Harmsögur ævi minnar

31.1.07

Úff hvað sumir dagar eru glataðri en aðrir. Dagurinn í dag var alveg hörmulegur og fullur af heimþrá og ég-get-ekki og ég-vil-ekki. Það var meira að segja ogguponsu hluti af mér sem hugsaði að það væri ekkert svo slæmt ef ég myndi falla í ritgerðunum. Þá þyrfti ég ekki að pæla í þessu meir og gæti bara farið heim. Alveg glatað.

Ég prófaði pilates í kvöld til að reyna að ná jafnvægi en tókst svo sannarlega ekki að "connect to my inner core", eins og virtist vera takmarkið. Og það með Nóru Jones á fóninum, sem var nú reyndar afskaplega ljúft. Aðrir tengdust alveg hægri vinstri en ég, neibb. Varð bara pirraðri með hverri teygjunni. Kannski ég prófi frekar jóga á morgun.

Mig langar mest núna að vera heima í skítaveðri og kúra með ástmanninum og hafa ekki áhyggjur af neinu. Þannig var nú það.

(Og ég frábið mér öll "hættu þessu væli" komment)

Aaaaaaarrrrrgggggg %&%#$%(/&&#%$"#%&&&#!!!!

30.1.07

Ég fór í ræktina áðan. Ég ætlaði nú bara reyndar að rolast einhvers staðar úti í horni á hlaupabretti en það var ekki hægt. Ég þurfti að búa til eitthvað megaprógram með ótrúlega hressum fitness-gaur. Hann var sko næstum því jafnhress og Magnús Scheving. Hann kenndi mér fullt af rosalegum æfingum með risastórum gúmmíbolta og sagði mér nákvæmlega hvað ég ætti að gera og hversu oft. Alveg súper. Ég gerði þetta samt ekkert allt, prófaði bara hitt og þetta (og leit út eins og algjör bjáni á meðan), fór svo heim og át næstum heilan lítra af ís. Prótín sko, prótín.

Ég fékk líka þennan fína bakpoka með svona líkamsræktarfylgihlutum í; vatnsbrúsa og handklæði og svoleiðis. Ekki það að ég hafi nokkuð svitnað. Og takmarkað notagildi því ég læt ekki sjá mig á meðal eðlilegs fólks með bakpoka sem er merktur LA FITNESS í bak og fyrir. En það er svosem fínt að fá sér pakpoka í ræktina því að þá þarf ég ekki að tæma skólabakpokann í hvert skipti.

Svo er snyrtistofa þarna líka og ég er alvarlega að spá í að fara í brasilískt vax. Þó ekki væri nema bara til þess að komast að því hvort það er ekki ótrúlega fáránlegt að vera bara á pjöllunni fyrir framan einhverja konu. Sem þar að auki er eitthvað að mixa þarna niðri. Og þó, það er nú ekkert tiltökumál að fara til kvensjúkdómalæknis. Verð að komast að þessu. Þetta er samt örugglega vibbavont.

29.1.07

Kim Deal er svo sexý að það nær bara ekki nokkurri átt.

Jæja, keypti mér kort í ræktina. Það er a.m.k. einn af sex. Er að spá í að skera af mér handlegg og sjá hvort þá fari sjö kíló. Þá væri ég nefnilega komin í tvo af sex sem væri frábær árangur.

28.1.07

Aaaarg! Á morgun ætla ég að:
  • Hætta að reykja
  • Missa 7 kíló. Eða a.m.k. byrja í ræktinni
  • Byrja að læra á fullu, það fer þá bara til spillis ef ég fell
  • Hætta að borða svona mikinn sykur (gott, þá get ég étið allan ísinn minn og kexið í kvöld)
  • Hætta að hanga á netinu eins og vanviti, skoðandi drasl sem gagnast mér ekki neitt í lífinu
  • Hætta að setja mér markmið sem ég stend aldrei við

Svo var ég að átta mig á því að það eru 9 dagar síðan ég bragðaði síðast áfengi. Held að ég hafi ekki tekið svona langa pásu síðan í ágúst. Samt er ég ekkert með minni bjórvömb. Prump.

