Hólímólí, skilaði ritgerðinni í dag. Er í svo miklu spennufalli að ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Er búin að gera bæði. Það lítur semsagt út fyrir að ég sé að fara að útskrifast (og já, takið 24. júní frá). Ég þori samt ekki að fagna... það getur örugglega enn eitthvað farið úrskeiðis og ég vil ekki jinxa þetta.
31.5.06
Æi, var búin að búa um rúmið og bursta tennur, en leiðbeinandinn minn var að senda mér ritgerðina með athugasemdum sem þýðir að ég er ekkert á leiðinni í ból. Meira kaffi, meira nikótín. Er orðin smá stressuð, kannski út af þessu "GO GO GO!" sem kennarinn skrifaði í lok ímeilsins. Af hverju þarf ég alltaf að vera með allt á síðustu stundu?
30.5.06
Þemapartý hjá Glókolli um þarnæstu helgi. Við erum ekki búin að ákveða þemað og eru allar uppástungur vel þegnar.
Mér var reyndar að detta í hug í ljósi nýliðinna atburða að Dirty Sanchez þema gæti verið skemmtilegt. Vinnur þá sá sem teiknar á flesta.
29.5.06
Mig vantar myndarlegan mann til að fara með mér í rómantíska vikuferð til Feneyja eða Rómar. Ekki er æskilegt að áframhaldandi samband eigi sér stað eftir að ferð lýkur. Bezt væri ef viðkomandi gæti greitt fyrir ferðina en ég yrði þó reiðubúin að leggja einhvern pening í ævintýrið. Viðkomandi verður að vera hress, kærulaus og skemmtanaglaður og má alls ekki pína mig til að hanga á hundleiðinlegum söfnum allan daginn. Hann verður hins vegar að vera reiðubúinn að eyða talsverðum tíma í bókabúðum, á veitingastöðum og útikaffihúsum.
Takk fyrir.
28.5.06
Halló halló! Steinsofnaði í sófanum yfir handbolta... vaknaði rétt í þessu við viðbjóðinn Life with Bonnie. Er ég búin að sofa í marga tíma? Hvað gerðist? Fokk, nú þarf ég að læra fram á nótt. Mig langar í nammi*. Kræst. Oj, auglýsing fyrir brúðkaupsógeðsþáttinn Já. Herregud, hvað er að koma fyrir þennan blessaða heim?
*Nennti ekki út í sjoppu svo ég át strásykur úr dollunni. Það var gott.
Hérna er myndband sem Glókollur tók af mér um daginn þegar ég var að gefa kisa að borða. Ef þið trúið ekki að þetta sé ég þá er sko meganærmynd af frekjuskarðinu í lokin sem ætti að taka af allan vafa.
Vá hvað það var viðbjóðslega gaman á föstudaginn. Ótrúlega gaman. Kosningar svosem ekkert óvænt. Vildi bara óska að exbé hefði ekki komið manni að. En svona er þetta. Ætla að reyna að drullast til að klára ritgerðina í dag. Það er nú samt freistandi að dobbla Glókollinn sinn í smá bíltúr í góða veðrinu. Verð bara að passa mig að snúa ekki baki í hann. Maður veit aldrei á hverju maður má eiga von. "Dansi dansi dúkkan mín, dæmalaust er stúlkan fín...". Þetta skilur væntanlega enginn nema nánasti hópur, en það er líka allt í lagi.
25.5.06
Díses, ég reyki alltof mikið, drekk alltof mikið, borða viðbjóðslegan mat og stunda bara alltof subbulegt líferni yfir höfuð. Ég verð að fara að taka mig á ef ég ætla að lifa til þrítugs.
Sá annars fallegasta karlmann sem ég hef á ævi minni séð á 11 í gær. Það var vangefið hvað hann var flottur. Í fyrsta skipti í langan tíma þurfti ég að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég myndi ekki eiga séns í þennan gaur in a million years. En ég ætla að elta hann uppi um helgina. Fyrr eða seinna verður hann of fullur til að vita hvað hann er að gera og getiði hver verður þá tilbúin að skerast í leikinn og koma honum heim (til mín)? Ó já, herra fullkominn, be afraid, be very afraid.
