var fínt að hafa afsökun til að þurfa ekki að mæta. Ég nenni þessu ekki.

Svo finnst mér þetta fyndið.

Las viðtal í Mogganum áðan við eitthvað alíslenskt skoffín sem talaði íslenskuna sína með spænskum hreim eftir að hafa búið á Spáni í alveg heil sjö ár. Nei ekki þrjátíu og sjö ár, sjö ár! Allt er nú til. Maður má víst þakka fyrir að tala ennþá móðurmálið sitt skammlaust eftir alla þessa dvöl erlendis. Er fólk hálfvitar?

5.1.06

Nei nei nei. Skólinn byrjar á mánudaginn... gjörsamlega óþolandi. Ég nennekki nennekki nennekki. Nú þarf ég semsagt að drullast til að kaupa bækur, læra, skrifa tvær BA ritgerðir (og ákveða efnið fyrir aðra þeirra í ofanálag), ákveða hvar ég ætla að sækja um skóla á næsta ári og ganga frá því. Aaaaaarg. Ég er alveg að komast á þá skoðun að leggja árar í bát. Ætli maður fái námslán ef maður fótbrýtur sig og liggur í rúminu alla önnina?

2.1.06

Gleðilegt nýtt ár allir saman!

Gamlárskvöld var gríðarlega skemmtilegt, ég er rétt að skríða saman. Setti inn myndir en því miður vantar marga því um miðbik teitinnar steingleymdi ég að ljósmynda og var upptekin við það að syngja íslensk þjóðlög í eldhúsinu. Þannig að þið sem komuð seint eða lentuð ekki á mynd, sendið mér hausinn á ykkur og ég fótósjoppa ykkur bara inn á. Annars bara takk allir, þetta var óhemju skemmtilegt!