Ég keypti mér vörtudrepandi smyrsl í Boots í gær. Ég er nefnilega búin að vera með vörtu milli tveggja öftustu tánna á vinstri fæti í lengri lengri tíma. Já ég veit, ojjjj. Ég hefði líka alveg látið hana vera (aftur oj) ef hún hefði ekki verið farin að valda mér miklum óþægindum. Síðustu daga hef ég varla getað stigið í fótinn og hugðist því gera eitthvað í málunum.

Nú jæja, ekkert meira með það, ég keypti semsagt eitthvað eitur sem á að leysa upp vörtur, líkþorn og annan viðbjóð. Komst svo að því þegar heim var komið að það er fáááránlega erfitt að ætla að bera eitthvað varlega og vandlega á fyrirbæri sem er milli tánna á manni. Eitrið má nefnilega helst ekki fara á heilbrigða húð þar sem það er... tjah jú eitur. Ég sver það að ég var komin í þvílíkar stellingar við að koma þessu helvíti á mig. Öll snúin og krumpuð. Ég endaði svo nokkurn veginn eins og beinlausi frændinn í Cow & Chicken, en þó með vörtueitur á milli tánna, á ca. réttum stöðum. Ég er ekki að meika tilhugsunina um að þurfa að bera þetta á mig daglega í einhverjar vikur!

Ég gæti sjálfsagt beðið meðleigjendur mína um aðstoð en þetta er svona hálf neyðarlegt vandamál. Næstum því eins og að biðja einhvern um að bera á sig gyllinæðarkrem. Vandlifað í þessum helvítis heimi alltaf hreint.

Kveðja, Cousin Boneless

27.1.07

Það hefur einhver þrengt gallabuxurnar mínar meðan ég svaf! Þvílík ósvífni... ég segi nú ekki annað.

26.1.07

Djöfull var hrikalega gaman á Burns-suppernum í gær. Frábær matur og félagsskapur og svo bara Ceilidh og brjáluð stemmning á eftir. Ég hef ekki dansað svona mikið síðan á jólaballi Lyonsklúbbsins 1982. Ég held það sé alveg málið að finna sér skoskan kærasta.

(Það skal tekið fram að þetta erum ekki við dansherrann minn, en við vorum að minnsta kosti jafnfim!)

24.1.07

Ég fór til hjólamanns og hann fiktaði eitthvað í hinu þessu og sagði að ravisonið væri í bundercup og að ég þyrfti nýtt travis og eitthvað fleira. Ég náttúrulega bara "jááá einmitt eins og ég hélt", skildi hjólið eftir í nokkra klukkutíma og fékk það aftur í góðu standi. En er 40 pundum fátækari.

Og hver haldiði að sé að koma að heimsækja mig á föstudaginn? Enginn annar en Subbi sjálfur! (Sjá færslur frá Sardiníu 2004-05 minnir mig) Ég var svo steinhissa að ég kom ekki upp orði. Ætli hann sé búinn að gleyma að við vorum óvinir? Þetta þykir mér stórmerkilegur andskoti. Og hvað í fokkinu á ég að fara að hanga með honum í heilan dag? Og hann þurfti náttúrulega akkúrat að koma þegar ég er í brennivínsbindindi. Það væri þá huggun harmi gegn ef maður gæti hellt sig blindfullan. Ætli það sé hægt að hanga í bíó í heilan dag?

Og djöfull er Sowing the seeds of love magnað lag. Alveg magnað maður.

Úúú gleymdi... það var snjór úti þegar ég vaknaði í morgun. Harla óvenjulegt. Og slæm tímasetning því keðjan var alltaf að detta af hjólinu mínu og ég mætti í skólann eins og smurstofukall sem hefur ekki farið í sturtu í mánuð og snjóuð í ofanálag. Helvítis hjól, djöfull ætla ég að sparka í það á eftir. Eða athuga hvort eitthvað hjólafólk getur lagað það.