24.5.06
Komin á blaðsíðu 14 og finnst ég hreinlega verðskulda bjór! Svo er ég með appendixa dauðans þannig að ritgerðin verður gasilljón blaðsíður. Ætli fólk viti að það kostar marga þúsundkalla að láta prenta þessa skratta? Ég þurfti að borga þúsara fyrir stykkið af ítölskuritgerðinni sem var örugglega stysta BA ritgerð í sögu HÍ. Það var varla hægt að líma á henni kjölinn því hún var svo þunn. Þetta verður nú eitthvað annað.
23.5.06
Bööhöö, er búin að sitja og stara á tölvuskjáinn síðan snemma í morgun. Ég er alveg andlaus. Ætli ég sé ekki bara búin að eyðileggja á mér heilann. Það var nú kominn tími til... og merkilegt í rauninni hvað þetta grey entist.
Fékk áðan fyrsta uppkast til baka frá enskuleiðbeinanda. Hann var nú bara ánægður með það sem komið var. Við eina setningu skrifaði hann samt: "ugh! rewrite!". Það fannst mér mjög fyndið. Maðurinn er algjör snillingur.
22.5.06
Ég fór og lét opna kortin mín þar sem það virðist ekkert hafa verið fiktað við þau. Þetta var ansi skemmtilegt (og dýrt...) ævintýri. Djöfull eru mánudagar annars súrir þegar maður dettur í það á laugardögum. Er maður orðinn svona gamall?
21.5.06
Jæja öppdeit. Fór á gistiheimilið og náði í veskið með seðlaveskinu og lyklunum. Get ekki betur séð en að það sé allt í seðlaveskinu nema peningurinn. Fokkitt. Fór svo á Kaffibarinn og þar var síminn, ásamt skónum og snyrtibuddunni. Vá hvað ég varð glöð. Það var nú reyndar búið að stela einhverju úr snyrtibuddunni (þ.á.m. rauða fallega varalitnum) en líka fokkitt þar. Ég er semsagt minna fúl, en samt ennþá yfir mig hneyksluð að fólki detti svona nokkuð í hug. Alveg orðlaus bara. Er samt auðvitað þakklát fólkinu sem fann dótið mitt víðsvegar um miðbæinn og kom því á örugga staði. Það eru greinilega ekki bara fífl þarna úti. Ég ætla að fá mér mittisveski fyrir næsta djamm. Ef ég fer þá á djammið aftur, ég er ekkert viss um það. Andskotans.
Noh, var að fá símtal frá pabba sem tjáði mér það að það hefði verið svarað í símann minn á Kaffibarnum. Þar fannst hann víst eftir lokun í gær. Þjófakvikindin hafa greinilega farið um víðan völl, ég vona að þeir séu ógeðslega þunnir og ælandi, helvískir.
Kvöldið í gær byrjaði vel með snilldarpartýi hjá Glókolli. Svo var stefnan tekin á 22 en það var vibbaröð svo við fórum á 11. Það var fínt framan af en gamanið súrnaði all svakalega undir lokin þegar einhver kúkur stal töskunni minni. Hún hékk á stólnum fyrir aftan mig og var allt í einu horfin. Það var ógeðslega gaman að bíða þangað til staðurinn lokaði til að geta leitað í bjórblautum skúmaskotum að helvítis töskunni. Og bíða svo fyrir utan í skítakulda með vafasömu liði skoðandi hvort fólk væri nokkuð með mína tösku. Sem innihélt peningaveskið mitt með öllu í, lyklana mína, gemsann, snyrtiveskið og háhæluðu gullskóna mína. Ég fékk að gista á sófanum hjá Glókolli og þurfti svo hringja og láta loka öllum kortum og punga út 4000 kalli fyrir lyklagaur sem hleypti mér inn til mín áðan. Eða Glókollur þurfti að punga út öllu heldur því ég var náttúrulega ekki með neinn pening. Svo var hringt í gemsa Glókolls frá vísa þar sem kortin mín höfðu fundist á einhverju gistiheimili. Ég hringdi þangað og þá höfðu einhverjir gaurar komið með töskuna mína. Það vantar víst skóna, gemsann og snyrtibudduna í hana, en seðlaveskið og lyklarnir eru í henni, sem er þó eitthvað. Væntanlega engir peningar, en það var nú ekki nema þúsari í veskinu sem betur fer. Ég skýst á eftir og næ í þetta.
