Ef ég hitti einhvern tímann verkfræðinginn hjá Kellogg's sem fann upp þessa snilldar K-block læsingu á kornflexpökkunum, ætla ég að sparka í punginn á honum. Ég er nógu fúl á morgnana þó ég þurfi ekki að leysa einhverjar eðlisfræðiþrautir í ofanálag. Og svo er ekki einu sinni munur á bragðinu, stökkara my ass... hnuff.
30.11.04
29.11.04
Ég er að læra skemmtilegt:
"Now it is obvious what the agreement pattern is: NP (N-max) and VP (V-max) daughters of S must have the same Agreement information associated with them. Notice that is doesn't matter how much other material is included inside the NP subject or how much other material intervenes between the NP subject and its sister VP: the rule for agreement simply refers to the NP and VP daughters of S: they must have the same agreement information on them."
Ég veit ekki með ykkur, en það eina sem ég fæ út úr þessu er að konur pissa með rassinum.
27.11.04
Er maður ekki orðinn gamall þegar mann langar að lesa bók sem heitir Kaktusblómið og nóttin; Um ævi og skáldskap Jóhanns Sigurjónssonar???
Annars ef einhver er að leita að jólagjöf handa mér þá langar mig í nýjasta Arnald.
Býst reyndar ekkert við því að fá gjafir... gef aldrei neinar og skulda öllum pening. En ég lofa að ég verð rosalega örlát þegar ég verð rík!
Ég er hálfviti. Át allt Pringölsið því ég nennti ekki inn í eldhús að kokka mér eitthvað. Þannig að ofan á allt annað er mér núna ógeðslega illt í maganum.
Já það er ekki tekið út með sældinni að vera með klamydíu í höfðinu skal ég segja ykkur!
Gekk ekkert hjá mér að vakna hress eftir hádegi í gær; ég lá bara í einhverju lyfjamóki yfir sjónvarpinu langt fram á kvöld. Ég held að það sé leitun að annarri eins lágkúru og fyrirfinnst í ítölsku sjónvarpi, alls staðar bíkíníklæddur ungpíur að dansa lélega dansa. Og svo sá ég þátt þar sem kærustupar var að rífast í fullum sjónvarpssal því hann vildi eignast börn en ekki hún. Og áhorfendur voru að koma með sitt álit og rífast með og svona. Frábært.
Ekki var þetta allt alslæmt því ég horfði líka á: Einn tveir og elda, Lögregluhundinn Rex (með gamla löggukallinum, þessum sæta), Murder She Wrote, Ally McBeal, CSI Miami (voðalega er kryfjukonan alltaf vel förðuð!!!), The Shield, Friends og svo e-a mynd með Clint Eastwood og Charlie Sheen sem ég sofnaði reyndar yfir. Já, gott fólk, aldeilis viðburðaríkur föstudagur hjá mér.
Þannig að nú er að harka af sér beinverkina og doðann og dúndra sér í lærdóm. Ég á sem betur fer kók, Pringles og ís þannig að þetta gæti gengið.
26.11.04
Lufsaðist loksins til læknis í morgun. Allar ennis- og kinnholur stíflaðar, ekki skrýtið að maður hafi ekki getað hugsað með heilann á sér fullan af hor. Fékk sýklalyf, og ekki bara eitthvað sýklalyf heldur þetta: "Lyfið er notað gegn sýkingum af völdum sýkla sem eru næmir fyrir lyfinu. Það er m.a. notað við sýkingum í öndunarfærum og kynfærum (Chlamydia)." Við Klamydíu for crying outloud!! Þetta er eins og að fá augndropa sem virka líka sem svitalyktareyðir. Jæja, ef maður skyldi vera með klamydíu þá a.m.k. verður séð um það. Better safe than sorry.