Nú styttist óðum í fyrirlestratíð mikla hjá mér, þ.e.a.s. fyrirlestrar sem ég þarf að halda, ekki hlusta á. Hefur klósettferðum hjá mér fjölgað mikið með þessari uppgötvun. Ég hata að halda fyrirlestra. Eða ég held það a.m.k., ég geri það svosem aldrei. Ég bara skil ekki af hverju það þarf að pína mann til að tala fyrir framan fólk. Sérstaklega fólk eins og mig sem hefur engan áhuga á akademískum ferli. Núna fer ég alveg að snappa.

Æi, ætti að vera að lesa eða gera eitthvað uppbyggilegt en ég er svo södd að ég get varla haldið augunum opnum. Þetta er auðvitað college-inu mínu að kenna með því að bjóða alltaf upp á ógeðslega góða eftirrétti í hádeginu og hefur ekkert með græðgina í mér að gera. Mmmmm epla- og kirsuberja strudel með búðingi mmmmm...

23.1.07

Ég er búin að komast að því að ég get ekki borðað tilbúnar indverskar krukkusósur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Það er bara eitthvað í þessu drasli sem fær mig til að kúgast. Hvur andskotinn það ætti að vera veit ég ekki. Sjálfsagt þriðja kryddið eða eitthvað krapp. Þá vitiði það.

18.1.07

Ho ho ho, er á bókasafninu og skemmti mér konunglega. Kosturinn við að vera í háskóla með háa standarda er að hér er fólk alltaf að fríka út og kikna undan álaginu. Á þetta einna helst við lilla í grunnnámi, en ekki letingja í masters- eða doktorsnámi.

Bara í dag er ég búin að heyra stelpu blóta tölvu svo illilega að bæði Denis Leary og Billy Connolly hefðu farið að grenja, og svo fór önnur stelpa að hágráta í afgreiðslunni því hún mátti ekki taka einhverja bók út (var með sekt sko). Hún henti sér meira að segja í gólfið til áhersluauka og barði með krepptum hnefunum í gólfflísarnar. Tiny fists of intern fury, man einhver eftir því? Og klukkan rétt tvö! Ég bíð spennt eftir fleiri skemmtiatriðum.

(Og já já já, ég veit að mér hefnist fyrir þessa illsku þegar ég fell...)

Jæja, þá er kennsla byrjuð aftur... eftir alltof stutta pásu verð ég að segja. Ég er nú reyndar svo mikill svartsýnispúki að ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að læra of mikið. Þannig að ef ske kynni að ég myndi falla í ritgerðunum og fengi ekki að halda áfram þá væri ég a.m.k. ekki að sóa tíma í að læra. En bezt að hrista þessar leiðindahugsanir af sér.

Fórum á pöbbinn í gær, aldrei þessu vant. Drakk heila hvítvínsflösku og hjólaði svo heim og lærði fyrir daginn í dag. Fékk svo myrkfælniskast þegar ég ætlaði að fara að sofa og sá púka og skuggaverur út um allt. Fyrst hélt ég að ég væri að fá LSD flassbakk frá því ég var hippi, en fattaði svo að ég var ekki fædd á hippatímabilinu, og hef því síður verið mikið í sýrudroppi. Þannig að annaðhvort er reimt í húsinu mínu eða þá að ég er (eins og fyrrverandi bendir statt og stöðugt á) snargeðveik.

Svo er bara kreisí að gera framundan. Burns supper og alls konar formlegir kvöldverðir hjá ýmsum college-um... bezt að fara að strauja kuflinn. Og ég fæ hvorki meira né minna en þrjár heimsóknir í febrúar. Ég á aðeins eftir að plana hvar ég og gestirnir komumst fyrir í litla rúminu mínu. Það hlýtur að reddast. Annars verður bara ættarmót. Ekki amalegt það.

