Harmsögur ævi minnar

29.4.07

Geggjað... ég var að panta flug fyrir mig, Glókoll og Gimma til Sardiníu. Nú þarf að fara að svelta utan af sér síðukeppina og panta tíma í brasilískt.

Það er nú ekki bara neikvætt að vera veikur, neibb, ég er til dæmis búin að búa til nýja og svalari mæspeis síðu og í gær fékk ég mér ís í kvöldmat.

Svo fékk ég happdrættismiða með lífrænu jógúrtunni minni, ég get svei mér þá unnið miða á Glastonbury. Þá get ég hangið skökk með hinum hippunum og borðað alla þá lífrænu jógúrt sem mig lystir. Ekki amalegt það. Ætli Peter, Paul & Mary verði að spila?

Svo vantar mig einhver ráð til að auka einbeitinguna hjá mér. Mér er lífsins ómögulegt að hugsa um einn hlut í meira en fimm mínútur í einu. Ég held að heilinn á mér sé í endalausum Tarzan-leik. Út um allt og upp og niður og stundum í köðlunum.

27.4.07

Ég vil benda á að Geimveran Tjess er að leita sér að huggulegri gimbur með vinskap í huga og jafnvel eitthvað meira er fram líða stundir. Öllum bréfum svarað.

Ég ligg lasin uppi í rúmi og læt mig dreyma um sumarið, fólkið mitt, grillveislur og gleði. Og það að ég sé búin að skrifa mastersritgerðina mína. En það geri ég nú varla í dag, sei sei nei.

24.4.07

Ég er byrjuð í ægilegri hollustu og dítoxi eftir páskana. Nema hvað að ég er búin að vera meira og minna rúmliggjandi af sykurskorti og hef engu komið í verk. Núna er ég búin að bæta smá óhollustu í hollustuna, bara svo ég lendi ekki á spítala. Helvítis sykur.

Svo var ég að spá í að skreppa til Sardiníu í byrjun júlí... ódýrt flug ef maður pantar snemma og hræódýr gisting á Cagliarískum stúdentagörðum. Er einhver geim?

22.4.07

Ég hef ákveðið að virkja listræna hlið mína. Byrja á þessu.
(Hver er annars fleirtalan af nafnorðinu óður? Æðir? Óðar? Bölvuð málfræðin... hífði mig upp í hæstu hæðir og verður mér núna að falli, helvízk)


Óður til Glókolls frænda:

Ó eitt stykki Glókollur
Er hverjum manni hollur
Bezta skinn
Hann Glókollur minn
Og svo er hann uppfullur af hvers kyns gagnlegri lífsspeki
Eins og til dæmis:
"Lífið er of stutt til að ganga í ljótum fötum"
Og
"Enginn anall, ekkert samband"
Glókollur, ég sakna þín

Lífið gengur sinn vanagang hérna. Við erum reyndar að leita að nýjum meðleigjanda, og ég þurfti að sýna einhverjum dúdda lausa herbergið á föstudagskvöldið. Hann kom rétt fyrir miðnætti eins og sækó og ég var með símann tilbúinn ef hann skyldi vera geðsjúkur morðingi. Það var nú ekki svo, en hólí mólí, gaurinn skildi varla stakt orð í ensku. Ég tuggði ofan í hann í sífellu að hann þyrfti að hitta hin tvö sem byggju hérna áður en nokkuð yrði ákveðið, og að herbergið væri ekki laust fyrr en í byrjun maí. "Yes yes yes" sagði minn maður. Í gær hringdi hann svo bjöllunni um hádegisbilið og sagðist vilja flytja inn seinni partinn. Eh? Þú ekki skilja kannski? Ég ansa ekki ef hann kemur aftur.

19.4.07

Jæja farin til Englands aftur. Takk fyrir samveruna gullin mín... sjáumst í sumar.

Tútílú.

17.4.07

Áts... laug að leiðbeinandanum mínum að ég væri búin með kafla í ritgerðinni sem ég er ekki einu sinni byrjuð á. Hvað í fokkinu er að mér? Og ég þarf að hitta hann eftir helgi. Hélt ég kannski að ég kæmist upp með þetta? Augnabliksgeðveiki bara. Ég hefði náttúrulega bara ekkert átt að svara tölvupóstinum en ég gerði það um jólin og dúd var ekki sáttur. Nú er ég alveg að fá magasár. Og hvað gerir maður þá? Jú, lærir. Gerði ég það í kvöld? Aldeilis ekki. Mastersnám smastersnám... glötuð hugmynd alveg, glööötuð.