Svo fékk ég annað voða fansí lyf til að setja í aerosol. Svona tæki með gufu svo maður andar að sér lyfinu, æi þetta er e-ð voða mikið notað á Ítalíu...kannski meira fyrir smákrakka... aldrei séð þetta heima. En ég verð eins og nýsleginn túskildingur eftir þetta, ég finn það á mér. Nú ætla ég að leggja mig og vakna hress eftir hádegi og læra.
Heyrðu, og ég þurfti ekki að borga krónu. Hvorki hjá lækninum né í apótekinu. Það var fínt.
25.11.04
Aftur orðin ógeðslega kvefuð, ég veit ekki hvað er í gangi. Mér líður eins og hausinn á mér sé fullur af hor og alveg að fara að springa. Augun eru að poppa út úr holunum því það er ekkert pláss þarna inni lengur. Ég ætti kannski að drullast til læknis og fá pensillín en ég nenni því ekki. Gæti kannski þurft að taka nefkirtlana úr mér í þriðja skiptið? Það væri nú aldeilis spennandi. Sneaky bastards.
24.11.04
Rak augun í það á netinu í dag að síminn hjá HÍ er 525-4000. Það er nú bara þvílíkt fyndin tilviljun. Gamla númerið mitt þegar ég bjó uppi í Breiðholti til skamms tíma var nefnilega 587-7620.
22.11.04
Stríðið við Subba heldur áfram. Í dag sendi ég annan meðleigjanda inn til hans til að ná í sjónvarpið. Hann á nefnilega ekkert í því en hefur það inni hjá sér. Ég sagðist vilja horfa á Bráðavaktina í kvöld. Hinn meðleigjandinn kom svo með tækið inn í eldhús, kveikti á því... og viti menn - bara snjókorn! Ég vissi svosem alveg að það virkaði ekki rassgat inni í eldhúsi; hefur aldrei gert. En fyrr skal það fljúga fram af svölunum heldur en að snúa aftur inn í skítahauginn hjá Subba. Bara spurning um prinsipp. Hinn meðleigjandinn sagði þá: "Hafdís, þetta er nú soldið barnalegt af þér... líður þér eitthvað betur núna?". Ég skoðaði stöðuna í bak og fyrir og svaraði svo hátt og skýrt: "Já, mér líður mun betur!". Enda Subbi drullufúll.
20.11.04
Var ekki Subbi að koma sér all svakalega á svarta listann núna. Hann var eitthvað að bardúsa inni í eldhúsi þegar ég kom þar inn. Ég bað hann vinsamlegast að skilja ekki við eldhúsið aftur eins og hann gerði í dag (og alla daga). Hálffullur pastapottur á eldavélinni, vaskurinn fullur af leirtaui, það litla sem hann hafði vaskað upp ógeðslega illa gert; fitugt og kámugt.
Heyrðu, gæinn bara gjörsamlega snappaði. Sagði að við skildum oft eftir skítugt svo dögum skipti (what? WHAT did you say???), og að ég hefði sko ekki þrifið eldavélina í dag eftir mig (n.b. vegna þess að hann var að djúpsteikja elg eða einhvern andskotann). Ég lét hann bara blása og sagði svo bara jæja, fyrst þú ætlar að taka þessu svona, og fór út.
Það sem Subbi veit ekki að ég er örugglega langrækasta manneskja sem ég þekki og ég get hæglega verið í fýlu það sem eftir lifir af okkar sambúð. Hann á eftir að sjá eftir þessu.
Silent treatment lífs míns; here I come...
Matarboð gekk vel. Í sambandi við matinn... well, have had better, have had worse. Subbi var nú heldur ekkert að stressa sig á þrifunum og sat hinn rólegasti meðan við hin 3 vöskuðum upp, þurrkuðum og gengum frá. Kannski hélt hann að hann væri stikkfrí því hann eldaði. Ef það að sjóða pasta heitir að elda.