En ég spyr bara, hvað er að fólki? Þessu var stolið nánast fyrir framan nefið á mér! Þvílík ósvífni í þessu liði. Ég vona bara að þeir geti notað rauða varalitinn minn og glænýja rándýra maskarann og baugahyljarann sem ég keypti á föstudaginn. Kræst hvað fólk er vangefið. Ég er ekkert reið einu sinni, bara ógeðslega sár yfir því að fólk skuli gera svona nokkuð. Aldrei dytti mér það í hug og þess vegna hef ég aldrei verið neitt stressuð yfir þessu. Skammist ykkar bara, þetta var ömurlegt.
18.5.06
Össs, við ekki með í júróvísjön! Ég er að segja ykkur það, við komumst aldrei framar í þessa aðalkeppni. Ömurleg keppni. Allt svik og prettir. Annars skiptir þetta ekkert svo miklu máli fyrir mig, ég verð hvort sem er orðin blindfull löngu fyrir stigagjöf.
Mama needs a new pair o'shoes...
Nýja debetkortið mitt ætti að verða tilbúið í dag. Ekki seinna vænna þar sem mig sárvantar nýjan bol fyrir laugardaginn. Og fullt af öðru dóti. Mig er farið að klæja í fingurna. Það er ekkert eins ljúft og hljóðið sem myndast þegar glænýrri segulrönd er rennt í gegnum posa. Koddu til mömmu elsku kort.
Æi, klukkan er næstum orðin níu og ég er ekki ennþá búin að kúka neitt. Ætti ég að fara á slysó? Mér líður hálf asnalega yfir þessu.
17.5.06
Enskuritgerðin mín er svo skemmtileg! Miklu skemmtilegri en ítölskuritgerðin. Þ.e.a.s. skemmtilegri í skrifum... ég efast einhvern veginn um að hún verði skemmtileg aflestrar fyrir aðra en sjálfa mig.
Nú fer að styttast í að 22 opni aftur. Gríðarlega spennandi. Best væri ef hann opnaði um næstu helgi. Já, það væri eiginlega algjör snilld. Ég er að telja mínúturnar fram að helginni og skrif ganga bara sæmilega þannig að ah, jamm, allt í góðum gír.
16.5.06
Arg! Ég var svo upptekin við það að væla yfir Sex and the City í gær að ég steingleymdi að horfa á Lost. Arg arg. Svo held ég að Gilmore Girls séu í kvöld en ég þori ekki að tékka á því af ótta við að verða pirruð í skapinu... þvílíkur endemis viðbjóður. Af hverju gerist aldrei neitt ógeðslega slæmt hjá leiðinlegum sjónvarpspersónum? Dr. Green dó úr heilaæxli og hann var nú aldeilis skemmtilegur, konan hans Luka dó í stríðinu, Lára í Húsinu á sléttunni varð blind, en þessar helvítis mæðgur bara tralla í gegnum lífið drepandi alla úr helvítis leiðindum með kjaftavaðlinum. Hvar er eiginlega réttlætið í þessum heimi?
Takk annars fyrir sparkið Tinna, ég er ekki frá því að það hafi virkað aðeins.
Ég man ekki hvenær ég fór síðast í búð... sennilega um páskana. Ég er líka orðin smá leið á pasta og Sóma langlokum. Og eggjum og bökuðum baunum og túnfiski úr dós. Já nú stend ég upp og fer í Bónus, ekki spurning. Ég var líka að panta mér nýtt debetkort með yfirdrætti í öðrum banka svo ég er í súpergóðum málum. Þriðji debbinn með yfirdrætti, geri aðrir betur. Og svo er ég að fara að vinna í banka í sumar eins og ekkert sé sjálfsagðara. Fokk. Og talandi um það, þá er strax búið að bjóða mér á eitthvað starfsmannadjamm á föstudaginn. Ég er náttúrulega himinsæl með það. Og svo júróvísjönpartý hjá Glók... hjá Bjössa í Dúfnahólum 10 á laugardaginn. Þess vegna verð ég að klára ritgerð. Komaaasssooo.