Og svo samtal sem ég átti við ástmann minn í kvöld:
D: "Af hverju ertu skotinn í mér?"
R: "Baaara"
D: "Neeei segðu eitthvað"
R: "Can't talk. Eating"
D: "Díses"
R: "Ok, stór brjóst"

Ask a silly question...

16.4.07

Það eru nú meiri ógeðishljóðin í þessu liði hérna uppi á bókhlöðu. Smjatt, brjóstsykursbryðj, ræskingar, pokaskrjáf og ég veit ekki hvað og hvað. Það er engin leið að einbeita sér hérna.

Ái ég fór á svo skemmtilegt djamm á laugardaginn. Ég er reyndar með skaddað hné eftir að ég og Krilla dönsuðum frá okkur allt vit, en það verður að hafa það. Svona fer fyrir fólki sem tjúttar óhóflega á gamals aldri. Ætli ég fái ekki í mjöðmina næst?

Annars er ég á leiðinni upp á bókhlöðu. Búin að vera á leiðinni í tvo tíma. Og svo fer ég út aftur á fimmtudaginn... ótrúlegt hvað tíminn líður hratt.

13.4.07

Ég get auðveldlega legið hreyfingar- og meðvitundarlaus heilu dagana og aðeins reist höfuð frá rekkju endrum og eins til að kveikja mér í sígarettu. Þegar ég er nýbúin að setja á mig naglalakk er mér hins vegar ómögulegt að gera ekki neitt. Núna er ég búin að klæða mig í ullarsokka, kroppa lok af vaselíndollu, vaska upp og blogga. Og naglalakkið alveg í köku maður.

Og mig langar sjúklega út að borða í kvöld. Mig langar í tapas. Mig langar ekki í meiri barnamat. Niður með börn og allt sem þeim fylgir!

12.4.07

Maginn á mér er ennþá í rusli og ég er alveg búin að fatta hvað er að. Hann er augljóslega að hefna sín á áratugalangri misnotkun af minni hálfu. Ég hef verið ansi dugleg við að henda í hann ruslfæði, sykri, áfengi, rotvarnarefnum, fitu og alls kyns viðbjóði og nú hefur hann bara fengið nóg og neitar að standa í þessu lengur. Nú nærist ég nánast eingöngu á eplasafa blönduðum soðnu vatni og Gerber ávaxtamauki úr krukkum. Grábölvað alveg... mig dauðlangar í Vitaborgara en fæ brjóstsviða bara við tilhugsunina.

11.4.07

Er ennþá hálf slöpp en það er bara kúl. Þarf að taka upp fólk í dag fyrir bestu mastersritgerð allra tíma (ahemm...). Og svona til að nota tækifærið: Þúsund þakkir þið sem nennið að láta mig taka ykkur upp - þið eruð bezt!

Já og svo gleymdi ég að segja frá því að ég var beðin um skilríki á Sjallanum á föstudaginn. Það var 18 ára aldurstakmark. Ég var svo hissa að ég horfði á dyravörðinn (sem á þeim tímapunkti voru tveir nákvæmlega eins dyraverðir) í svona 5 mínútur áður en ég tók upp ökuskírteinið mitt - alveg eins og algjör sauður á meðan R pissaði í buxurnar af hlátri. Hver segir svo að reykingar stuðli að öldrun húðarinnar? Piff, lygamerkingar segi ég bara. Ætli ég liti ekki bara út eins og fóstur ef ég reykti ekki? Tjah, maður spyr sig...

10.4.07

Það var algjört æði á Akureyri. Ég er reyndar hálf slöpp núna og er handviss um það að ég sé komin með blóðeitrun af ofáti. Verkjatafla og blundur, það verður að duga... ég þarf nefnilega að læra í kvöld (hvað sem öllum veikindum líður).

Þegar við skötuhjúin komum heim á sunnudagskvöldið ætluðum við að horfa á The Number 23, sem R hafði hlaðið niður yfir helgina. Það héldum við að væri spennumynd með Jim Carrey. Þessi tiltekna útgáfa innihélt þó engan Jim Carrey, en hins vegar fullt af japönskum skólastelpum að ganga örna sinna hver á aðra. Við horfðum bara á eitthvað annað í staðinn.


5.4.07

Farin til Akureyrar. Góða helgi öllsömul!

4.4.07

Ég dró R með mér í verzlunarleiðangur í gær. Þetta var afskaplega útpælt því hann var algerlega ósofinn eftir vinnu um nóttina, og vissi ég að mótspyrna og skynsemi yrði í algjöru lágmarki. Við keyptum fullt af drasli, mest á hann þó, en það er í góðu lagi. Alltaf gaman að kaupa, sama hvað það er. Og hann er sko mjög sætur í nýju fötunum sínum.