Undarlegt sem gerðist seinna. Subbi keyrði vinkonu sína heim sem býr langt í burtu (þetta var svona um 2-leytið). Ekkert meira með það, allir farnir heim og við að fara að sofa. Ég var búin að tannbursta mig og var bara að fara að leggjast til hvílu þegar ég heyri eitthvað í eldhúsinu. Situr ekki þá einn vinur Subba þar, reykjandi og drekkandi bjór. Þetta fannst mér undarlegt. Ég bauð honum bara góða nótt, fannst það reyndar hálf dónalegt að skilja hann svona einan eftir en... æi ég veit það ekki. Ég nenni ekki að hanga yfir e-u fólki langt fram eftir nótt á fimmtudegi, þegar ég er hálf lasin í ofanálag. Þannig að hann hékk bara í eldhúsinu, svo heyrði ég að hann fór í tölvuna inni hjá Subba. Subbi sjálfur kom ekki heim fyrr en klukkutíma seinna eða eitthvað.
18.11.04
Jæja, félaginn er byrjaður að elda. Holy mother of god. Þvílíkt kaos. Ég gat ekki kveikt á hellunni sem ég ætlaði að nota því eldavélakveikjarinn var af einhverjum ástæðum fullur af rjóma. Svo fór hann eitthvað að skipa mér að skera niður brauð og eitthvað en ég sagði að mig langaði ekki til þess og fór út úr eldhúsinu. Ég er sko engin helvítis þjónustustúlka.
Var að fá meil frá Icelandexpress... þeir ætla að senda mig til London 29. des en það er í góðu lagi því þeir pöntuðu fyrir mig herbergi á Radisson SAS. Room service here I come. Samt fúlt að vera einn, oh well, kannski er sjónvarp á herberginu.
Haldiði að meðleigjendurnir hafi ekki planað matarboð í kvöld. Sama er mér svosem... svo lengi sem ég þarf ekki að gera neitt. Boðs-sms-in voru reyndar snilld: "Þér er boðið í mat á morgun klukkan 9. Komdu með eitthvað að borða, drekka og stól".
Subbulegi meðleigjandinn ætlar að elda. Hann heldur að hann sé klár því pabbi hans á veitingastað. Sannleikurinn er sá að ég hef aldrei séð aðrar eins aðfarir í eldhúsi hvorki fyrr né síðar. Olíuslettur og matarleifar og skítug áhöld og bara allt út um allt. Vona að það verði ekki hár í matnum eins og einu sinni þegar hann eldaði fyrir okkur. Skítugt hár í ofanálag. Hann er samt fínn sko.
17.11.04
Vaknaði í morgun alveg útsofin og fín, og ekkert smá ánægð að vera farin á lappir snemma og getað byrjað að læra. Nei nei, þá var klukkan hálf eitt. Ég skildi ekkert í þessu, en komst svo að leyndardómnum. Það kom nefnilega viðgerðarmaður til mín í fyrradag og lagaði gluggaþekjuna (veit ekki hvað þetta heitir... svona eins og stór utanáliggjandi rúllugardína úr viðarlengjum (??)) þannig að nú lokar hún alveg fyrir gluggann hjá mér. Það var semsagt algjört kolniðamyrkur inni í herberginu mínu og ég búin að vera steinrotuð í 10 tíma. Ég þurfti að nota ljósið á gemsanum bara til að finna inniskóna mína. Dró frá og jú jú - þetta líka fína sólskin. Varð nú hálf fúl af þessu öllu saman, fór á klóið og mér til mikillar ánægju var tóm klósettrúlla á vaskinum. Opna ég þá ruslið til að henda henni og TA-TA; notaður túrtappi. Góð byrjun á degi.
Til allrar hamingju fann ég stórt Milka súkkulaðistykki með hnetum inni í skáp... ég hef greinilega ætlað að fela það frá sjálfri mér, en tókst ekki betur en þetta múhahaha. Það hvarf auðveldlega ofan í kokið á mér og ég er ekki frá því að ég sé í aðeins betra skapi núna.