Æi nennir einhver að sparka í rassinn á mér? Er komin með hálfa blaðsíðu, þá vantar nú bara nokkrar. Það stendur reyndar í reglum að BA ritgerð eigi að vera 20-30 blaðsíður. Það þýðir að ég fer ekki einni kommu yfir 20 blaðsíður, ekki séns. Með fjórföldu línubili. Jamm, desperate times, desperate measures. Enginn tími og enginn metnaður. Reyndar var ég eitthvað að gaufast í ítölskuritgerðinni í marga mánuði og hún rétt slefaði upp í lágmarkið svo það er ekkert að marka þetta. Meeeen, ég nenni þessu varla.
15.5.06
Gleymið öllu slæmu sem ég sagði um leiðbeinöndina. Hún er búin að gefa mér einkunn fyrir bæði BA ritgerðina og litlu sérverkefnisritgerðina. 9 fyrir báðar. 9 I tellsya. Djöfull ætla ég að skella einum blautum beint á kinnina á henni næst þegar ég sé hana.
13.5.06
Djö... hvað svissneska júróvisjónlagið er ömurlegt. Heimsfriður og öll saman getum við látið það ganga og bla bla blaaaa, leyfið mér að æla.
Annars er ég alltaf að komast að því betur og betur hvað ég er með vangefið alltof mikla húð í andlitinu. Hvert fer maður til að láta umskera á sér hausinn? Í einhverja sínagógu bara?
Vá hvað ég meig í mig af hlátri yfir þessu. Það er sko eins fokking gott að ritgerðin verði vel á veg komin um næstu helgi. Er ekki Evrusýn annars um næstu helgi?
12.5.06
Sofnaði yfir skólabókunum áðan og dreymdi þvílíkt rugl. Var m.a. að þvælast upp að Jökulsárlóni að taka myndir og tala ítölsku við Krillu í sambandi við kvöldið. Þetta var allt fáránlegt. Krilla, talarðu kannski ítölsku?
Vaknaði svo við lætin á leikskólanum fyrir neðan mig. Fóstrurnar eru farnar að taka upp á þeim ósið að spila tónlist fyrir börnin meðan þau leika sér úti. En þetta er engin venjuleg tónlist heldur eitthvað viðbjóðslegt austur-evrópskt teknóhelvíti með strumparöddum. Börnin umturnast náttúrulega við þessi óhljóð og í hlaupa um garðinn í eyðileggingarhug eins og kakkalakkar á spítti. Öskrandi og snarvitlaus, sei sei já.
Verð að fara, þarf að aflita á mér hárið, fara í hlýrabol og dansa á svölunum með sjálflýsandi plaststauk í hendi.
Ég hata föstudaga þegar ég er fyrirfram búin að ákveða að gera ekki neitt. Það verður bara ég, bangsaflugur dauðans, kók, sígó og skólabækur í kvöld. Partý partý. Oj, ég gæti gubbað.
11.5.06
Herregud! Heyrði þvílíkar drunur... var þá ekki komin önnur hlussa sem ætlaði að troða sér inn! Hún var alltof lengi að reyna að koma sér inn um gluggann (því hún var svo stór) þannig að ég náði að loka honum á nefið á henni. Nei nei, heyri ég þá ekki ískur og sé hvar helvítið er að baksa við að opna svalahurðina! Ég læsti alveg um leið auðvitað en skepnan gaf sig ekki og hjakkaðist á húninum í tjah, talsverða stund. Maður missir reyndar svolítið tímaskynið þegar svona hörmungaratburðir gerast, en það var a.m.k. mínúta. Hún gafst svo upp en kvöldið er ónýtt hjá mér. Kófsveitt úr stressi og að kafna úr reykingastybbu því ég þori ekki að opna út. Næsta padda sem kemur inn til mín verður skotin í hnakkann með riffli, ég bara þoli þetta ekki lengur.