16.1.07

Ég er búin að vera í sérlega menguðu og andstyggilegu skapi í kvöld. Ég er viss um að ef ég ætti hund eða barn myndi ég sparka í það/hann.

Ég er að drepast úr hausverk (kenni annaðhvort lægð yfir Bretlandseyjum eða sykurfráhvörfum um það), orðin kengbogin af vöðvabólgu og skólinn að byrja á morgun ofan á allt saman. Svo svarar LÍN mér ekki frekar en venjulega. Og maður hefur hvorki kærasta né foreldra til að röfla í þegar maður er í útlöndum. Fussumsvei.

Söngleikjafanið sem býr með mér er að æfa sig. Ég pissaði næstum því í buxurnar af hlátri. Og komm onn, piparmyntusturtugel og söngleikir? Sumt fólk er svo óheppið með áhugamál að það hálfa væri nóg. Og hann er samt skemmtilegastur og almennilegastur af fólkinu sem ég bý með.

14.1.07

Jæja þetta hafðist. Þ.e.a.s. það hafðist að skila á réttum tíma, og get ég stolt sagt frá því að ég var síðust allra, kl. 11:56 (fyrir utan eina úllastelpu sem ætlar að skila einni ritgerðinni á mánudag). Hvað kemur svo út úr þessu rusli er annað mál, og alveg óvíst að það verði bara góðar fréttir. Eeeen það þýðir víst lítið að velta sér uppúr því, ég vona bara að þetta náist.

Nú ég fór á pöbbinn á föstudag, eftir skil með samnemendum mínum. Þar náði ég að hanga til u.þ.b. 17, en þá var mér líka allri lokið, hjólaði heim og er nánast búin að vera sofandi síðan. Það er búið að vera ágætt alveg. Geeeeisp.

12.1.07

Skoh, þetta er bara alveg að koma. Og heilir sjö tímar eftir í deadline... ætli maður skelli sér ekki bara í bíó eða eitthvað.

11.1.07

Nú sit ég bara við skrifborðið mitt og klóra mér í hausnum með nöguðum nöglunum. Ég hef nefnilega ekki hugmynd um af hverju /ll/ er stundum borið fram /tl/ í íslensku, og af hverju samsetningin /t/ + /l/ afraddar /l/ miklu meira heldur en hin lokhljóðin. Og af hverju /ll/ sem breytist í /tl/ er ekki aðblásið, fyrst að reglan segir að aðblástur eigi sér stað fyrir framan /t, k, p/ + /l, m, n/. Ég er ekkert einu sinni viss um hvernig hægt er að útskýra aðblástur og af hverju hann stafar. Díses, ég veit bara ekki neitt! Þar af leiðandi er ég alveg stopp í síðustu ritgerðinni minni. En maður hefur nú svosem tekið all-nightera áður.

10.1.07

Wordið mitt vill alltaf breyta preaspiration í perspiration, og deaspiration í desperation. Það þykir mér nú ekki vænlegt til árangurs.