Fór ekki í leikfimi.
16.11.04
Dauði og djöfull... varð það á að leggjast aðeins upp í rúm seinni partinn (íklædd náttbuxum, þykkum flísnáttkjól, náttskyrtu, ullarpeysu, trefli, húfu, ullarsokkum og dúnskóm). Þar vafði ég mig fyrst í ullarteppi og svo rúllaði ég mig inn í dúnsængina og aaaahh, mikið asskoti var það notalegt. Ég leið inn í draumalandið og vaknaði ekki fyrr en löngu löngu seinna, og náttúrulega búið að loka öllum apótekum. Ég er þess vegna japlandi á einhverju flensulyfi sem Morten skildi eftir hérna, bara til að lina þjáningarnar aðeins. Þetta gerir mann soldið sljóan samt; ég er alltaf að slá inn vitlausa stafi í tölvuna. Kannski á maður ekkert að vera að éta einhver lyf bara. Enda stendur utan á: "Lesið vel meðfylgjandi leiðarvísi". En hann er náttúrulega löngu týndur. Vona að ég óverdósi ekki.
Vona að ég komist samt í leikfimi á morgun. Ekki af því að mig langi til að fara... ég er bara búin að borga fyrir mánuðinn og finnst blóðugt að nota það ekki.
Djö... var að vakna. Andskotans. Gat ekki sofið í alla nótt fyrir þessum manndrápskulda og horsnýtingum og þar af leiðandi þegar klukkan hringdi klukkan 8:30 var ég gjörsamlega ósofin. Og ef þið ætlið að vera með eitthvað skítkast skulið þið átta ykkur á því að ef það eru 8°C úti þá eru líka 8°C inni. Og meira að segja aðeins minna í herberginu mínu því sólin nær ekki að skína þangað inn. Brrrr....
Ætla í apótek í dag að fá eitthvað massakvefmeðal. Ég er búin að vera með stíflað nef í mánuð.
15.11.04
Skrýtið hvað maður breytist með aldrinum. Ég er t.d. farin að taka upp á því svona í seinni tíð að láta óreiðu fara afskaplega mikið í taugarnar á mér. Ég get ekki sest niður og lært nema ég sé búin að búa um rúmið, ganga frá öllum þvotti og fela alla lausa hluti inni í skápum (Og my god... skáparnir hjá mér eru troðfullir af drasli en það er allt í lagi af því að það sést ekki...). Og motturnar á gólfinu verða að vera samsíða línunum á flísunum. Þetta er undarlegt í ljósi þess að ég var algjör draslari frá fæðingu og langt fram eftir aldri. Herbergið mitt var alltaf ógeðslegt þegar ég bjó hjá foreldrum mínum... fatahaugar og skólaglósur út um allt. Oj oj oj.
Ég veit svosem ekki hvort þetta er breyting til hins betra. En hvað sem því líður getur verið erfitt fyrir svona sækó að búa með öðru fólki. Ég skiiiil ekki meðleigjendur mína stundum.
Ég: "Heyrðu, þú misstir tissjú á gólfið"
M(eðleigjandi): "Já, ok."
Ég: "Ætlarðu þá ekki að taka það upp og henda því í ruslið?"
M: "Jú jú, geri það á eftir."
Ég: "Af hverju á eftir? Af hverju gerirðu það ekki bara núna?"
M: "Ég bara nenni því ekki núna."
Ég: "Nennirðu því ekki núna??! Þú þarft að teygja þig 20 sentimentra!"
M: "Já, ég geri það á eftir."
Ég: "AF HVERJU???????? DRULLASTU BARA TIL ÞESS AÐ HENDA ÞESSU Í RUSLIÐ NÚNA - ÞÁ ER ÞAÐ BÚIÐ OG GERT!!!!"
M: "Dísös, þú ert nú bara eitthvað biluð."