Noh, ég er búin að borða pizzu í hvert mál síðan í hádegismat í gær og ég lít út eins og ég sé komin sjö mánuði á leið. Ég vissi alveg að þetta væri ekkert megrunarfæði en fyrr má nú rota en dauðrota. Ef ég hefði efni á þessu að staðaldri þá næði ég pottþétt þriggja stafa tölu fyrir útskrift. En ég var nú eiginlega hætt við það.
Glæsilegt! Búin að fylla út næstum allar orðatöflurnar. Næst á dagskrá er að reikna út tölfræði tökuorðanna í textunum mínum. Það er stuð og ætti ekki að verða neitt vandamál fyrir mig því ég er sjúklega góð í stærðfræði. Hefði líklegast orðið eðlisfræðingur ef faðir minn hefði ekki kæft það í fæðingu með því að hreyta í mig að fjölskyldan okkar hefði aldrei getað neitt í raunvísindum og ég ætti bara að láta það eiga sig. Þannig að í staðinn fyrir að finna upp eilífðarvél eða eitthvað álíka kúl verð ég enskukennari með fimmkall á mánuði í laun. Thanks dad.
Ó NEEEEEEEEEI það er ógeðslega stór hunangsfluga í glugganum. Ég heyrði í henni þremur tímum áður en hún kom inn en ég hélt að það væri þyrla að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Nú hangir kvikindið í hansagardínunni og smyr sig með eitri áður en hún ræðst á mig og drepur mig. En fyrst verpir hún eggjum í rúmið mitt. Í alvöru, hún er að gera eitthvað viðbjóðslegt, öll að hlykkjast til og frá og snyrta sig... æi hrollur. Hringdi í fyrrverandi tilvonandi eiginmann minn en hann þóttist vera að vinna og gat ekki bjargað mér. Hann sagði mér líka að hætta þessum aumingjaskap og að hunangsflugur væru ekkert hættulegar. Það er bölvuð lygi. Glókollur var miklu samúðarfyllri og er í þessum töluðu orðum á leiðinni til mín að bjarga lífi mínu. Eins gott, ég er alveg að fá hjartaáfall.
10.5.06
Domino's frá mömmu í hádeginu og pizza hjá Guffa í kvöldmat. Það er ekki alltaf ógeð að vera námsmaður.
Eins og mér var orðið drullusama um ítalskan viðtengingarhátt í lok þeirrar ritgerðar, er mér líka orðið nokk sama núna hvort orðin í textanum sem ég er með koma úr norsku, latínu eða frönsku. Og hvað þá hvenær þau urðu hluti af ensku tungumáli. Glansinn er oft svo fljótur að fara af hlutunum þegar maður þarf að demba sér í þá af fullum krafti. Og þá sérstaklega þegar maður er í kapphlaupi við tímann.
9.5.06
Geeeeisp, hvað ég er orðin þreytt á tölvuskjánum. Ég og Sindri fórum í bíltúr áðan. Við erum farin að taka laugara á hverjum degi eins og verstu landsbyggðarplebbar. En maður verður nú að fá ferskt loft.
Ýsa og kartöflur í pottinum, ekki saman þó. Verst að bæði smjörið og tómatsósan er að verða búið. Ég borða eiginlega tómatsósu með öllu þannig að þetta er hið versta mál. Eftir mat er svo bara kaffi, kex, sígó og tölvan áfram. Djöfull er þetta fúlt og leiðinlegt.
Ég fékk tölvupóst áðan frá Fimmunni (sem ég vinn aldrei neitt í, prump dauðans). Fyrirsögnin var: Langar þér frítt í bíó? Þér? Heimur versnandi fer. Og nú man ég eftir því að Málfarsfasistarnir ehf. hafa enn ekki haldið sinn fyrsta fund. Ætli ég og doktorinn verðum ekki bara að stofna Edinborgarútibú í haust? Þá verður nú fyrst kátt í höllinni þegar nördarnir tveir geta besservissað um málfræði og stafsetningu yfir nokkrum köldum. Æsispennandi.