Ég hef náttúrulega ekkert efni á neinu en það er alveg sama. Ég segi bara eins og Lilja Pálma sagði við Jón Ársæl í sjónvarpsviðtali hérna um árið: "Peningar hafa bara aldrei verið neitt issue fyrir mig". Sennilega eru peningar ekkert issue fyrir Lilju af því hún á nóg af þeim. Peningar eru hins vegar ekkert issue fyrir mig af því ég hef aldrei átt mikið af þeim. Kannski af því að ég er ekkert sérstaklega að spá í hvað ég eyði. En ég hef bara aldrei nennt að horfa í hverja einustu krónu. Maður tekur þá bara pasta-með-smjöri tímabil í smá tíma, það er ekkert mál. En mér finnst alltof gaman að kaupa hluti sem mig langar í og geri oft (innan vissra marka þó!). Reynslan hefur kennt mér að þetta reddast alltaf. Og ég nenni ekki að væla yfir peningaleysi þegar það er til fullt af fólki sem hefur það miklu miklu verra heldur en ég.

3.4.07

Stal þessu frá Tinnu sinni DK:
Your Personality Is Like Ecstasy

You're usually feeling the love for the world around you - you want to hug everyone.
And while you're usually content to sit back and view the world with wonder...
Sometimes you're world becomes very overwhelming and a little scary.

Allir að prófa.

Hvenær varð klukkan svona margt? Er að reyna að læra, get ekki sofnað og verð auk þess að vakna fyrir allar aldir til að hleypa kærastanum inn þegar hann lýkur vinnu við sólarupprás. Við erum nefnilega bara með eitt sett af lyklum. Ég var því að spá í að hanga bara og horfa á ókeypis stöð 2 fyrst það er í boði. Svo er ég líka ægilega spennt af því ég er að fara í klippingu á morgun. Ég er að spá í sítt að framan.

Ég horfði annars á (milli þess sem ég dottaði) á 300 í morgun. Mér finnst að allir karlmenn ættu alltaf að vera bara í nærbuxum. R var ægilega hneykslaður yfir áhuga mínum á öllum þessum skrokkum og spurði hvort ég vildi að hann væri með svona magnaða magavöðva. "Ööö já!" svaraði ég, og þá varð hann voða særður. En svona er lífið bara. Ég get alveg lofað ykkur því að ef hann gæti látið stækka á mér brjóstin þangað til ég þyrfti sérstakan hjólastól til að komast á milli staða, þá myndi hann gera það.

Ég sagði honum einmitt frá því einhvern tímann að konur færu í brjóstaminnkun. Fyrst horfði hann á mig skilningssljóum augum þar til ég útskýrði betur. Á endanum skildi hann hvað ég var að tala um, en gat þó ómögulega trúað því að nokkur kona myndi sjálfviljug fara í slíka hörmungaraðgerð.

Sjálf væri ég alveg til í að vera með minni brjóst. Spurning um að skella sér bara í aðgerð... hann getur þá fengið innvolsið og látið búa til sixpack á sig.

2.4.07

Ég er komin með velmegunarveiki. Er semsagt að drepast í maganum. R dró mig út að skoða Barbapapadót og fara á kaffihús sem kætti mig aðeins eins og venjulega. Kannski er ég bara að fá magasár yfir ritgerðinni. Og halló Hafnarfjörður hvað ég nenni ekki að byrja.

Er annars að fara til Akureyrar um helgina. Það verður örugglega fínt. Eins gott að ég fái ekki drullu á leiðinni eins og síðast.

Þá er helgin liðin. Stórskemmtilegt djamm á föstudaginn og restin fór í heimsóknir og matarboð hér og þar. Nú sit ég með tengdamóður minni og horfi á sjónvarpið með risastórt pokabland fyrir framan mig. Ég og kærastið erum nokkuð skæð þegar kemur að óhollustuáti. Þó hefur hann það fram yfir mig að vinna erfiðisvinnu sem bræðir aukasykurinn af honum. Ég bý ekki við slíkan lúxus og horfi því á vömbina stækka dag frá degi. En það er í góðu lagi, það geta nú ekki allir verið mjóir. Svo á ég líka eftir að fá krónískan niðurgang af stressi þegar ég reyni að skrifa þessa ritgerð þannig að það fara pottþétt fimm kíló þar. Ekkert mál.