Þess má geta að þetta á líka við um uppvask, þrif, tæmingu á rusli, skiptingu á klósettrúllum og ýmislegt fleira. Og það má bæta því við líka að verkefnið sem átti að vinna "á eftir" er yfirleitt ennþá óklárað daginn eftir. Ég gæti öskrað. Það er kannski eins gott að það stefnir í það að ég eignist ekki börn. Veit svei mér þá ekki hvort ég hefði nokkra þolinmæði í það.
13.11.04
Fékk mér snilldarmorgunmat... stóran, sykraðan cappuccino, nutella-fyllt smjörhorn og djúpsteikta sykurhúðaða kleinubollu með vanillukremi. Og eitthvað fleira smádót. Ekki laust við að maður sé örlítið þungur á sér.
Hvernig er það annars... er allt dautt þarna úti? Hvar eruð þið?
12.11.04
Jæja, skilaði inn bölvaðri ritgerð, og það þremur tímum fyrir deadline! Ætlaði að læra meira en það er bara eitthvað svo tríst að læra á föstudagskvöldi. Svo ég sit með limoncello og sígarettupakka og vafra á netinu. Því ÞAÐ er alls ekkert sorglegt. Ætla reyndar að kíkja á púbbinn á eftir í eins og einn drykk. Ekkert meira því það er all svakalega farið að styttast í jólapróf.
Ta-ta.
Gleymdi að minnast á að ég er búin að setja inn fleiri myndir; linkur á spássíu hægra megin. Já svona finnur maður sér margt til dundurs þegar maður á að vera að skrifa ritgerð.
Talandi um að gefa vitlaus símanúmer... þegar mamma var hjá mér sátum við eitt kvöldið á útikaffihúsi rétt hjá þar sem ég á heima. Þegar nokkuð er liðið á kvöld setjast hjá okkur tveir ÓGEÐSLEGIR drengstaular. Annar með allar tennurnar brenndar, og bara einhver sviðin, grá grýlukerti hangandi fremst úr gómnum. Vinurinn litlu skárri, í hvítri dúnúlpu, hvítum buxum og hvítum skóm og með þvílíkan sauðarsvip á andlitinu. Við mamma ákváðum þá bara að drífa okkur heim þegar hvíti vinurinn biður mig um símanúmerið mitt.
Ég svara: "Nei, veistu ég er bara ekki með gemsa."
Vinur: "Jú víst, ég sá þig senda sms áðan."
Ég: "Nú já? Já það er íslenska kortið mitt og það á að loka því í vikunni þannig að það tekur því ekkert. Svo er ég að fara heim til Íslands líka."
Vinur: "Já á ég ekki þá að láta þig hafa mitt númer bara?"
Ég: "Nei. Til hvers?"
Vinur: "Þá getur þú hringt í mig þegar þú ert komin með númer."
Ég: "Nei."
(Vinir sýna EKKI á sér fararsnið)
Ég: "Heyrðu, ég læt þig bara hafa símann hjá mömmu, þá geturðu hringt í hana og fengið númerið mitt."
(Ætlaði að gefa upp vitlaust númer en hálfviti ekki jafn vitlaus og hann lítur út fyrir að vera)
Vinur: "Ok, það semsagt hringir síminn hjá mömmu þinni ef ég prófa númerið strax?"
Ég: (DÓH) "Já auðvitað."
DRING DRING
Það er svo skemmst frá því að segja að tannlaus og bjáni eru búnir að pesta móður mína með sífelldum hringingum. Ég er búin að segja henni að svara bara; þá eyða þeir fullt af peningum, en það virðist ekki hafa nein áhrif. Vona að ég rekist ALDREI á þessa gaura aftur.