Ég er eiginlega að verða afskaplega stressuð yfir þessari ritgerð. Núna sit ég sveitt og etímonlæna hvert orðið á fætur öðru í þriðju og síðustu bókinni sem ég skrifa um en þetta tekur bara allt svo suddalega laaaangan tíma.
En það er 16 stiga hiti úti, pælið í því.
8.5.06
Ég þarf víst ekki lengur að velta því fyrir mér hvað ég ætla að kjósa. Ég virðist hafa gert upp hug minn á föstudagskvöldið. Ég er a.m.k. með VG barmmerki í gallajakkanum mínum sem ég man ekkert hvernig mér áskotnaðist. Ætli ég hafi skráð mig í flokkinn? Eða ætli ég sé kannski bara í framboði? Helvítis brennivín.
Þegar ég var lítil átti ég beibídúkku svokallaða en það voru dúkkur með haus og útlimi úr plasti en mjúkum búk. Þær voru líka með einn asnalegan lokk upp úr enninu. Þetta þótti gríðarlega fínt og hipp og kúl. Mín dúkka hét Ólöf Andra og ég var hæstánægð með hana.
Einn daginn tók lítil frænka mín upp á því að krota framan í Ólöfu. Því miður reyndist ekki mögulegt að ná pennastrikunum framan úr henni með nokkru móti. Það endaði með því að móðir mín skar þau framan úr henni. Ekki varð hún frýnileg eftir aðgerðina blessunin og var upp frá því kölluð Óla Scarface eða Lóa kuti.
Ég hef ekki séð Ólöfu Öndru í nokkurn tíma. Ef ég finn hana skal ég setja inn myndir af útskornu smettinu á henni.
Ég er að spá í að fara upp á bókhlöðu á eftir til að reyna að koma einhverju í verk. Tilhugsunin um að vera ekki nettengd í nokkra klukkutíma er samt alveg að gera út af við mig. Hvenær varð maður svona firrtur?
Ég veit ekki hvað í andskotanum gerðist í gær. Ég fór í sakleysi mínu í ísbíltúr með Glókolli fyrir hádegi og endaði bara í tómu tjóni. Skil ekkert í þessu.
7.5.06
Ég fékk mér smjörsteikt beikon og egg, tómata og hrásalat í morgunmat. Það var hrikalega gott. Vill einhver elda fyrir mig enskan morgunmat á hverjum morgni? Engin laun í boði nema gleði og kærleikur. Og koss á kinn.
6.5.06
Skemmtilegt í gær, kvissið stuð og allir fengu bol og bjór. Sungum hástöfum fullt af góðri mússík fyrir utan Grandið. Það fékk einhver kona lánaðan símann minn af því hún þurfti nauðsynlega að ná í einhvern what's-his-face á Langabar. Þegar hún skilaði honum sagði hún: "Hérna. Þú ert að verða inneignarlaus". Hún sagði sko ekki einu sinni takk.
Fór í þrítugsafmæli hjá einhverjum sem ég þekkti ekki. Fór svo í matarboð hjá Þjóðverjanum með Snorra. Það var skrýtið, við sátum blindfull og horfðum á þau borða og reyndum að líta ekki út fyrir að vera svona full. Það var asnalegt. Fórum aftur í afmælið með einn matargestinn með okkur. Drukkum aðeins meira. Svo drap ég símann minn með köldu blóði, blessuð sé minning hans. En Sindri lánaði mér annan síma svo ég er a.m.k. ínáanleg. En auðvitað fokking inneignarlaus þökk sé einhverjum ósvífnum kvenmaur.
Dagurinn í dag var svo bara snilld dauðans. Glókollur og bróðir hans drógu mig á lögguuppboð. Sölvi átti að kaupa hjól en keypti af einhverjum ástæðum huge-ass magnara. Það var skemmtilegt. Mig langaði ógeðslega að bjóða í keðjusög og hokkýgrímu. En að hika er sama og tapa. Svo keyptum við okkur pizzu og ís og lufsuðumst í bænum. Og svo Nings og sjónvarpið með Glókollinum mínum. Algjör sæla.