Ég var í netsambandi áðan við samnemendur mína, það þurfti nefnilega að ákveða stað til að drekkja sorgum sínum á næstkomandi föstudag kl. 12:01. Flestir virðast vera með brækurnar á hælunum í sambandi við þessar ritgerðir... ljótt að segja það en: HAHAHAHAHA!!!
-
Áðan fann ég í ávaxtaskálinni minni minnsta vínber sem ég hef á ævinni séð. Það er miklu minna en krækiber. Þetta gladdi mig mjög mikið því ég er svo hrifin af hlutum sem eru minni en þeir eiga að vera. Tek kannski mynd við tækifæri.
-
Ég er að verða öryrki af skólagöngu. Mér er orðið svo illt í olnboganum (sennilega af því ég sef svo mikið með höndina undir hökunni á mér) að ég get ekki snert neitt án þess að emja af sársauka. Nú pikka ég bara með vinstri og læt hægri hendina standa beint upp í loftið. Það er smart.
-
Ég gæti drepið, DREPIÐ SEGI ÉG, manneskjuna sem býr með mér sem á sturtugel með piparmyntulykt. Djöfull hef ég oft verið nálægt því að æla þegar ég strunsa grunlaus inn á baðherbergi á morgnana og fæ þessa stybbu beint í andlitið. Hvers vegna kaupir fólk sér ekki bara sturtugel með kúkafýlu? Nú, eða kattahlandslykt? Andskotans óeðli bara. Mér er skapi næst að reykja inni í húsinu til að hefna mín. Enn sem stendur gengur sökudólgurinn huldu höfði, en ég mun komast að því hver ber ábyrgðina. Ég er líka orðin alveg ekta sækó núna, með risabauga, hárið út í loftið og Maltesers leifar í flíspeysunni. Alveg eins og svona klikkuð spæjarakona.

9.1.07

Það er nú ekkert betur til þess fallið að fylla mann áhyggjuleysi og taumlausri gleði heldur en Hárslagið Good Morning Starshine í flutningi Péturs, Páls og Maríu:
...Good morning starshine, you lead us alooong
my love and me as we siiiing
our early morning singing song
gliddy glub gloopy nibby nabby noopy la la la lo lo
sabba sibbi sabba nooby abanaba lee lee lo lo
tooby ooby wala nooby abanaba
early morning singing song

Kjánalegur texti? Jú jú, því verður svosem ekki neitað. Gleði? JAHÁ!

Tvær búnar, ein eftir og ég er vel byrg af sælgæti og Sainsbury's örbylgjumat. Reddast þetta ekki?

Ritgerð 2, eða "Hrákinn" eins og ég vil kalla hana er alveg að verða búin. Svo alveg að verða búin, en ég nenni bara ekki meira í bili og ætla að reyna að sofna yfir Arrested Development. Sykurmagnið í líkamanum á mér er þó væntanlega of mikið til að hvíld náist.

Svo er ég með svo stóra bauga undir augunum að það er eins og ég hafi verið barin í klessu. Það er magnað. Gló-magnað alveg.

Var að spá í það hvað ég verð fúl ef ég fokkíng klúðra þessu og fell. Djöfull væri það fáránlega hallærislegt, sérstaklega þar sem það væri engum nema sjálfri mér og letinni í mér að kenna. Ég er hálfviti.

7.1.07

Jæks, ein búin og tvær eftir. Ritgerðin sem er búin er ekki léleg, hún er æla og viðbjóður. Eitthvað gengur mér illa að byrja á næstu. Það er örugglega af því að það er svo mikil svitalykt af mér og mér er kalt á tánum og finn ekki ullarsokkana mína.

Og ef þú lest þetta, þú kvensnifti sem rukkaðir mig um yfirvigt á Keflavíkurflugvelli á leiðinni út: Ég er sko ekki búin að gleyma því. Þetta fer allt í svörtu bókina væna mín.

6.1.07

Eftir ömurlega, svefnlausa nótt þar sem ég nötraði og skalf eftir að hafa ælt tvisvar af stressi komst ég að þessari niðurstöðu: Ég ætla að reyna að skila einhverju á réttum tíma. Ef ritgerðirnar verða glataðar þá fell ég bara. Það getur ekki verið mikill áhugi fyrir hendi hjá mér fyrst ég geri ekki meira en þetta. Og þá er sko aldrei, aldrei, ALDREI AFTUR FOKKING SKÓLI!!!

5.1.07

Jæja lömbin mín, gleðilegt ár!

Komin út aftur og í fýlu mikilli þar sem ég á eftir að læra svo mikið. Ég keypti áðan nóg af kaffi og súkkulaði til að halda mér vakandi í u.þ.b. viku. Vonandi dugar það. Fokketífokk.