11.11.04
Gleymdi að segja frá ansi skemmtilegum laugardegi sem ég átti í síðustu viku. Fyrst fór ég í ólífutínslu og um kvöldið í tekílapartý. Í partýinu var mestmegnis spiluð einhver ógeðsleg salsatónlist. Ég spurði þess vegna e-n gaur sem lét sig tónlistina varða hvort ekki væri hægt að hlusta á skemmtilega rokkmúsík í staðinn. Hann hélt nú það... kom til mín skömmu síðar bara þvílíkt brosandi og spurði hvort mér þætti þetta ekki skemmtilegt. Þá var dynjandi Bon Jovi kominn í tækið. IT'S MYYYY LIIIIFE - IT'S NOW OR NEVER.... og svo framvegis. Hann var svo ánægður greyið að ég sagði að þetta væri bara alveg stórfínt. Héldum samt áfram að gramsa í tónlistinni fram eftir kvöldi en eitthvað var nú fátt um fína drætti þar á þessu heimili.
Note to self: vasadiskó í partý þar sem hugsanlega má eiga von á salsatónlist.
10.11.04
Frábært, var búin að panta flug ótrúlega tímanlega til Íslands, svona til að vera örugg með jólaprófin. Semsagt, heim 7. des og út aftur 30. des. Fékk svo tölvupóst frá Icelandexpress í morgun þar sem þeir segja mér að það sé búið að breyta áætluninni og búið að fella flugið mitt niður... ekki bara annað heldur bæði! Mér er að vísu boðið upp á að breyta því, mér að kostnaðarlausu (vá!), en sit uppi með fram og til baka flug Sardinía-London sem passaði við hitt flugið. Hvað í andskotanum á ég að gera? Ég er bara hundfúl.
9.11.04
8.11.04
Internetið er búið að vera bilað í marga daga. Loksins í morgun kom einhver durgur frá Telecom Italia og lagaði allt saman. Þetta gerist alltaf þegar ég þarf að skila heimaverkefni eða ritgerð í skólanum. Skilaði í morgun 10:13 og deadline-ið var 10:15. Vona að úr kennarans sé ekki of fljótt.
Líkamsræktarátakið mitt gengur svona líka þrusuvel. Ætlaði að léttast um 3 kíló á mánuði og vigtaði mig um helgina (ég var svo heppilega gestkomandi í húsi með vigt á baðherberginu). Og viti menn... hafði ég ekki bara misst heil 400 grömm!! Ég ætti að gefa út bók með kúrnum; hún myndi rokseljast. Ætla samt að reyna að trappa mig aðeins niður í ísnum... hvað ætli gerist þá? Ég hlýt hreinlega að hverfa.
3.11.04
Til að hressa og kæta mannskapinn hef ég sett inn nokkrar myndir úr réttunum. Hér má nálgast þær. Stefni á að setja inn fleiri myndir þegar ég finn ókeypis netmyndaalbúm með stóru geymsluplássi. Veit einhver um svoleiðis?
2.11.04
Fór á The Village í gær. Hún var fín. Það sem var ekki fínt var að í bíó var fullt af fólki sem gat ómögulega haldið kjafti meðan á sýningu stóð. Píkuskrækir og gelgjuhlátur fyrir aftan mig, og í röðinni minni var meira að segja maður sem talaði í gemsann af miklum móð, stóð upp, kom inn aftur með annan vin sinn, settist niður og byrjaði að spjalla við konuna sínu. Og þetta var ekkert hvísl: "æi hvað heitir þessi leikari aftur?"... Neeeei, bara spjall um daginn og veginn, hátt og snjallt. Og alls staðar í salnum heyrði maður einhver svona læti. Af hverju fer fólk í bíó ef það ætlar ekki að horfa á myndina??? Mér finnst það með ólíkindum. Held ég verði að kaupa mér DVD spilara ef ég á ekki að fara yfir um.
Það var þetta líka rosalega þrumuveður í nótt. Mér fannst það skemmtilegt og nennti ekkert að fara að sofa. Sem er líka allt í lagi. Sjáum hvort maður nenni ekki bara að læra aðeins í syfjunni.