5.5.06
Prófin búin, það er hálf skrýtið. Já svei mér þá. Ég nenni ómögulega að hafa áhyggjur af þessari ritgerð fyrr en í fyrsta lagi á morgun eða sunnudag. Í kvöld er það kviss og nóg af bjór.
4.5.06
Althusser þótti nú aldeilis skemmtilegt að koma með skilgreiningar á hlutunum og finna þeim skrýtin nöfn sem erfitt er að muna. Ætli þetta fólk fatti ekkert að við þurfum svo að læra þetta? Hvernig væri að skíra hlutina bara eitthvað einfalt?
Örstutt í síðasta prófið mitt EVER (í H.Í. þ.e.a.s.). Nema ég taki upp á því að falla og fara í sumarpróf. Njiii, seinni tíma vandamál.
3.5.06
Fór á blessaðan fundinn út af þessari heimildaskrá. Oh, það er svo hressandi svona í morgunsárið að hafa rétt fyrir sér. Múhahahaha. MÚÚÚHAHAHAHAHA!!! (Hlátur undirstrikaður með fingraþríhyrningi illrar íhugunar).
2.5.06
Það er nokkuð ljóst að róstbíflangloka, lítri af kóki, stórt tromp og poki af súkkulaðirúsínum er aðeins of mikið í minn mallakút svona síðla kvölds. Malli er samt í ágætis þjálfun og kvartar ekki mikið eða oft þrátt fyrir ítrekaðar misþyrmingar. Helst að hann geri uppreisn þegar um harkalega neyslu áfengis hefur verið að ræða kvöldinu áður. En núna er hann aðeins að kvarta yfir óhollustunni.
Ætli maður þurfi ekki að taka upp heilbrigðara mataræði bráðlega. Að sjálfsögðu ekki meðan ég er í prófum, það segir sig nú sjálft. Seinna. Djöfull er remúlaði samt ógeðslega gott.
Fyrsta prófið búið. Það gekk nú ekkert hörmulega meðan á því stóð fannst mér. Það fóru svo að renna á mig tvær grímur þegar ég komst að því eftir prófið að fólk var að skrifa svona, tjah þrjár til sex blaðsíður við hverja spurningu, meðan ég var með eina og hálfa við þær allar.
Það eru þá tveir möguleikar í þessu. 1) að ég hafi komið mér að kjarna málsins í styttra máli en hinir og án óþarfa blaðurs. 2) Eða þá að ég hafi hreinlega ekki skrifað nógu mikið, það vanti fullt í svörin hjá mér og ég hafi þ.a.l. klúðrað prófinu algjörlega. Sem væri náttúrulega ekkert skrýtið miðað við undirbúningsleysi og almennan skort á metnaði í lífinu. Og djööööfull sem ég er ekki að nenna að læra fyrir næsta próf, bókmenntagreiningu, eða kúrs djöfuls og dauða eins og hann er betur þekktur. Shoot me now.
1.5.06
Hvernig í fokkings andskotanum stendur á því að ég er að reyna að byrja að læra núna? Eftir miðnætti. Fyrir próf sem er á morgun. Á MORGUN! Er ég algjört moððerfokking moron? Ef ég væri ekki ég þá myndi ég nefbrjóta mig fyrir að vera hálfviti.
Góður Lost í kvöld samt.
(P.s. er að fara á krísufund á miðvikudaginn með leiðbeinönd og skorarformanni út af heimildaskráarveseninu. Djöfull hlakka ég til að reka þetta kjaftæði ofan í kokið á henni með skítugum klósettbursta.)
Hin litla systir mín, Sandra skvísa, varð tvítug í gær og fær hamingjuóskir og kossa. Hvenær varð þetta svona stórt? Trítlan bróðir minn er að fara að fermast eftir nokkra daga... hann var ekki einu sinni fæddur þegar ég fermdist. Ég veit ekki hvað þetta heldur að þetta sé. Muniði eftir Bonsai köttunum sem allir ætluðu að bjarga (kettir í glerflöskum, þvílíkur brandari)? Ég ætla að búa til Bonsai systkini. Sem stækka aldrei. ALDREI SEGI ÉG!!!